Ann-Christin Waller & Anni Wikberg (myndskr.)

Ann-Christin Waller & Anni Wikberg (ill.)
Photographer
Ann-Christin Waller & Anni Wikberg
Ann-Christin Waller & Anni Wikberg (myndskr.): På en trollsländas vingar. Skáldsaga, sjálfsútgáfa, 2018.

Í sögubókinni På en trollsländas vingar hittum við fyrir fimm börn sem lenda í ýmsum ævintýrum þar sem ímyndunaraflið leikur lausum hala. Hin sjö ára Júlía er vakin um miðja nótt af talandi eldflugu og flýgur í kjölfarið til Eldóradó, þar sem hún skrifar bók um landið gullna með hjálp töfrapenna. Óskar, átta ára, hefur heyrt að allt sem lifir muni einnig deyja og kvíðir því sem gerist eftir dauðann. Í draumi hittir hann næturgala og fylgir honum að trjástubbi sem hefur verið til frá upphafi tímans. Trjástubburinn getur róað Óskar með því að svara spurningum hans. Erik litli vill verða aflasælli við fiskveiðar. Hann hittir sjávarguðinn Póseidon og tekst að múta honum með bláberjaböku til að hjálpa sér. Að lokum kynnist lesandinn tveimur ungbörnum, Abis og Bebis, sem svífa um á skýi, virða fyrir sér fólkið niðri á jörðinni og reyna að velja réttu fjölskylduna til að búa hjá. Að lokum finna þau heimili og fjölskyldu sem þeim líst á og halda niður til jarðarinnar þar sem þau fá nöfnin Sofia og Alma.

Í På en trollsländas vingar leggur Ann-Christin Waller út frá tilvistarlegum vangaveltum og draumum barna. Hún nýtir sér hefðbundið sagnaform til að fjalla um áhugaverð málefni lífs, dauða og mannlegrar tilveru. Waller setur mark sitt meðal annars á textann með því að nota orð og orðasambönd úr mállýsku Álandseyja. Sögurnar í På en trollsländas vingar eru skrautlegar, hugvitsamlegar og hentugar til upplestrar. Fullorðinn lesari getur gripið á lofti þær pælingar og vangaveltur sem kvikna með barninu við lesturinn svo að úr verði áhugaverðar samræður milli fullorðins og barns. Litríkar myndskreytingarnar eru eftir Anni Wikberg, sem hefur unnið að fjölmörgum bókum ásamt Ann-Christin Waller.