Gæði kennslu og samsetning nemendahópa hefur áhrif á frammistöðu nemenda á Norðurlöndum

22.04.24 | Fréttir
Klasserom
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Ný rannsókn sýnir fram á að versnandi gæði kennslu og breytingar á samsetningu nemendahópa séu áhyggjuefni. Afleiðingarnar eru lakari árangur nemenda í stærðfræði og raunvísindagreinum á Norðurlöndum.

Niðurstöðurnar benda til þess að í kennslustofu þar sem vandað er til kennslu og nemendur hafa vald á því tungumáli sem kennt er á, góðan námslegan grunn og góða andlega heilsu hafi löngum verið lagður grunnur að góðum námsárangri. 


Í rannsókninni Effective and Equitable Teacher Practice in Mathematics and Science Education. A Nordic Perspective Across Time and Groups of Students hafa verið greind gögn fra TIMSS (Trends in International Mathematics and Science Study) sem safnað var árin 2011, 2015, og 2019. Gögnin sýna að bæði gæði kennslu og samsetning nemendahópa hefur versnað frá 2011 til 2019 og fylgni er milli þessa og lakari frammistöðu. 
 

Æ færri nemendur segja kennsluna vera styðjandi og skýra og kennarar nefna enn áskoranir vegna skorts á forsendum nemenda, svo sem að þá vanti grunnþekkingu. Þessa breytingu má að hluta skýra með vaxandi margbreytileika nemendahópsins, sem er til kominn vegna fjölgunar innflytjenda og samfélagsbreytinga sem hafa umbreytt lýðfræði nemendahópa á Norðurlöndum.

Styrkja ætti kennaranám til þess að kennarar geti tekist á við sundurleita nemendahópa.

Nani Teig, dósent við Háskólann í Ósló 

„Kennarastarfið verður stöðugt flóknara og meira krefjandi. Þó að kennari vandi til kennslunnar er áskorun fólgin í að kenna bekkjum þar sem margir nemendur ráða illa við tungumálið, trufla kennsluna eða eru þreyttir og áhugalausir. Styrkja ætti kennaranám til þess að kennarar geti tekist á við sundurleitan nemendahóp,“ segir einn ritstjóra skýrslunnar, Nani Teig, dósent við Háskólann í Ósló. 
 

Ef tekist er á við þessar áskoranir má koma í veg fyrir að bilið breikki enn frekar milli nemenda sem búa við forréttindi og hinna sem minna mega sín, og viðhalda gæðum kennslu og jöfnuði í menntakerfum Norðurlandanna. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að ef bæta á árangur nemenda sé mikilvægt að huga að stuðningi við kennara, skýrari leiðbeiningum, menntun kennara og vitsmunir séu virkjaðir í kennslu. Karen Ellemann framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar telur að niðurstöður gagnanna skipti miklu máli fyrir menntastefnu framtíðarinnar.

 Við erum sannfærð um að norrænn samanburður sem byggir á stórum alþjóðlegum rannsóknum á frammistöðu í skólum og kennslu er stuðningur við þróun menntastefnu alls staðar á Norðurlöndum.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Alþjóðleg megindleg samanburðargögn skipta sköpum fyrir stefnumótun sem byggir á gagnreyndum rannsóknum. Þess vegna fjármagnar Norræna ráðherranefndin ritröðina Nortern Lights. „Við erum sannfærð um að norrænn samanburður sem byggir á stórum alþjóðlegum rannsóknum á frammistöðu í skólum og kennslu er stuðningur við þróun menntastefnu alls staðar á Norðurlöndum,“ segir Karen Ellemann.

Skýrslan er unnin af IEA (International Association for the Evaluation of Educational Achievement), fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni og gefin út í ritröð ráðherranefndarinnar, Northern Lights.