Olli-Pekka Tennilä

Olli-Pekka Tennilä
Photographer
Olli-Pekka Tennilä
Olli-Pekka Tennilä: Ontto harmaa. Ljóðasafn, Poesia, 2016

Í Ontto harmaa (á íslensku ”Holur grár”) bregður bókstafnum o oft fyrir, stundum sem tákni eða tómi, stundum sem persónu. Brot af broti virðist ljóðasafnið mynda hring, látlausa fegurð og óendanlega hreyfingu.

Ljóðmælandi leitar allan tímann á lesandann þegar hann horfir á og kannar tungumálið, hugsanir sínar, fyrirbæri og verur í heiminum. Vangavelturnar eru í öllu sínu látleysi notalegar fágaðar og gamansamar í senn. Erindin fylgja hvert á fætur öðru, frjálsleg og af öryggi en ávallt hnitmiðuð, full merkingar og tvíræðni.

Ljóð Olli-Pekka Tennilä verða til á mörkum ljóss og myrkurs á frjósömum akri með sífellt nýjum sjónarhornum og uppgötvunum þar sem sjónum er beint að hinu tilviljunarkennda. Eyjum er líkt við hugsanir, vinnu maursins við vinnu listamannsins, uppgötvunum bregður fyrir en þær halda áfram að vera til þrátt fyrir vera huldar sjónum okkar. Tungumálið og heimurinn eru ein heild og fylgjast að gegnum verkið.

Úti á hafi er erfitt að ímynda sér að veðrið geti breyst

svo skyndilega. Svo gjörsamlega.

Það er erfitt að ímynda sér að aðstæður geti breyst eins

og þær breytast.

Ljóðskáldið og hugsuðurinn Olli-Pekka Tennilä fetar í fótspor Herakleitosar og Mirkka Rekola þegar heimspeki og náttúruvísindi fléttast áreynslulaust inn í ljóðin. Tilgerðarleysið og jarðtengingin í Ontto harmaa gera ljóðin að lifandi, sjálflýsandi verkum þar sem íhugun, hugarafl og athuganir mætast í tungumálinu og mynda óvenju heilsteypta og lifandi heild.

Ontto harmaa er sígilt og frábært ljóðasafn sem ávarpar lesandann á sífellt nýjan hátt. Sýnir það óneitanlega að dýptin er í hinu nána, hinu smáa og hinu einfalda og að jaðarinn rúmar allt sem þarf, og enn fleira.

Olli-Pekka Tennilä prentaði sjálfur finnsku útgáfuna í Heidelberg-háþrýstiprentvél. Tímafrekri prentvinnunni má líkja við vinnu hugans, letursetningunni við lauslega niðurröðun uppgötvana og tungumálið sjálft virðist skilja eftir sig slóð, létt fótaför á pappírnum eins og dýr.

Truflar það þig ef til er afar greint dýr í geimnum? Dýr

sem sagt er að sé afar greint.

Eða ef það er ekki dýr. Það er allavega mállaust, segir ekkert.

Varla að það hugsi.

Þarf þess ekki.

Olli-Pekka Tennilä (f. 1980) gaf út sitt fyrsta ljóðasafn Ololo árið 2008 (ntamo). Næsta ljóðasafn hans, Yksinkeltainen on kaksinkeltaista (Poesia 2012), hlaut Runeberg-verðlaunin í bókmenntum. Þriðja verk hans, Ontto harmaa, var kjörið aforismabók ársins 2016 í Finnlandi. Olli-Pekka Tennilä er einn stofnenda og jafnframt útgáfustjóri samvinnuútgáfunnar Osuuskunta Poesias. Poesia hefur verið brautryðjandi á sviði samvinnuútgáfu í Finnlandi í tæp átta ár.