Kim Fupz Aakeson og Eva Eriksson (myndir)

Kim Fupz Aakeson
Photographer
Robin Skjoldborg / Gyldendal
Kim Fupz Aakeson og Eva Eriksson (myndir): Søndag, 2011

Bókin gerist á þeim 7 dögum sem menning okkar segir að heimurinn hafi verið skapaður á og þar af leiðandi á einni vinnuviku. Á yfirborðinu er um að ræða afar venjuleg atriði eins og innkaup, matartilbúning, tiltekt, sjónvarpsáhorf og kossa þegar verið er að bjóða góða nótt. Undir yfirborðinu fylgist lesandinn með því drama sem á sér stað hjá hinum fimm-sex ára Torsten, þegar Willy, eini og versti vinur hans sáir fræjum efans í huga hans. Hlakka foreldrar mínir til að eignast barn af því að þeir elska mig ekki lengur?

Bókin fjallar um það mikilvægasta í lífi barns, um að tilheyra og vera umvafið ást og umhyggju, líka þegar maður er ekki (lengur) einn um athyglina.  Willy er rödd efans og neikvæðu afleiðinganna þegar hann segir Torsten að foreldrunum finnist hann ekki lengur sætur, en að hann geti kannski komist á barnaheimili eða flutt á bókasafnið sem er öllum opið og með ókeypis aðgang. Drifinn af efanum spyr Torsten spurninga um ástina við hvert tækifæri. Hann lagar til í herberginu sínu. Hann uppgötvar bangsann sinn á ný. Hann ímyndar sér alls kyns aðstæður. Hann dreymir. Hann fær góðan stuðning frá ömmu sinni. Allt þetta verður til þess að hann getur gert lista yfir það sem hann veit um ást. Hann lýkur listanum á sama tíma og foreldrarnir bjóða honum í sunnudagsmorgunmat upp í rúm til sín. Honum finnst,á því augnabliki, vera næg ást handa öllum.

Sagan ber öll einkenni Kim Fupz Askeson og sýnir form sem hann hefur góð tök á: Þétt uppbyggð og eðlileg frásögn sem er hversdagsleg og auðskiljanleg fyrir börn og hljómar vel í eyrum barna þegar hún er lesin upphátt, en inniheldur einnig fjölda athugasemda sem vekja fullorðna lesendur (sem lesa upphátt) til umhugsunar. Rithöfundinum tekst að skrifa þannig að daglegt líf barnsins endurspeglast með öllum tilfinningum og skilningarvitum þess. Þannig þekkja börn sem heyra söguna daglegt líf og fullorðni lesandinn fær tækifæri til að lifa sig inn í það sem barnið gerir og annars sýnist lítilsvert.

Myndskreytingar bókarinnar fylgja ekki eingöngu orðum frásagnarinnar heldur auðga hann svo mikið að textinn upphefst ef svo má að orði komast. Hversdagurinn verður enn meiri hversdagur. Vinirnir verða ennþá heimspekilegri. Amman verður enn vitrari. Bangsinn Hr. Brix eignast enn meir sál. Táknin verða öflugri. Skilningarvitin verða enn næmari. Hugsið ykkur að myndskreytir nær að sýna föður sem nýtur ilmsins af barninu sínu, ekki eingöngu með nefinu heldur öllum líkamanum sem náttúrulegri framlengingu af nefinu. Það kallar maður ilmmagnara. Á hinn bóginn segja myndirnar kænlegar hliðarsögur við söguna, eins og t.d. í ímyndunarsenunni þegar faðir, móðir og nýja barnið koma í heimsókn á bókasafnið þar sem Torsten situr og les efst á bókapýramída. Faðirinn réttir stoltur barnið í áttina að Torsten á meðan móðirin horfur áhugasöm á bækurnar í hillunni.

Við tilnefnum þessa myndabók vegna þess að henni tekst innan afmarkaðs ramma að segja sögu sem gæti hafa verið mjög hversdagsleg og ótrúleg, en fær í staðinn börn og fullorðna til að fá tilfinningu fyrir hamingjunni í því að það er næg ást fyrir alla - a.m.k. akkúrat núna. Søndag er verk þar sem bæði texti og myndskreytingar eru einföld og spila með og á móti hvert öðru og við höfum hér sjaldgæfa, alvöru myndabók sem býr yfir miklum listrænum gæðum.

Cecilie Eken, Jens Raahauge og Søren Vinterberg.