Vönduð blaðamennska til höfuðs falsfréttum

03.05.18 | Fréttir
Fighting Fakes - The Nordic Way Accra
Photographer
norden.org
Gæði í blaðamennsku, fjölmiðla- og upplýsingalæsi og sjálfseftirlit voru í brennidepli þegar 30 manna hópur fjölmiðlafólks, sem boðið hafði verið frá Norðurlöndunum, Afríku og alþjóðastofnunum, komu saman við hringborðsumræður í Akkra í Gana, á Alþjóðadegi UNESCO um fjölmiðlafrelsi þann 3. maí. Umræðuefnið var nýútkominn bæklingur, „Fighting Fakes – the Nordic Way“.

Bæklingurinn, sem Norræna ráðherranefndin gaf út, fékk góðar viðtökur og gaf tóninn um að ekki væri til nein einföld leið til þess að takast á við fyrirbærið „falsfréttir“. Jafnframt var sterklega mælt gegn notkun þessa hugtaks og mælst til þess að kalla þetta frekar sínum réttu nöfnum, það er að segja áróður, lygar, villandi upplýsingar og sögur skáldaðar í lygasmiðjum.

Falsfréttir hafa alltaf verið til

Þátttakendur í hringborðsumræðunum voru sammála um þessi tilmæli og nefndu þar að auki að upplýsingaaðgengi, gagnsæi eignarhalds og aukið traust á milli fjölmiðla og almennings væru mikilvæg atriði.

Falsfréttir hafa í sjálfu sér alltaf verið til en nú hafa orðið gríðarmiklar breytingar á norræna fjölmiðlamarkaðnum með tilkomu netmiðla, samfélagsmiðla og sérstaklega alþjóðlegra tæknirisa (FAANG: Facebook, Apple, Amazon, Netflix, Google). Almennt var það þó skoðun þátttakenda í hringborðsumræðunum að áhrifaríkasta vopnið gegn falsfréttum væri vönduð blaðamennska í fjölþættu og sjálfstæðu fjölmiðlalandslagi. Þetta krefst fjárráða og sterkra viðskiptalíkana innan fjölmiðla.

Fjölmiðla- og upplýsingalæsi 

Annað lykilatriði í umræðunum var fjölmiðla- og upplýsingalæsi, ekki einungis í menntakerfinu, heldur í samfélaginu almennt. Fjölgun stofnana sem athuga sannleiksgildi frétta gæti einnig haft áhrif.

Þátttakendur voru einnig á einu máli um mikilvægi þess að styrkja sjálfseftirlit þar sem slíkt eftirlit styðji við meginregluna um armslengdarfjarlægð.

Áhersla var lögð á að ekki væri hægt að sporna gegn falsfréttum með árangursríkum hætti án þess að taka inn í myndina þær gríðarmiklu áskoranir sem FAANG hefur í för með sér fyrir fjárráð og viðskiptalíkön fjölmiðla.

Núna höfum við tækifæri til að bera kennsl á þær aðgerðir sem draga úr kynjahalla í fjölmiðlaumhverfinu og hvetja til virkrar lýðræðisþátttöku nýrra kynslóða.

Virk þátttaka í lýðræðislegum samfélögum

Per Lundgren, aðalráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni, undirstrikar að hringborðsumræðurnar sýni mikilvægi þess að Norðurlöndin deili sjónarmiðum sínum og hugmyndum um falsfréttir með öðrum löndum og ræði hið breytta fjölmiðlalandslag á alþjóðlegum vettvangi:

„Núna höfum við tækifæri til að bera kennsl á þær aðgerðir sem draga úr kynjahalla í fjölmiðlaumhverfinu og hvetja til virkrar lýðræðisþátttöku nýrra kynslóða. Við þurfum viðnámsmeira samfélag sem ýtir undir traust á lýðræðislegum stofnunum sínum og býr yfir fjölbreyttri samsetningu af einka- og ríkisreknum miðlum ásamt nýjum stafrænum miðlum, sem hjálpa einstaklingnum að fóta sig í flóknum heimi sem er gegnsýrður af fjölmiðlum. Það ætti að vera í fyrirrúmi að styrkja og betrumbæta vandaða blaðamennsku þar sem hún er lykilatriði í baráttunni við áróður, lygar og villandi upplýsingar“.

Contact information