Samstarfsráðherrar Norðurlanda ræða framtíð skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg

03.03.15 | Fréttir
Nordenflaggan
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Framtíð skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi verður á dagskrá fundar samstarfsráðherra Norðurlanda í næstu viku. Ræða þarf með hvaða hætti samstarfið við Rússland getur haldið áfram eftir að Rússar hafa sett skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinna á lista yfir „erlenda útsendara“. Tilraunir Norrænu ráðherranefndarinnar til ná samkomulagi við rússnesku ríkisstjórnina hafa reynst árangurslausar.

Fulltrúar Norrænu ráðherranefndarinnar og fulltrúar ríkisstjórnar Rússlands funduðu í Moskvu 16. febrúar sl. Viðræðurnar leiddu í ljós að Rússar standa fast á því að skilgreina skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg sem erlendan útsendara og að ekki er neinn grundvöllur fyrir áframhaldandi viðræðum um að breyta stöðu skrifstofunnar.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið ítarlegt mat á áhrifum mismunandi valkosta og möguleika á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.

– Staðan er slæm, segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Við höfum gert allt sem við getum á diplómatískum vettvangi, en það hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Nú þurfum við að ákvarða hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir möguleika Norrænu ráðherranefndarinnar á starfa í Norðvestur-Rússlandi framvegis.

Rússneska dómsmálaráðuneytið ákvað í janúar sl. að skilgreina skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg sem „erlendan útsendara“. Samkvæmt rússneskum lögum á að skilgreina öll frjáls félagasamtök sem fá fjármagn erlendis frá og sem stunda pólitískt starf sem „erlenda útsendara“.

Norræna ráðherranefndin og norrænu löndin hafa mótmælt ákvörðun Rússa og vísað til þess að starfsemi skrifstofunnar sé ekki pólitísk. Ráðherranefndin hefur jafnframt bent á að samstarf hennar við rússnesk yfirvöld, bæði lands- og svæðisbundið, hafi alltaf verið gott, og að skrifstofan fari að sjálfsögðu að lögum í öllu starfi sínu. Norræna ráðherranefndin telur að það að starfsemi hennar í Rússlandi hafi verið talin til starfs frjálsra félagasamtaka, og þar með fallið undir áðurnefnd lög, sé óheppilegt og þarfnist endurskoðunar.

– Allir eru almennt séð sammála um og byggja á þeim grundvelli að ekki sé rétt að norrænu ríkisstjórnirnar fimm starfi sem „erlendir útsendarar“ í Rússlandi, tekur Høybråten fram. Það gengur þvert á öll grundvallarviðmið fyrir starf Norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi.

Vegna hinnar breyttu lagalegu stöðu hefur Norræna ráðherranefndin sem stendur dregið mjög úr starfsemi sinni í Rússlandi.