Norrænu fjármálaráðherrarnir ræddu framtíðarsýn og áskoranir fyrir norræna velferðarkerfið

23.10.15 | Fréttir
Hvaða aðgerða er þörf á vinnumarkaði til að norræna velferðarkerfið verði í stakk búið til að tryggja hátt atvinnustig á næstu árum? Þetta var meðal umræðuefna á fundi norrænu fjármálaráðherranna, sem fram fór í Kaupmannahöfn 23. október.

Ráðherrarnir voru sammála um að traustur vinnumarkaður með hátt atvinnustig væri forsenda velferðar til framtíðar.
„Það er sérstaklega þýðingarmikið að finna leiðir til að auka atvinnustig, einnig meðal jaðarsettra hópa,“ segir fjármálaráðherra Danmerkur, Claus Hjort Frederiksen, sem var fundarstjóri á fundinum.

Straumur flóttafólks til Evrópu og opnir vinnumarkaðir í ESB og EES hafa í för með sér áskoranir fyrir Norðurlönd, en einnig tækifæri. Í kjölfarið þarf að taka ýmsar ákvarðanir í efnahagsmálum og var það einnig rætt á fundinum. Sumar helstu áskoranirnar eru sameiginlegar fyrir Norðurlöndin og því er mikilvægt að leita lausna í sameiningu og læra af reynslu hvert annars.

Í alþjóðlegu samhengi eru þjóðhagslegar horfur enn ótryggar. Greinilegur munur er á efnahagsþróun í Norðurlöndunum, en þess er vænst að hagvöxtur verði veikur í Finnlandi, Noregi og Danmörku meðan búist er við aukinni vergri landsframleiðslu í Svíþjóð og líklega einnig á Íslandi.

Fundurinn var haldinn innan ramma samstarfsins í Norrænu ráðherranefndinni, en þar fara Danir með formennsku á þessu ári.