Ný framtíðarsýn fyrir öflug Norðurlönd

06.02.14 | Fréttir
Eygló Harðardóttir
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Nýr tónn á nýju ári í norrænu samstarfi. Á fyrsta fundi norrænu samstarfsráðherranna á þessu ári fékk Eygló Harðardóttir, formaður nefndarinnar, samþykkta nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf. Einnig var ákveðið að ráðast í sameiginlega stefnumótun um markaðssetningu Norðurlandanna.

Framtíðarsýnin er afrakstur þróttmikillar framtíðarumræðu sem Svíar leiddu á formennskuári þeirra 2013. Afnám stjórnsýsluhindrana í því skyni að auðvelda ferðir, atvinnu og nám fyrir alla Norðurlandabúa er ofarlega á dagskrá í norrænu samstarfi og þáttur í umræddri framtíðarsýn. Sama á við um aðgerðir sem eiga að tryggja að Norðurlöndin verði áfram frjótt og skapandi svæði.

Sú staðreynd að samhent Norðurlönd áorka meiru en hvert land í sínu horni er einnig mikilvægur liður í framtíðarsýninni. Norðurlöndin skulu vera samtaka um að vera sýnileg og opin. Kynningin á svæðinu getur verið margvísleg og að henni komið fulltrúar ýmissa samfélagsgeira; menningar, rannsókna, ferðaþjónustu, atvinnulífs, umhverfismála og fjölmiðla svo eitthvað sé nefnt. 


„Við verðum að snúa bökum saman frammi fyrir viðfangsefnum framtíðar hvort sem um er að ræða efnahagskreppu, þverrandi náttúruauðlindir eða hnattvæðingu. Við Norðurlandabúar vitum af gamalli reynslu að samheldni skilar góðum árangri,“ segir Eygló Harðardóttir samstarfsráðherra. „Við erum öflug heild og eigum að nýta okkur það.“


Kynning á Norðurlöndum

Auk ákvörðunar um sameiginlega framtíðarsýn gáfu samstarfsráðherrarnir grænt ljós á að unnin verði stefnumótun um markaðssetningu Norðurlandanna eða „branding“ eins og það er kallað á sumum erlendum tungumálum. Aðrir tala um vörumerki eða að hasla sér völl.

Verk þetta á að vinna breitt og í nánu samstarfi við löndin. Forkönnun hefur leitt í ljós að sameiginlegur stökkpallur Norðurlandanna nýtur gífurlegs stuðnings. Hvort sem um er að ræða stjórnmála- og hagsmunasamtök, atvinnulíf eða samtök í ferðaþjónustu er það einróma álit fólks að tímabært sé að grípa til sameiginlegra aðgerða.


„Mikill áhugi og forvitni ríkir í garð Norðurlanda víða um heim. Ekki aðeins á sviði bókmennta, kvikmyndagerðar og hönnunar heldur einnig á samfélagsgerð okkar og gildum sem hún byggir á. Það vekur eftirtekt að við virðumst hafa fundið svör við spurningu sem brennur á þjóðum heims um þessar mundir – hvernig er hægt að skapa opið samfélag sem getur þróast og einnig komist út úr efnahagskreppum. Við eigum að notfæra okkur þennan áhuga til að geta orðið öðrum til eftirbreytni en einnig til að efla samfélög okkar sjálfra,“ segir Eygló Harðardóttir að lokum.