Nina Ivarsson

Nina Ivarsson
Photographer
Göran Segeholm
Nina Ivarsson: Risulven Risulven. Skáldsaga, Rabén & Sjögren, 2017.

Ef lesendur skyldu gera sér vonir um sólskinssögu er best að slá varnagla strax: Það er sársaukafullt að lesa Risulven Risulven eftir Ninu Ivarsson. Aðalpersónan og sögumaðurinn Pär, sem er tólf ára og býr í úthverfablokk, lýsir tilveru þar sem fullorðnir bregðast börnum og börn sýna hvert öðru grimmd.

Pär býr með mömmu sinni, sem er eina fjölskyldan sem hann á og eini trausti punkturinn í lífi hans. Þó kemur á daginn að hún er ekki sérlega traust. Viktor hefur verið vinur Pärs síðan á leikskóla en nú er Viktor farinn að hlusta á raddir sem segja að hann eigi ekki að umgangast Pär. Pär er einmana og útundan bæði í skólanum og frítíma sínum. Bekkjarfélagarnir stríða honum, aðallega fyrir það að hann pissaði einu sinni á sig í bekkjarferð í fimmta bekk. Enginn vissi af því nema Viktor en svo fréttu öll hin það. Pär skilur ekki hvernig það gerðist; Viktor sagði jú að hann hefði ekki kjaftað.

Textinn er meitlaður og sjónarhornið rökrétt: þetta er frásögn Pärs, sögð af hjartaskerandi einfeldni. Það er margt sem Pär vill ekki sjá eða viðurkenna fyrir sjálfum sér: það að bekkjarfélögunum finnist hann ógeðslegur og skrýtinn, að fyrrverandi besti vinur hans hafi ákveðið að fjarlægjast hann, hegðun og neysla móður hans, heimilisaðstæður sem eru allt annað en fullkomnar. Í skólanum útiloka bekkjarfélagarnir hann vegna þess að hann er í ódýrum, skítugum fötum og er blankur. Hann á hvorki farsíma né hjól. Hann er einfaldlega ekki einn af þeim.

En svo gerist dálítið. Kvöld eitt undir lok sumarfrísins er Pär að synda þegar hann hittir stelpu. Á milli þeirra fer varfærnisleg vinátta að myndast. Pär gefur stelpunni gælunafnið Risulven en í raun heitir hún Reza, er þrettán ára og kemur frá Sýrlandi. Þetta samband reynist heldur ekki flækjulaust. Þegar skólinn byrjar verður Risulven að Rihönnu og lætur sem hún þekki ekki Pär. Það hafa þau orðið ásátt um. Risulven fullvissar hinn auðtrúa Pär um að þetta sé leikur og hann heldur sig hlýðinn til hlés í frímínútunum og fylgist með Risulven eignast nýja vini.

Risulven Risulven er sterk frásögn um það að vera utanveltu, um einelti og valdajafnvægi og hve skjótt það getur riðlast og breyst. Nina Ivarsson lýsir hér kynnum tveggja brotinna barna í grimmum heimi á mörkum bernsku og unglingsára. Bókin fjallar um það sem hendir fólk, sem elst upp án félagslegra og fjárhagslegra stuðningsneta, þegar fjölskyldan eða samfélagið hefur brugðist. Höfundur sýnir afleiðingarnar af þessu, bæði góðar og slæmar. Jafnvel hér glittir nefnilega í umhyggjusemi, samúð og kærleika.

Risulven Risulven er fyrsta bók Ninu Ivarsson. Hún var tilnefnd til bókmenntaverðlauna sænska barnaútvarpsins 2018.