Landamæraeftirlit rætt á þemaþingi Norðurlandaráðs í Ósló

13.04.16 | Fréttir
Anne Berner
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Umræðurnar sem fram fara í Stórþinginu 19. apríl næstkomandi verða einstakt tækifæri fyrir norræna þingmenn til að heyra skoðanir hver annars á landamæraeftirlitinu, á því hvað þurfi til að endurheimta frjálsa för á Norðurlöndum og hvaða skaða landamæraeftirlitið hafi valdið fram að þessu. Danski íhaldsflokkurinn (Det Konservative Folkeparti) ætlar að leggja til að farið verði í viðræður við sænska stjórnmálamenn um landamæraeftirlit beggja vegna Eyrarsunds.

Samkvæmt dönskum fjölmiðlum mun danski íhaldsflokkurinn nota tækifærið á fundi Norðurlandaráðs til að leggja til að enn frekara eftirlit verði tekið upp fyrir farþega á leið frá Svíþjóð til Danmerkur.

Mun flokkurinn byggja tillögu sína á upplýsingum um að í Svíþjóð séu fjörutíu þúsund óskráðir flóttamenn, þar séu samfélög öfgamanna, til dæmis í Rosengård-hverfinu í Malmö, og að Svíi sé grunaður um hryðjuverk.

Fyrsti ræðumaður í þingumræðunni verður Anne Berner, samstarfsráðherra Finnlands.

Nánari upplýsingar og skráning blaðamanna:

Hvaða áhrif hefur landamæraeftirlitið á norrænt samstarf?

Segir landamæraeftirlitið hafa skaðleg áhrif

Anne Berner hefur áður fært sterk rök fyrir því að landamæraeftirlitið skaði Norðurlönd og staðhæft að samstarfsráðherrarnir vinni að því á ýmsum vettvangi að reyna að losna við það.

„Við þurfum að halda í frjálsa för á Norðurlöndum og norrænu gildin. Við höfum alltaf aðstoðað og stutt hvert annað og getum ekki farið að takast á núna,“ sagði hún á norrænni ráðstefnu í Turku í Finnlandi í janúar.

Nú eru rúmir þrír mánuðir liðnir síðan landamæraeftirlitinu var komið á og þegar hafa komið fram ýmsar skýrslur og úttektir um áhrifin.

Við þurfum að halda í frjálsa för á Norðurlöndum og norrænu gildin. Við höfum alltaf aðstoðað og stutt hvert annað og getum ekki farið að takast á núna.

Kostnaðarsamt

Í úttekt Eyrarsundsstofnunarinnar kemur meðal annars fram að sala Skånetrafiken á miðum yfir Eyrarsundið hafi dregist saman um átta prósent, meðal annars vegna þess að rúmlega tíundi hver sem sækir vinnu eða nám yfir sundið hefur hætt að nota lestirnar. Tekjur eru þannig langt undir því sem áætlað hefur verið, en Skånetrafiken/DSB hafði reiknað með 5 prósenta aukningu lestarferða í ár.

Fréttastofan News Öresund hefur sagt frá því að ýmsir pendlarar hafi sagt upp störfum, og frá flóttamönnum sem leggja líf sitt í hættu með því að ganga í gegnum Eyrarsundsgöngin.

Samkvæmt nýrri skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðs Suður-Svíþjóðar nemur tap af völdum landamæraeftirlitsins 1,5 milljörðum danska króna á ári. Ráðið áætlar að þetta sé sá kostnaður sem hlýst af seinkun þeirra sem sækja vinnu eða nám yfir sundið, og því að dregið hafi úr markaðstækifærum á Eyrarsundssvæðinu. Aðrir telja áhrifin nokkru minni.   

Viðræður milli Dana og Svía

Löndin búa sig jafnframt undir að eftirlitið verði langvinnt. Danir og Svíar eiga nú í viðræðum um hvernig hægt sé að draga úr skaðlegum áhrifum eftirlitsins, til dæmis með því að hafa sameinað skilríkja- og landamæraeftirlit við lestarstöðina á Kastrup-flugvelli við Kaupmannahöfn.  

„Landamæraeftirlitið átti að vera tímabundin aðgerð til að mæta sérstökum aðstæðum. En nú sjáum við að flóttamannastraumurinn til Norðurlanda kann að halda áfram í mörg ár enn. Við verðum þess vegna að ræða hvaða áhrif landamæraeftirlitið hefur á norrænt samstarf,“ segir Henrik Dam Kristensen, sem gegnir stöðu forseta Norðurlandaráðs á þessu ári.  

Landamæraeftirlit 2016

Ákvörðun Svía um að innleiða landamæraeftirlit vegna ferða frá Danmörku þann 4. janúar sl. var söguleg. Allar götur síðan norræna vegabréfasamstarfið var innleitt á sjötta áratugnum hafa ferðalangar á leið milli Danmerkur og Svíþjóðar ekki þurft að framvísa skilríkjum. Danska ríkisstjórnin brást við með því að innleiða tímabundið landamæraeftirlit við landamærin að Þýskalandi. Finnar innleiddu vegabréfaáritanir á farþegaferjunum frá Þýskalandi, Norðmenn efldu innra landamæraeftirlit – og þar með voru Norðurlönd ekki lengur opin og landamæralaus.