1972 Karl Vennberg, Svíþjóð: Sju ord på tunnelbanan

1972 Karl Vennberg, Sverige: Sju ord på tunnelbanan
© Michael Brannäs

Um höfundinn

Karl Vennberg, ljóðskáld, ritgerðahöfundur, þýðandi og gagnrýnandi. Tók þátt í nýrri þýðingu á Biblíunni. Ásamt Erik Lindegren er Karl Vennberg einn helsti fulltrúi sænskrar ljóðlistar um miðja síðustu öld. Í ljóðum sínum lýsir hann örvæntingu nútímamannsins yfir sigurför ofbeldis og harðstjórna, en einnig togstreitu sinni á milli trúarþarfar og trúleysis. Vennberg var vinstrisinnaður en snerist gegn heimsveldunum báðum á tímum kalda stríðsins.

Um vinningsverkið

Sju ord på tunnelbanan kom út árið 1971. Þá hafði verið hljótt um Vennberg í rúman áratug. Ljóðin í nýja safninu voru í einfaldari búningi en fyrri ljóð hans. Myndirnar voru ekki eins stórbrotnar og áður heldur ávarpar hann lesandann í persónulegri tón en áður. Enn sem fyrr kallar hann á gagnrýninn húmanisma í baráttunni gegn skeytingarleysi. Nokkur ljóðanna eru hnitmiðuð lýsing á tíðarandanum. Þar má nefna Promenad i Hötorgscity þar sem sorgbitið skáldið lýsir því hvernig fulltrúar verkalýðsins hafa umturnað sögulegum slóðum í Stokkhólmi. - Málalok áttundar áratugarins geta ráðist af því hvort vinstrisinnum tekst að sigrast á vonbrigðum sínum, yrkir hann spámannlega í ljóðinu Decennieskifte.

Sju ord på tunnelbanan

Útgáfa: Albert Bonniers Förlag 

Útgáfuár: 1971

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Vennberg hefur gegnt mikilvægu hlutverki í norrænni ljóðlist allt frá því að hann sló í gegn á 5. áratug síðustu aldar. Í ljóðabókinni Sju ord på tunnelbanan lítur hann um öxl í upphafi 8. áratugarins og lýsir efa og trú eftirstríðsáranna á mannlegan og pólitískan hátt.