Formennska Svía í Norðurlandaráði 2014

Riksdagshuset i Stockholm
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Formennskuáætlun Svía í Norðurlandaráði 2014

Norðurlönd í Evrópu - Evrópa á Norðurlöndum

Norðurlandaráð hefur kosið sér forseta og varaforseta úr sænsku sendinefndinni sem munu leiða starfið á árinu 2014. Áætlunin fjallar um nokkra málaflokka sem Svíar hyggjast leggja áherslu á á formennskuárinu. Áætlunin tengist einnig og byggir á því starfi sem unnið var í Norðurlandaráði á formennskuári Norðmanna 2013 og ennfremur samstarfi ríkisstjórnanna undir formennsku Svía.

Áætlunin „Gróska – lífskraftur“ sem íslenski forsætisráðherrann kynnti á þingi Norðurlandaráðs er traust undirstaða í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar undir formennsku Íslands og einnig í nánu samstarfi Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar á komandi ári.  

Starfsemi Norðurlandaráðs nær yfir marga málaflokka. Oft er um að ræða starf sem hefur grundvallarþýðingu fyrir samskipti þjóða okkar og þar með ber að halda því áfram. Sem dæmi má nefna starf sem felst í að koma í veg fyrir og afnema stjórnsýsluhindranir sem bitna á einstaklingum og fyrirtækjum. Þá verður unnið að því að efla menningartengsl þjóðanna – í víðum skilningi. Í norrænu samstarfi eru umhverfismálin alltaf í brennidepli.

Með fyrirsögninni Norðurlönd í Evrópu - Evrópa á Norðurlöndum munu Svíar á formennskuárinu 2014 leggja sérstaka áherslu á þrjú meginsvið:

  • Norræna vinnumarkaðinn
  • Sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda
  • 200 ára frið milli Norðurlandanna

Norðurlönd í Evrópu – Evrópa á Norðurlöndum

Þegar Svíar taka við formennsku í Norðurlandaráði hefur EES-samningurinn verið í gildi í rétt 20 ár. Þegar formennskunni lýkur verða 20 ár liðin frá því að norrænum aðildarríkjum Evrópusambandsins fjölgaði úr einu í þrjú. Á síðustu tveimur áratugum hefur aðildarríkjum ESB fjölgað úr tólf í 28. Samstarf ESB-ríkjanna hefur dýpkað meðfram því að nýir málaflokkar hafa bæst við. Það er afar mikilvægt að við á Norðurlöndum tökum Evrópusamstarfið alvarlega og nýtum stöðu okkar til fulls.

Á formennskuári Svía verður kosið á Evrópuþing og ný framkvæmdastjórn sambandsins verður skipuð. Við skulum sæta færis á að efla tengslin enn frekar og beita okkur fyrir árangursríku samstarfi Norðurlandanna við ESB en einnig innan sambandsins. Stöðugt samráð og náið samstarf við ESB og aðrar samstarfsstofnanir og ríki í Evrópu opna Norðurlöndum fleiri leiðir til áhrifa. Sameinuð vekjum við meiri áhuga, skilning og hljómgrunn fyrir norræn sjónarmið en hvert í sínu horni.

Norræni vinnumarkaðurinn

Árið 2014 eru 60 ár liðin frá því að sameiginlegur vinnumarkaður á Norðurlöndum varð að veruleika. Allar götur síðan hefur hann verið árangursríkur. Í áranna rás hafa einstaklingar flust búferlum og starfað þar sem spurn hefur verið eftir vinnuafli. Fyrir vikið eflist atvinnulífið og frelsi einstaklinganna eykst. Þrátt fyrir góðan árangur eru enn mörg óleyst vandamál hvað varðar hreyfanleika milli Norðurlandanna.

Fyrirtæki um allan heim eru á höttum eftir réttri hæfni til að standast alþjóðlega samkeppni og á það einnig við um Norðurlönd. Oft dugir innanlands vinnumarkaður skammt. Samtals búa þó 25 milljónir manna á Norðurlöndunum. Við hyggjumst beita okkur á formennskuárinu fyrir því að gengið verði enn lengra í átt að sameiginlegum vinnumarkaði á Norðurlöndum. Þannig fá einstaklingar og fyrirtæki tækifæri á að vaxa og njóta sín til fulls.

Atvinnuleysi meðal ungs fólks er víða á Norðurlöndum orðið mjög mikið og hefur það áhrif á aðstæður ungmenna, einnig þeirra sem eru utan vinnumarkaðar og trú þeirra á framtíðina. Norðurlandaráð – og ráðherranefndin – hafa margsinnis á undanförnum árum vakið máls á þessum vanda. Á formennskuári Svía væntum við þess að Norðurlandaráð og ráðherranefndin byggi enn frekar á fenginni þekkingu og hugmyndum og sjái til þess að skipti á reynslu leiði einnig til raunhæfra aðgerða. Svíar munu á formennskuárinu 2014 skapa vettvang þar sem Norðurlöndin geta skipst á reynslu sinni og hverju landi gefst tækifæri á að segja frá en einnig að kynna sér árangursríkar aðferðir í baráttunni gegn atvinnuleysi ungs fólks.

Menntamál eru mikilvæg í norræna velferðarlíkaninu. Til að það megi halda velli og þróast enn frekar verður öllum þegnum að standa til boða góð menntun og góð starfsþekking. Á sviði menntunar og viðurkenningar á námi skortir oft norrænt samkomulag um viðurkenningar prófa. Menntunin gildir því ekki alltaf í norrænu nágrannalöndunum. Með hagsmuni námsmanna en einnig sameiginlegs vinnumarkaðar að leiðarljósi munum við vekja máls á þessum vanda og beita okkur fyrir því að fleiri tegundir náms sem í boði eru verði viðurkenndar alls staðar á Norðurlöndum.

Sameiginlegar sjúkra- og atvinnuleysistryggingar eru eðlilegur þáttur í þróun norræna velferðarlíkansins. Svíar munu á formennskuárinu beina kastljósinu að vandamálum farandlaunþega. Það er mikill misbrestur að þrátt fyrir sameiginlegan vinnumarkað í sextíu ár skuli enn ekki liggja fyrir skýrar og ótvíræður reglur um norræna farandlaunþega. Óvissa í þessum málum getur reynst alvarleg hindrun á vegi fólks sem hugleiðir að leita atvinnu annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandi sínu.

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda

Norðurlöndin þurfa að auka samvinnu sína um náttúruauðlindir svæðisins. Með vaxandi velferð á heimsvísu eykst spurn eftir steinefnum sem leynast í jörðu á landsvæðum okkar. Við getum átt von á því að eftirspurn aukist enn frekar í framtíðinni með batnandi fjárhag víðar um lönd.

Ríkissjóðir á Norðurlöndum munu njóta þess að atvinna á eftir að skapast á svæðum þar sem langvarandi samdráttur í atvinnulífi hefur leitt til brottflutnings. Vaxandi spurn verður eftir gasi, olíu og málmum auk þess sem skógar, vötn og landsvæði verða enn sem fyrr mikilvægar auðlindir. Þetta er að mörgu leyti óskastaða en nýtingu náttúruauðlinda fylgja einnig hagsmunaárekstrar og önnur vandamál. Miklu máli skiptir að Norðurlandaráð finni uppbyggilegar lausnir og hugmyndir um hvernig lágmarka megi vandann.

Þrátt fyrir aukna nýtingu og vinnslu náttúruauðlinda er því oft þannig farið, til dæmis á námusvæðum, að íbúum fjölgar ekki að sama skapi. Margir í þeirri atvinnugrein pendla til vinnu en eiga heimili, fjölskyldu og tómstundir annars staðar. Mikilvægt er að tryggja að þeir bæir og svæði sem um ræðir nái að dafna um leið og rofar til í atvinnulífinu. Náttúruauðlindir verða að gagnast nærsamfélaginu og öllu svæðinu. Út frá sjónarmiðum jafnréttis skiptir miklu að karlmenn jafnt sem konur finni sinn eðlilega sess og geti tekið þátt í þeirri samfélagsþróun.

Forsendur þess að námurekstri á Norðurlöndum vegni vel er að innviðir séu góðir í löndunum og á milli þeirra. Einkum nyrst á Norðurlöndum eru brotalamir hvað þetta varðar. Hægt er að spara tíma og peninga við áætlanagerð ef hugsað er norrænt fremur en að einskorða sig við einstaka lönd.

Námuiðnaðurinn hefur oft í för með sér hættu fyrir umhverfið. Hættan á mengun er mikil og oft verða stór svæði að gjalda þess. Aukin námuvinnsla getur stangast á við útivist og vaxandi ferðaþjónustu. Norðurhjarinn finnur fyrir þeirri þróun en þar stunda frumbyggjar Norðurlanda hefðbundnar atvinnugreinar eins og hreindýrabúskap, selveiðar og sjómennsku. Umhverfissjónarmið en einnig vaxandi ferðaþjónusta krefjast þess að jafnvægi ríki milli námugraftar og náttúruverndar á þessum slóðum.

Svíar munu á formennskuárinu beita sér fyrir því að Norðurlöndin komi sér saman um sameiginlegar aðgerðir og stefnumótun um nýtingu náttúruauðlindanna þar sem tekið er mið af ströngum umhverfiskröfum og félagslegum sjónarmiðum og þar sem menning frumbyggja dafnar ekki síður en ferðaþjónustan.

200 ára friður milli Norðurlandanna

Í janúar 2014 eru 200 ár liðin frá því að friður var saminn í Kiel. Hófst þá friðsæld á svæðinu sem að mörgu leyti er einstök í heiminum. Gildi langvarandi friðar á Norðurlöndum fyrir hvert einstakt ríki verður seint ofmetið.

Samkennd norrænu þjóðanna hefur treyst með árunum. Eftir stríðsátök öldum saman tekst okkur að leysa deilumál sem koma upp milli Norðurlandanna með friðsamlegum hætti. Ýmis rök eru fyrir því að friður í 200 ár séu eins helst ástæða þess að samstarf Norðurlandanna er náið og árangursríkt á okkar dögum. Það er til merkis um velgengni okkar að önnur ríki beina sjónum að Norðurlöndum og vilja læra af reynslu okkar, ekki síst hvernig hægt er að hefja sig yfir gömul deilumál og byggja upp gróskumikið samstarf þvert á landamæri. Öll berum við ábyrgð á að leggja okkar af mörkum og öll getum við lært mikið hvert af öðru.

Norrænt samstarf um varnar- og öryggismál eykst stöðugt. Árið 2013 tók Norðurlandaráð frumkvæði að hringborðsumræðum með varnarmálaráðherrum landanna um samstarfið. Umræðurnar þóttu heppnast vel og verður þeim fylgt eftir á formennskuári Svía og eins mætti stofna til umræðu um samstarfið um utanríkismál.

Friður hefur ríkt um langt skeið og fyrir vikið hafa mörg og traust tengsl myndast á milli þjóðanna þar sem samskipti og samstarf fer fram á öllum stjórnstigum. Tungumálaskilningur eflist og jafnframt þekking þjóðanna á menningu hver annarrar, hugsunarhætti og samfélagsstofnunum. Þessi tengsl verðum við að standa vörð um og þróa enn frekar. Það skiptir máli ef við eigum að geta haldið áfram að læra hvert af öðru, starfa saman og síðast en ekki síst að útkljá deilumál með samræðum og sátt eins og góðum nágrönnum sæmir.

Í þeim anda vilja Svíar sem gegna formennsku í Norðurlandaráði að minnst verði þess að friður hefur ríkt milli landanna í 200 ár.