Camilla Sommer & Pernille Kreutzmann (myndskr.)

Camilla Sommer & Pernille Kreutzmann (ill.)
Photographer
Casper Bach Zeeb
Camilla Sommer & Pernille Kreutzmann (myndskr.): Tuttuarannguaq. Myndabók, Maanuup Atuakkiorfia, 2018.

Hreindýrskálfurinn lifir öruggu lífi ásamt móður sinni. Móðirin segir hreindýrskálfinum frá skrýtnum, hættulegum og tvífættum verum sem elski hreindýr. Einn góðan veðurdag hitta mæðginin óvænt tvær af þessum furðuverum. Hreindýrskálfurinn flýr langt burt. Hann bíður og bíður eftir mömmu sinni. Hin hreindýrin segja hreindýrskálfinum að móðir hans sé því miður ekki lengur á meðal þeirra, því hún hafi verið veidd af furðuverunum tvífættu. Hreindýrskálfurinn trúir því alls ekki að mamma hans sé dáin. Hún er svo sterk og gætir hans alltaf svo vel.

Með tímanum skilur hann þó að mamma hans er í alvöru dáin. Hreindýrskálfurinn verður gagntekinn af sorg. Hann missir matarlystina og lífsgleðina og er afar einmana. Áður en móðirin hvarf hitti hreindýrskálfurinn annað lítið hreindýr úti á vatninu sem líktist mömmu þess. Hreindýrskálfurinn hittir það aftur. Hitt hreindýrið er einnig sorgmætt að sjá. Hreindýrskálfurinn hugsar með sér: Kannski hefur þetta litla hreindýr líka misst mömmu sína. Í millitíðinni kemur lítill fiskur til sögunnar og verður góður vinur hreindýrskálfsins. Svo kemur vetur. Vinirnir geta ekki hist mánuðum saman en hlakka til endurfunda að vori.

Yfir veturinn vex hreindýrskálfurinn og dafnar. Hann lærir að lifa á eigin vegum, þrátt fyrir söknuðinn eftir móðurinni. Hreindýrskálfurinn sér aftur hreindýrið sem líkist móður hans. Nú er það orðið alveg eins og móðirin. Eftir langa mæðu hittast perluvinirnir á ný. Afkomendur þeirra verða líka vinir. Hreindýrskálfurinn vitnar í viturleg orð móður sinnar um lífið. Allt getur breyst á augabragði. Það þarf að búa yfir innri styrk. Mikilvægast er þó að sýna gagnkvæma virðingu.     

Bók Camillu Sommer er einföld á yfirborðinu en hefur þó tilvistarlegar spurningar í forgrunni. Hún lætur dýr sem búa yfir kunnuglegum eiginleikum og tilfinningum mannfólksins kljást við siðferðislegar og tilvistarlegar spurningar. Um leið er sagan áminning um að vinátta getur þróast milli ólíkra aðila.
Sagan um hreindýrskálfinn er myndskreytt af

Pernille Kreutzmann. Myndskreytingarnar eru fallegar, falla vel að frásögninni og styðja jafnframt við upplifun barnsins af aðstæðunum. Myndirnar sýna lesandanum hvað hreindýrskálfurinn er lítill gagnvart stórbrotinni náttúrunni og færa lesandann nær upplifun hans. Texti og myndir örva hugsanir og hugarflug lesandans og gefa honum rými til að hugsa sjálfur.