Marjun Syderbø Kjelnæs

Marjun Syderbø Kjelnæs
Photographer
Bókadeild Føroya Lærarafelags
Marjun Syderbø Kjelnæs: Skriva í sandin (Skriv i sandet), 2010.

Bók Marjun Syderø Kjelnæs Skriva í sandin, 2010, á íslensku Skrifið í sandinn, 2012, er raunsæ nútímaskáldsaga fyrir unglinga. Í tíu köflum bókarinnar er sagt frá fimm stúlkum og fimm drengjum á aldrinum 16 til u.þ.b. 18 ára. Sagan nær yfir tvær helgar og segir frá því hvernig líf þeirra tengist meira og minna á því tímabili Sagt er frá megin atburðum bókarinnar mörgum sinnum, í hvert sinn frá sjónarhorni nýrrar persónu. Á þann hátt breytist merking atburðanna einnig aftur og aftur. Atburðir sem í fyrstu virðast ætla að verða að einfaldri svart/hvítri túlkun, verða eftir aðra og þriðju endurtekningu út frá nýju sjónarhorni, fullir af blæbrigðum og mótsagnakenndum smáatriðum. Með þessari fáguðu tækni kemur skáldsagan til skila efni til að skilja og fá innsýn í þær persónur sem um er fjallað. Bókin lýsir ungu fólki í Þórshöfn, sem lifir í alþjóðlegum heimi tónlistar, tísku og lífsstíls, en eru jafnframt háð þeim römmum sem landfræðileg lega og menning afmarka. Bíltúrar með vinunum og tónlistin á mesta styrk geta einungis orðið ákveðið langir á eyju. Höfundurinn gefur hverri persónu ákveðið einkenni sem jaðrar við staðalímynd - kvennabósinn, sá trúaði, anorexíusjúklingurinn, homminn, fegurðardísin o.s.frv. – en fer síðan undir yfirborð staðalímyndarinnar, skiptir um sjónarhorn og sýnir okkur persónurnar sem margbrotna einstaklinga sem hver og einn er með mismunandi fjölskyldubakgrunn, fortíð, tilfinningar og drauma, veikleika og sterkar hliðar. Það getur verið erfitt að vera samkvæmur sjálfum sér ef maður tilheyrir minnihluta. Höfundurinn leikur þann djarfa leik að láta trú vera hluta af raunsærri persónulýsingu. Með því að blanda trúnni, sem er eitt af því mikilvægasta í lífi margra og jafnframt hluti af afmörkuðu daglegu lífi samtímans, í söguna, víkkar hún lýsingu sína á raunveruleikanum til muna. Titill skáldsögunnar úr biblíuversinu um orðin sem Jesú skrifaði í sand og um að sá sem syndlaus er skuli kasta fyrsta steininum, tengist í sögunni unga hommanum, sem gerir þau að sínum, á meðan hann hugleiðir erfiða stöðu sína.

Skriva í sandin er með sinni ákveðnu, látlausu og sannfærandi frásagnarrödd, skýru, hnitmiðuðu málnotkun og úthugsuðu uppbyggingu, mikilvæg skáldsaga fyrir ungu kynslóðina.

Höfundurinn, Marjun Syderbø Kjelnæs, f. 1974, hóf ferill sinn í smásagnasamkeppni árið 2000 og hefur síðan gefið út skáldsögu, smásagnasafn, ljóðasafn og þrjár barnabækur auk þess sem hún hefur skrifað útvarpsleikrit og leikrit. Skriv i sandet hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2011 og var tilnefnd til Vestnorrænu barnabókaverðlaunanna árið 2012.