Menntun og vinna til að fyrirbyggja öfgastefnu

26.03.15 | Fréttir
Höskuldur Þórhallsson
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Aðlögun og öfgastefna voru í brennidepli á örþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn fimmtudaginn 26. mars.

Örþingið hófst á upplýsingafundi þar sem Carsten Hansen, samstarfsráðherra Danmerkur, og Thorkild Fogde, lögreglustjóri í Kaupmannahöfn, fræddu stjórnmálamennina um hryðjuverkaárásina sem framin var í borginni. Manu Sareen, ráðherra Danmerkur um félagsmál og málefni barna, jafnréttis og aðlögunar, kynnti nýjan norrænan samstarfssamning um fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn öfgastefnu.

„Við styðjum nýja samstarfssamninginn um fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn öfgastefnu heils hugar og teljum hann vera skref í rétta átt,“ sagði Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, að umræðum loknum.

Umræðurnar einkenndust af breiðri samstöðu um að setja menntun og atvinnumöguleika í forgang, með það að markmiði að fyrirbyggja öfgastefnu.

Stjórnmálamennirnir lögðu áherslu á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða og þess að nýta þau úrræði sem fyrir eru, svo sem í skólum, stofnunum, bæjarfélögum og meðal almennings. Þá ríkti einhugur um að hafa varann á gegn hvers konar öfgastefnu, óháð því hvort um væri að ræða stefnu til hægri eða vinstri í pólitík eða öfgastefnu bókstafstrúarmanna.

„Hér í Kaupmannahöfn er einstaklega frjótt örþing að baki. Það leyndi sér ekki að við stöndum saman og njótum stuðnings hvert annars hvað viðkemur öfgastefnu,“ sagði Höskuldur Þórhallsson.

Í aðdraganda þingsins, á fimmtudagsmorgun, héldu norski rithöfundurinn Åsne Seierstad, danski félagsfræðingurinn og blaðamaðurinn Aydin Soei, Bünyamin Simsek, fulltrúi í borgarstjórn Árósa og Magnus Ranstorp, sem rannsakað hefur hryðjuverk, erindi um „aðlögun og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgastefnu“ fyrir þingmenn í Velferðarnefnd, Menningar- og menntamálanefnd, Efnahags- og viðskiptanefnd og Borgara- og neytendanefnd í Landstingssalen á Christiansborg.  

Á grundvelli umræðunnar á fimmtudag setti Norðurlandaráð fram þessa yfirlýsingu um fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn öfgastefnu.

 

 

 

 

 

 

Contact information