Mikilvægt að skiptast á reynslu í tengslum við flóttafólk

27.10.22 | Fréttir
Integration
Photographer
Marianne Knudsen, Nordforsk
„Við stöndum frammi fyrir einstökum aðstæðum í Evrópu og á Norðurlöndum með tilliti til stríðsins í Úkraínu. Við á Norðurlöndum tökum nú á móti sögulega mörgum flóttamönnum frá Úkraínu, einkum konum og börnum. Það kallar á að við finnum góðar og sjálfbærar lausnir fyrir þennan hóp,“ segir Marte Mjøs Persen, ráðherra atvinnumála og inngildingar í Noregi.

Noregur, Svíþjóð og Danmörk hafa tekið við miklum fjölda flóttamanna á undanförnum árum og mikil aukning varð árið 2015.Eftir innrás Rússa í Úkraínu finna nú öll norrænu löndin fyrir nýrri flóttamannabylgju. Á fimmtudaginn stóð Mjøs Persen, fyrir hönd Noregs sem formennskulands í Norrænu ráðherranefndinni, fyrir óformlegum ráðherrafundi um aðlögunarmál á Norðurlöndum. Noregur, Svíþjóð, Finnland og Ísland áttu pólitíska fulltrúa á fundinum.

„Mikil óvissa ríkir í tengslum við málefni flóttamanna. Við verðum að búa okkur undir að margir dveljist hér um hríð. Við búumst einnig við því að fleiri úkraínskir flóttamenn eigi eftir að koma. Gott samstarf og miðlun reynslu með norrænum kollegum mínum skiptir höfuðmáli til að tryggja þeim sem hafa þurft að flýja heimaland sitt öruggt líf,“ segir Mjøs Persen.

60 prósent þeirra sem koma sem flóttamenn frá Úkraínu eru konur

Svíþjóð hefur tekið á móti 44 þúsund úkraínskum flóttamönnum í ár, Finnland 40 þúsund og Noregur og Danmörk yfir 30 þúsund. Ísland gerir ráð fyrir að taka á móti 2000 úkraínskum flóttamönnum í ár. Um 60 prósent þeirra sem koma sem flóttamenn frá Úkraínu eru konur.

„Almennt hefur atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi verið mikil og 40 prósent úkraínsku flóttamannanna hafa atvinnu. Um leið sjáum við langtímaatvinnuleysi á meðal innflytjenda í fyrsta sinn eftir heimsfaraldurinn og við erum að skoða ástæður þess. Við sjáum einnig þörf á að bæta okkur í því að meta þá hæfni og menntun sem flóttamenn búa þegar yfir,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, atvinnumálaráðherra.

Áhersla á skóla og menntun

Á fundinum fengu þátttakendur meðal annars kynningu á rannsóknum frá OsloMet. Skandinavískur samanburður sýnir að áhersla á skóla og menntun getur skipt meiri sköpum fyrir fjárhagslegt sjálfstæði flóttamanna til lengri tíma litið en aðgerðir sem miða að því að þeir fái vinnu sem fyrst. Fylgst var með 280 þúsund fullorðnum flóttamönnum sem komu til Skandinavíu og tóku þátt í svokölluðu móttökuverkefni á tímabilinu 2008–2019.

„Þótt flóttamannastraumurinn hafi breyst getum við tekið margt með okkur úr þessari skýrslu. Til dæmis er vert að geta að Svíar standa sig vel í að kanna og viðurkenna menntun flóttamanna. Það skiptir máli fyrir margt flóttafólk frá Úkraínu og er nokkuð sem fleiri norræn ríki ættu að athuga,“ segir fræðikonan Vilde Hernes.

Við á Norðurlöndum tökum nú á móti sögulega mörgum flóttamönnum frá Úkraínu, einkum konum og börnum. Það kallar á að við finnum góðar og sjálfbærar lausnir fyrir þennan hóp

 

 

Marte Mjøs Persen, ráðherra atvinnumála og inngildingar í Noregi

Hvað sýna rannsóknir?

Öll skandinavísku löndin reka tiltölulega umfangsmiklar aðlögunaráætlanir. Þau hafa sömuleiðis sama almenna markmið um að hjálpa flóttafólki að komast út á vinnumarkaðinn. Það er því góður grundvöllur fyrir fræðimenn að bera saman hvaða aðgerðir sem er beitt innan hvers lands virka best til að ná því markmiði að flóttamenn verði fjárhagslega sjálfstæðir.

Skýrslan sýnir þýðingu þess að fjárfesta snemma í námi: Þótt það sé til skemmri tíma litið bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að tryggja flóttamönnum aðgang að námi og æðri menntun getur það borgað sig í tengslum við aðlögun þeirra á vinnumarkaði og fjárhagslegt sjálfstæði þeirra til lengri tíma litið.

Í öllum þremur skandinavísku löndunum er nokkur munur á körlum og konum þegar kemur að atvinnuþátttöku og launum, og munurinn á milli karla og kvenna er meiri en í öðrum þjóðfélagshópum.

Danmörk hefur lagt meiri áherslu á atvinnutengdar aðgerðir, til dæmis ógreidda starfsþjálfun. Noregur hefur aukið áhersluna á menntun á undanförnum árum en meirihluti flóttamanna fær skólagöngu eða menntun á grunnstigi. Í Svíþjóð er um hærra hlutfall flóttamanna að ræða sem stundar nám í framhaldsskóla eða efra stig og fær launaálag.Í Noregi gengur vel að koma þeim sem hafa litla menntun í vinnu en Svíar standa fremst í Skandinavíu í því að koma fólki með æðri menntun inn á vinnumarkaðinn.