Marry Ailonieida Somby og Berit Marit Hætta (myndskr.)

Čerbmen Bizi
Marry Ailonieida Somby og Berit Marit Hætta (myndskr.): Čerbmen Bizi – Girdipilohta. Myndabók, 2013

Bizi er ársgamall hreindýrskálfur sem er að þefa af krækiberjum í mosalynginu þegar hann verður þess var að aðeins lengra framundan eru stærri og betri ber. Um leið heyrist einhver háreysti handan trjánna, og áður en Bizi veit af liggur hann kylliflatur og getur enga björg sér veitt. Hann hittir gríðarstórt hreindýr sem másar og blæs með tunguna lafandi út úr stórum munninum. Þetta er Šuvun, hreindýrstarfur með mikið keppnisskap en slæma tímasetningu. Šuvun og Bizi litli þreyta með sér kapphlaup, en það er engin leið fyrir litla kálfinn að hlaupa nógu hratt. Bizi lærir mikilvægi þess að hvíla sig reglulega, mása með tunguna úti og æfa sig heil ósköp. Hann veltir því fyrir sér hvort gullmedalían sé æt og hvað sigurvegarinn geti gert við „besta tímann“.

Čerbmen Bizi – Girdipilohta (Bizi litli, hreindýrskálfurinn fljúgandi) er saga af litlum hreindýrskálfi sem lærir að endingu að fljúga. Á ferðum sínum í leit að móður sinni hittir Bizi ýmis hreindýr. Eftir að hafa hitt hreindýrstarf dregur Bizi þá ályktun að tarfarnir sýni styrk sinn með öðrum hætti en hreindýrskýrnar. Tarfurinn fær Bizi til að efast um faðerni sitt, og skyndilega finnst honum hann munaðarlaus. Bizi hittir fleiri hreindýr á ferðum sínum; kvikmyndastjörnuhreindýr, túristahreindýr og gullkú. Öll láta þau honum þekkingu af einhverju tagi í té. Litli kálfurinn lærir að fljúga, og gleðin tekur öll völd þegar hann finnur móður sína og sér að sú gleði er endurgoldin.

Bókin er skrifuð á aðgengilegu máli, en skírskotar jafnframt sterkt til hefða hins ævaforna samfélags samískra hreindýrahirða. Þannig má miðla fróðleik frá einni kynslóð til þeirrar næstu. Þó að sagan sé skáldskapur geymir hún ýmiss konar þekkingu til komandi kynslóða víða um heim: hamingjan býr nær en mann grunar, heima er best, og ætli gull sé ætilegt? Nöfn sögupersónanna eru nátengd hefðbundnum lýsingum á hreindýrum. Málfarið er sjónrænt, jafnvel ljóðrænt á köflum.

Myndskreytingarnar í bókinni fylgja ákveðnum litbrigðum. Þær styðja við inntak textans, en einkum er það kostur að notaðir eru vatnslitir með ljósum tónum. Myndirnar taka aldrei athygli lesandans frá sögunni. Hreindýrin eru auðkennd með einföldum og auðskildum aukahlutum, svo sem stóru úri, mismunandi litum hornum, Rólex-úri og skartgripum. Þannig verður skemmtilegt að fylgjast með uppátækjum þeirra.