Handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Greta Thurnberg
Photographer
Vincent Isore/Scanpix
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2019 hlýtur Greta Thunberg frá Svíþjóð.

Þetta var tilkynnt rétt í þessu á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í tónleikahúsinu í Stokkhólmi. Greta Thunberg hlýtur verðlaunin fyrir að hafa blásið auknu lífi í umræðuna um loftslags- og umhverfismál á örlagaríkum tímapunkti í veraldarsögunni og orðið milljónum manna um allan heim innblástur til að krefjast veigamikilla aðgerða af hálfu stjórnmálamanna.

Rökstuðningur dómnefndar

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2019 hlýtur Greta Thunberg fyrir að hafa blásið auknu lífi í umræðuna um loftslags- og umhverfismál á örlagaríkum tímapunkti í veraldarsögunni og orðið milljónum manna um allan heim innblástur til að krefjast veigamikilla aðgerða af hálfu stjórnmálamanna.

Síðan Greta fór í sitt fyrsta skólaverkfall hefur hún ekki aðeins komið af stað alþjóðlegri loftslagshreyfingu heldur einnig vakið okkur til umhugsunar um neyslumynstur okkar og bent á þörfina fyrir pólitískar aðgerðir til að minnka neyslu á vöru og þjónustu sem útheimtir mikið af jarðefnaeldsneyti og öðrum auðlindum. Með eigin skýra fordæmi hefur Greta vísað fjölda fólks veginn og vakið það til vitundar með aðferðum sem virðast þegar hafa haft áhrif á neyslu almennings og ferðavenjur, alveg í takt við tólfta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: „Ábyrg neysla og framleiðsla“, sem er einnig þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs nú í ár.

Á skömmum tíma hefur Gretu tekist betur en nokkrum öðrum að auka meðvitund almennings í norrænu löndunum og annars staðar í heiminum um loftslags- og umhverfismál. Af þrautseigju og sannfæringarkrafti hefur hún hvatt heimsbyggðina til að taka mark á rannsóknaniðurstöðum og grípa til aðgerða á grunni staðreynda. Hún hefur þegar látið svo mikið að sér kveða að talað er um hnattræn „Gretu Thunberg-áhrif“.

Greta hefur bæði náð til leiðtoga og ráðamanna heimsins og barna og ungmenna í norrænu löndunum, Evrópu og víðar. Með því að hvetja stjórnmálamenn til að taka loftslags- og umhverfisvána alvarlega og láta ekki staðar numið við að ræða ný og umhverfisvænni störf hefur hún stuðlað að auknu jafnvægi í stjórnmálaumræðunni.

Þegar hún mætir andstöðu og fær að heyra frá fullorðnum að ekki taki því að láta sig þessi mál varða, að það sé hvort sem er um seinan, svarar hún: „… maður er aldrei of lítill til að leggja sitt af mörkum.“  Og það hefur hún svo sannarlega sýnt.