Umhverfisráðherrar hvetja til sjálfbærrar nýtingar á plasti

02.05.17 | Fréttir
Framvegis ber að framleiða, nýta og endurvinna plast í hringrásarkerfi sem skaðar hvorki heilsu manna né umhverfið. Þannig hljómar framtíðarsýn nýrrar plastáætlunar umhverfisráðherranna þar sem Norðurlönd stefna að aukinni sjálfbærni við nýtingu og endurvinnslu á plasti.

„Stefnubreyting verður að eiga sér stað um allan heim ef takast á að draga úr magni plastúrgangs og örplasts í hafinu. Með norrænni plastáætlun stuðla löndin að því að dregið verði úr afleiðingum plastmengunar. Ég bind vonir við raunhæft samstarf um viðeigandi aðgerðir,“ segir Vidar Helgesen, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs og formaður norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál á árinu 2017.

Áætlunin er byggð á fyrri samnorrænum aðgerðum í plastmálum. Sem stefnumótunartæki á hún að efla samlegðaráhrif í norrænu samstarfi og auka enn frekar þá þekkingu og vitund um plast á Norðurlöndum. Ráðherrarnir benda sérstaklega á viðfangsefni vegna úrgangs í hafinu og jafnframt það hlutverk sem plastið gegnir í hringrásarhagkerfinu.

„Norðurlöndin verða að vera forystusvæði þegar kemur að því að draga úr umhverfisáhrifum af völdum plasts. Við þurfum að grípa til aðgerða til að minnka losun örplasts í vötn og hafið. Mikilvægt er að norrænu löndin dýpki samstarf sitt og skiptist á þekkingu og reynslu,“ segir Karolina Skog, umhverfisráðherra Svíþjóðar. 

Sex stefnumótandi áherslusvið

Norræna plastáætlunin skiptist í sex stefnumótandi áherslusvið en þau eru:

1) forvarnir gegn myndun plastúrgangs og stuðningur við hönnun fyrir endurnýtingu, lengri endingartíma og endurvinnslu;

2) skilvirk söfnunarkerfi fyrir úrgang og aukin endurvinnsla á plastúrgangi;

3) samstarf um að stöðva myndun plastúrgangs í hafinu og finna hagkvæmar leiðir til hreinsunar;

4) að þróa þekkingu á örplasti og bera kennsl á aðgerðir sem draga úr losun örplasts í umhverfið;

5) að dýpka þekkingu á umhverfisspori plasts sem er lífgrundað og lífbrjótanlegt;

6) að dýpka þekkingu á skaðlegum efnum við endurvinnslu á plasti.

Styðja alþjóðlegar aðgerðir

Plastáætlun á að marka stefnu í aðgerðum sem draga úr plastmengun á Norðurlöndum en hún er einnig framlag landanna til framkvæmdar á alþjóðasamningum, þar á meðal sjálfbærnimarkmiðum SÞ (áætlun til ársins 2030), síðustu yfirlýsingum Umhverfisþings SÞ (UNEA) og átaki Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) gegn úrgangi í hafi, #CleanSeas.

Framkvæmdastjórn ESB vinnur að undirbúningi áætlunar um plast í hringrásarhagkerfi. Í bréfi til framkvæmdastjórnarinnar undirstrika umhverfisráðherrar Norðurlanda mikilvægi þess að skapaður verði góður eftirmarkaður fyrir plast, að hvatt verði til hönnunar fyrir endurvinnslu og að ráðist í aðgerðir gegn örplasti í neysluvörum.

Sjá einnig:

  • Átak um hreinni höf á Norðurlöndum og á heimsvísu #CleanSeas