Lani Yamamoto

Lani Yamamoto
Photographer
Ari Magg
Lani Yamamoto: Stína stórasæng. Crymogea 2013

Stína Stórasæng, fyrsta barnabók Lani Yamamoto á íslensku, er undurfallegt og vandað bókverk. Bókin heitir eftir aðalsöguhetjunni, stelpunni sem er alltaf svo kalt og svo hrædd við kuldann að hún eyðir öllum sínum tíma, orku og ímyndunarafli til að halda kuldanum úti og koma í veg fyrir að hún þurfi að fara út í kuldann. Heita og notalega heimilið verður að sjálfskipuðu fangelsi og það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir Stínu að fara undan sænginni, fara fram úr rúminu. Einmanaleikinn og þráin eftir félagsskap verða óttanum loks yfirsterkari og Stína hættir sér út. Í stað þess að súpa á heitu kakói heldur hún nú á sér hita með því að hlæja og leika við vini sína. Stína lærir allnokkrar lexíur í bókinni, þar á meðal að hlutirnir eru ekki alltaf jafn slæmir og hún heldur – stundum eru þeir meira að segja miklu betri.

Texti bókarinnar er blátt áfram og einfaldur en myndirnar uppfullar af smáatriðum – það er alltaf eitthvað nýtt að sjá, nýjar víddir að rannsaka við hvern lestur – og þannig bæta myndirnar sífellt við söguna. Sérstaklega eru vinnuteikningar Stínu skemmtilegar en þær sýna hin ýmsu tæki og tól sem hún ætlar sér að smíða til að halda á sér hita eða koma í veg fyrir að kuldinn komist inn. Stína stórasæng er saga sem mögulegt væri að segja með orðunum einum og sömuleiðis eingöngu með myndum en væri önnur þessara leiða valin myndi bókin glata öllum sínum töfrum því texti og myndir segja söguna í sameiningu og mynda heillandi heild.