Gitte Wille frá Danmörku verður forstjóri Norrænu menningargáttarinnar

26.10.22 | Fréttir
Gitte Wille
Photographer
norden.org
Gitte Wille frá Danmörku tekur við sem formaður Norrænu menningargáttarinnar í Finnlandi. Áður hefur hún verið yfirmaður menningarmála hjá Region Skåne.

Gitte Wille hefur störf í Helsingfors um áramótin. Hún tekur við af Ola Kellgren sem lét af störfum í september eftir sjö ára starf.

Norræna menningargáttin er stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og vinnur að því að efla norrænt samstarf á sviði menningarmála og vekja athygli á norrænni menningu í Finnlandi.

Gitte Wille kemur til Norrænu menningargáttarinnar sem reyndur stjórnandi með víðtæka reynslu af menningarmálum. Á starfsferli sínum hefur hún unnið við menningu, ferðaþjónustu og málefni atvinnulífsins og hefur unnið náið með stjórnvöldum, menningarstofnunum og samtökum á Norðurlöndum og erlendis.

Gitte Wille segist hlakka til að hefja störf. Hún leggur áherslu á mikilvægi norræns samstarfs fyrir lýðræðið og segist ekki í vafa um samfélagslega þýðingu menningar.

„Ég hef séð hvað listir og menning gera fyrir okkur. Ég lít svo á að menningin sem uppbyggingarafl í samfélaginu sem getur ýtt undir samkennd og er mikilvæg varðandi lífsgæði og andlega heilsu fólks og er þar með grundvallarforsenda þess sköpunar- og nýsköpunarkrafs sem við höfum hér á Norðurlöndum. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum við að halda menningarmálum ofarlega á baugi í Finnlandi og umheiminum,“ segir Gitte Wille.

Jonas Wendel, settur framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, er ánægður með nýja forstjórann.

„Við erum ánægð með að fá Gitte Wille sem formann Norrænu menningargáttarinnar. Hún hefur víðtæka norræna reynslu og er rétta manneskjan til að efla stefnu Norrænu menningargáttarinnar þar sem áhersla er á fræðslu, fjölbreytileika og aðgengi, í samræmi við Framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar 2030,“ segir Wendel.

Gitte Welle er ráðin til fjögurra ára með möguleika á fjögurra ára framlengingu.