Norræna ráðherranefndin leggur áherslu á samstarf við nágrannana í vestri

26.02.15 | Fréttir
Mikil ónýtt tækifæri felast í samstarfinu í norðri. Það er meginboðskapur alþjóðlegrar ráðstefnu sem Norræna ráðherranefndin stendur fyrir ásamt öðrum í þessari viku í Québec í Kanada.

Meginmarkmið ráðstefnunnar Northern Development (Þróun í norðri) er að skiptast á þekkingu og mynda samstarfsnet. Ráðstefnan er hluti af margra ára þróunarverkefni í Quebec sem nefnist Plan Nord.

― Norðurlönd hafa á rúmlega sextíu árum byggt árum byggt upp árangursríkt og skilvirkt samstarf innan Norðurlanda, sagði Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í inngangserindi sínu á ráðstefnunni. Það starf mun halda áfram og þróast enn frekar á grundvelli yfirlýsingar samstarfsstarfráðherranna um framtíðarsýn; „Saman erum við öflugri“".

Norræna ráðherranefndin ætlar jafnframt að leggja enn meiri áherslu en áður á samstarf utan Norðurlanda, meðal annars í því skyni að auka þekkingu á norræna líkaninu og grundvallargildum okkar, sagði Høybråten.

― Áskoranirnar og tækifærin, og jafnframt almenn gildi í samfélaginu, eru þau sömu á Norðurlöndum og í Kanada, sagði Philippe Couillard, forsætisráðherra Québecs, en hann er einn þeirra sem átti frumkvæði að ráðstefnunni.

Meðal meginviðfangsefna ráðstefnunnar eru sjálfbær þróun og grænn hagvöxtur. Önnur málefni sem verða í sviðsljósinu eru menntamál og rannsóknir og möguleikar á samstarfi á norðurslóðum.

Université Laval, sem er samstarfsverkefni Quebec-fylkis og Norrænu ráðherranefndarinnar, stendur fyrir ráðstefnunni.