Sjö norrænar stjórnsýsluhindranir afnumdar 2016

23.02.17 | Fréttir
Gränshinderrådets årsrapport 2016
Sjö norrænar stjórnsýsluhindranir voru afnumdar í fyrra eftir að Stjórnsýsluhindranaráðið lagði hart að stjórnvöldum að finna lausnir. Nú geta til að mynda íslensk ungmenni tekið atvinnuleysisbætur með sér í leit að starfsnámi eða menntun erlendis.

Um 65 þúsund Norðurlandabúar fara yfir landamæri til vinnu. Samanlagt leggja þeir 5,3 milljón evrur af mörkum í þjóðarbú Norðurlanda. Þá spara löndin tugmilljónir króna vegna greiðslu atvinnuleysisbóta.  En þrátt fyrir að vinnumarkaður Norðurlanda sé búinn að vera samþættur allt frá 6. áratug 20. aldar eru enn ljón á veginum og sífellt myndast nýjar hindranir.

Norræna stjórnsýsluhindranaráðið starfar í umboði stjórnvalda að því að stemma stigu við hindrunum sem bitna á atvinnu og hagvexti á Norðurlöndum. Ráðið einbeitir sér að ákveðnum hindrunum og leitar  lausna hjá viðkomandi ráðuneytum.

Sá árangur náðist á árinu 2016 að sjö stjórnsýsluhindranir voru fjarlægðar. Fyrir vikið eykst ferðafrelsi sænskra snjósleðaökumanna, ungra íslenskra vinnuleitenda, háskólamenntaðra Grænlendinga og vélstjóra í Noregi.

„Störf stjórnsýsluhindranaráðsins snúast ekki um stórveldapólitík heldur hagnýtt starf að þeirri mikilvægu sýn að Norðurlönd verði samþættasta svæði í heimi,“ segir Risto EJ Penttilä, en hann var formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins á liðnu ári.

Eftirfarandi stjórnsýsluhindranir voru afnumdar fyrir tilstilli stjórnsýsluráðsins á árinu 2016:

  • Fyrirtæki sem taka með sér vinnuvélar til Noregs þurfa ekki að greiða virðisaukaskatt sem tryggingu.
  • Sænskt ökuskírteini á snjósleða gilda nú í Noregi.
  • Einstaklingar sem fengið hafa bætur vegna skertrar starfsgetu í Noregi öðlast rétt á atvinnuleysistryggingu í Svíþjóð.
  • Íslensk ungmenni geta tekið atvinnuleysisbætur eða félagslegar bætur með sér til ESB-landa.
  • Finnar sem starfað hafa erlendis um tíma geta fengið styrk til að stunda nám fullorðinna í Finnlandi.
  • Unnið er að því að grænlensk menntun verði viðurkennd víðar á Norðurlöndum.
  • Hagstofur landanna hafa innleitt samstarf um að þróa tölfræði landamærasvæða, en hún mun auðvelda fólki að bera kennsl á stjórnsýsluhindranir og meta þær. Í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar er tekið frá fé til söfnunar á gögnum um fólk sem fer yfir landamæri til vinnu eða í nám annars staðar á Norðurlöndum.

Norræna stjórnsýsluhindranaráðið afskrifaði fimm hindranir á árinu sem stjórnvöld telja óleysanlegar. Þær verða strikaðar út af listanum og þá getur ráðið snúið sér að öðrum hindrunum.

„Afnám stjórnsýsluhindrana fjallar oft um félagsleg réttindi og skattamál, það er að vinnandi fólk, námsmenn og ellilífeyrisþegar geti haldið réttindum sínum þegar flust er búferlum milli landa. Við þurfum einnig að greiða götu ungs fólks með gagnkvæmri viðurkenningu á starfsmenntun á Norðurlöndum. Þetta verða mínar áherslur á árinu 2017,“ segir Svein Ludvigsen en hann leiðir störf Stjórnsýsluhindranaráðsins á þessu ári. 

Í ársskýrslu Stjórnsýsluhindranaráðsins 2016 er nánar sagt frá stöðu þeirra 29 stjórnsýsluhindrana sem ráðið hafði afskipti af í fyrra. 

 

Nánari upplýsingar og svör um störf Stjórnsýsluhindranaráðsins veitir:

Claes Håkansson, skrifstofu Stjórnsýsluhindranaráðsins: +45 29 69 29 20

Svein Ludvigsen, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins 2017: fisksl@frisurf.no