Rakel Helmsdal og Kathrina Skarðsá (myndskr.)

Rakel Helmsdal &  Kathrina Skarðsá (ill.)
Photographer
Amy Hansen
Rakel Helmsdal og Kathrina Skarðsá (myndskr.): Miljuløtur. Sögubók, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2018.

Sumir höfundar kunna nokkuð sem er ómissandi þáttur barnabókmennta: að skrifa á trúverðugan og sannfærandi hátt um hversdagslega hluti sem börn láta sig varða. Í sögum sínum um Milju kemst Rakel Helmsdal að innsta kjarna barnssálarinnar með trúverðugum, fallegum og fáguðum lýsingum á tilveru aðalpersónunnar. Bókin samanstendur af 12 sögum þar sem hin 12 ára Milja segir frá ýmsu sem hún hefur upplifað undanfarin fimm ár. Lesandinn lifir sig inn í hugarástand Milju gagnvart hversdagslegum atburðum, svo sem dvöl í skátabúðum, sleðaferð á vetrardegi og heimsókn hjá ömmu; atburðum þar sem lesandanum býðst hlutdeild í tilfinningum Milju – söknuði, gleði, samlyndi, sektarkennd, einmanaleika o.fl.

Þetta eru frásagnir frá sjónarhóli barns sem bera vott um traust til barnsins sem hugsandi veru. Milja er tilfinningarík og samviskusöm en jafnframt kraftmikil og hörð af sér. Hún sér fólk; finnur til samkenndar með sínum nánustu og samúðar með þeim sem ekki passa inn í, t.d. vegna geðrænna erfiðleika, og hún er einnig fær um að grípa til aðgerða út frá þessum tilfinningum.

Lýsingin á Milju er persónuleg en jafnframt almenn að því leyti að bæði börn og fullorðnir kannast við það hvernig litlir, hversdagslegir hlutir geta komið af stað tilfinningarússíbana.

Inni á milli frásagnanna eru dálitlir millikaflar; tóm þar sem tíminn stendur í stað. Um leið gefst rými til að átta sig á persónugalleríi og umhverfi bókarinnar og velta því fyrir sér. Í þessum milliköflum tekst myndskreytinum Kathrinu Skarðsá að skjóta enn sterkari stoðum undir Milju í hlutverki sögumannsins með litlum, frekar barnalegum teikningum sem auðvelda lesandanum að átta sig á atburðarásinni  Á bókarkápunni og í hinum eiginlegu söguköflum bókarinnar eru blæbrigðaríkari teikningar, greinilega gerðar af fullorðinni manneskju, sem veita sögunum aukna tilfinningalega dýpt.

Hver og ein þessara frásagna í texta og myndum er falleg, heilsteypt saga, en í gegnum alla bókina liggur jafnframt þráður dálítilla athugana og ýmissa smáatriða sem lyfta sögunum á hærra plan og tengja þær saman í heild.

Rakel Helmsdal (f. 1966) gaf út sína fyrstu bók árið 1995 og hefur í nærri aldarfjórðung skrifað bækur sem hafa orðið mikilvægur hluti af uppvexti margra færeyskra barna. Sögusvið þeirra flestra – einnig Miljuløtur – er skáldaði bærinn Port Janua, söguheimur sem margir færeyskir lesendur þekkja orðið vel. Rakel er einnig orðin vel þekkt víðar um Norðurlöndin fyrir barna- og unglingabækur sínar. Árið 2016 hlaut hún Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir Hon, sum róði eftir ælaboganum og 2018 hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka ásamt Áslaugu Jónsdóttur og Kalle Güettler fyrir Skrímsli í vanda .