Norrænt samstarf í loftslagsvikunni í New York

15.09.23 | Fréttir
New york city
Photographer
The blowup on Unsplash
Norrænt samstarf verður fyrirferðamikið í loftslagsvikunni í New York og stendur fyrir fjórum viðburðum í tengslum við 78. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, leiðtogafund um heimsmarkmiðin (SDG Summit) og leiðtogafund um metnað í loftslagsmálum (Climate Ambition Summit).

Á meðal þess sem verður á dagskrá norræns samstarfs í loftslagsvikunni og á allsherjarþinginu verður vinnan við að tryggja alþjóðlegan plastsamning, stöðumat á norrænni loftslagsstefnu, umskipti og mikilvægi samningsins um líffræðilega fjölbreytni fyrir atvinnulífið. Þetta er fimmtánda árið í röð sem loftslagsvikan er haldin í New York og viðburðir í tengslum við hana verða yfir 400 talsins.

Hér fyrir neðan má lesa nánar um viðburði okkar og hvernig hægt verður að taka þátt. 

19. september: Plastúrgangur á að heyra fortíðinni til

Loftslags- og umhverfisráðuneyti Noregs kynnir nýja skýrslu sem er vegvísir um mikinn samdrátt í losun plastúrgangs í heiminum fyrir árið 2040. Skýrslan Towards Ending Plastic Pollution by 2040 – 15 Global Policy Interventions for Systems Change var unnin af Systemiq og verður kynnt 19. september. Í kjölfar kynningarinnar fara fram pallborðs- og hringborðsumræður með sérfræðingum á þessu sviði.

Skýrslan er sú nýjasta í röð greininga á vegum norræns samstarfs sem styðja við alþjóðlegt starf við að tryggja lagalaega bindandi alþjóðasamning um plast.

19. september: Leiðin að loftslagshlutlausum samfélögum á Norðurlöndum

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, mun heimsbyggðin í fyrsta sinn leggja mat á alþjóðlegar aðgerðir til þess að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Á viðburðinum „From Nordic to Global Stocktakes and Visions“ sem haldinn verður í loftslagsvikunni kemur í ljós hve langt Norðurlönd eru komin á þeirri vegverð sinni að verða loftslagshlutlaus. Stjórnmálamenn og leiðtogar úr atvinnulífinu koma saman til þess að ræða norræn og alþjóðleg markmið, áskoranir og lausnir í tengslum við loftslagshlutleysi út frá bráðabirgðaniðurstöðum verkefnisins Nordic Stocktakes and Visions.

Nordic Stocktake and Visions verður kynnt í tengslum við ráðstefnu dönsku aðalræðisskrifstofunnar, Sustainability Summit NYC.

Skýrsla UN Global Compact Networks verður kynnt 18. og 20. september

Hið norræna UN Global Compact Networks frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð stendur alls fyrir fernum pallborðsumræðum í loftslagsvikunni. Allar umræðurnar byggjast á skýrslunni „The path towards 2030: where are the Nordics“ sem einnig verður kynnt þann 18. september. Í skýrslunni er fjallað um áskoranir, þörf og tækifæri norrænna fyrirtækja fram til ársins 2030.

Hver er staðan þegar kemur að sjálfbærni í einkageiranum á Norðurlöndum?
Þann 18. september verður hægt að fylgjast með tvennum pallborðsumræðum með fulltrúum frá meðal annars Microsoft Sweden, Volvo Group, A.P. Moller Maersk og Aker Asa.

COP15 og þýðing þess fyrir norræn fyrirtæki
Þann 20. september munu umræðurnar snúast um vandamál og tækifæri sem norræn fyrirtæki standa frammi fyrir eftir að sögulegur samningur um líffræðileg fjölbreytni, Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework, var undirritaður í desember 2022.

Hvernig geta fyrirtækin nýst pólitískum valdhöfum og hvernig geta þeir á móti örvað fyrirtækin til að grípa til árangursríkra aðgerða í þágu náttúrunnar?