Norðurlandaráð safnar kröftum í Ósló

31.08.15 | Fréttir
Stortinget
Photographer
Johannes Jansson
Norðurlandaráð kemur saman í Ósló dagana 8.-9. september til að ræða hvaða umbóta er þörf til að hægt sé hámarka afraksturinn af samstarfi Norðurlanda. Fundirnir í september marka upphaf stjórnmálastarfs haustsins þar sem þingmennirnir beina sjónum að þeim úrlausnarefnum sem Norðurlönd standa frammi fyrir á alþjóðavettvangi.

„Fólk frá öðrum heimshlutum spyr oft hvað sé límið sem haldi saman samstarfi Norðurlanda. Ég er sannfærð um að svarið sé að við viljum í raun og veru þróa samfélög okkar í sameiningu og að við sjáum mikla kosti í því að gera það saman. Stundum finnst mér samt að þingsamstarfið mætti vera skilvirkara og víðtækara, þess vegna er þörf á umbótum,“ segir Britt Bohlin, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs.

Meira frá framkvæmdastjóranum hér: NORRÆN PÓLÍTIK MIKILVÆGARI EN NOKKRU SINNI FYRR

Metnaðarfull dagskrá um alþjóðamál

Auk umbótastarfsins hafa forsætisnefndin, fagnefndirnar og flokkahóparnir sett sér metnaðarfulla dagskrá sem snýst um stóru, sameiginlegu úrlausnarefnin á Norðurlöndum.

Rússland
Samskipti Rússlands og Norðurlanda hafa orðið sífellt erfiðari eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga í fyrra. Löng hefð er fyrir samskiptum Norðurlandaráðs við rússneska þingmenn, en er Rússland nú orðið land sem ómögulegt er að ræða við? Forsætisnefndin ætlar að taka þá spurningu til umfjöllunar og vinnur nú að nýrri áætlun fyrir samstarfið við Rússland.

Daglegt líf án eiturefna
Þingmennirnir eru uppteknir af samstarfi Evrópusambandsins og Norðurlanda. Löggjöf um efnavörur er dæmi um pólitískt svið þar sem samstarfið við ESB gegnir lykilhlutverki. Norðurlandaráð hefur um árabil beitt sér í baráttunni gegn efnavörum í daglegu lífi og gaf í fyrra út yfirlýsingu sem nú er verið að fylgja eftir í þeim nefndum sem málið varðar.

Yfirlýsing: Norðurlandaráð óskar eftir daglegu lífi án eiturefna

Mansal
Þingmenn Norðurlandaráðs beina einnig sjónum að mansali, sem er vaxandi vandamál. Öllu norrænu löndin eru með eigin framkvæmdaáætlanir gegn mansali og Norræna ráðherranefndin hefur starfað að þessum málum síðastliðin fimmtán ár. Engu að síður fer fórnarlömbunum fjölgandi. Þingmennirnir eru um þessar mundir að kanna hvernig Norðurlönd geti hert baráttuna gegn því sem margir kalla „þrælahald okkar tíma“.

Meðal annarra málefna sem rædd verða á septemberfundunum má nefna skilagjald, fiskeldi, raforkunet, vinnumál, geðheilsu barna og ungmenna og menningu. Nálgast má nánari upplýsingar um nefndir og viðfangsefni Norðurlandaráðs á vef ráðsins. Jafnframt má fylgjast með starfi Norðurlandaráðs á @nordensk og @nrpoil á Twitter.

Norðurlandaráð er opinbert þing norræns samstarfs. Fundir Norðurlandaráðs í Ósló fara fram hvort tveggja í flokkahópum og nefndum. Fundirnir sjálfir eru ekki opnir almenningi, en fjölmiðlar geta tekið viðtöl í hléum. Næsti þingfundur Norðurlandaráðs verður á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík 27.-29. október.