Fjárfesting í leikskólum er fjárfesting í framtíðinni

03.04.24 | Fréttir
Barn i huske
Photographer
Helena Wahlman
Það er samfélagslega hagkvæmt að fjárfesta í leikskólum og kennurum. Það stuðlar að jöfnuði og veitir börnum og foreldrum jöfn tækifæri. Þetta sýnir ný skýrsla frá Norrænu ráðherranefndinni um menntamál og rannsóknir.

Í rannsókninni „EARLY CHILDHOOD EDUCATION AND CARE – an Investment in the Future“ er fjallað stuttlega um norræna rannsókn á sviði ECEC (menntunar og umönnunar snemma í barnæsku). Samantektin sýnir að góð umönnun og menntun eflir velferð barna ásamt því að styrkja málþroska og félagslega og tilfinningalega færni. Rannsóknarniðurstöður benda jafnframt til þess að börn sem hafa verið á leikskóla standi betur að vígi í skóla. 
 

Hvað foreldrunum viðvíkur sýnir rannsóknin að þeim gengur betur á vinnumarkaði og í tekjuþróun ef börnin sækja leikskóla. 
Það var starfshópur á vegum norrænu embættismannanefndarinnar um menntamál og rannsóknir sem vann skýrsluna og tillögur hópsins eru skýrar:

  1. Að fjárfesta í fagfólki og stofnunum sem veita hágæðamenntun og -umönnun fyrir öll börn. Það borgar sig.
  2. Að hvetja hópa þar sem þátttaka er minni til þess að nýta sér menntun og umönnun snemma í barnæsku.
  3. Að þróa þekkingargrunn til þess að mæla árangur leikskólastarfs á Norðurlöndum og hvernig það stuðlar að félagslegu réttlæti. 
     

Við þurfum að vinna alla daga að samfélagi þar sem öll hafa jöfn tækifæri, óháð félagslegum, menningarlegum og tungumálalegum bakgrunni, kyni og andlegri eða líkamlegri fötlun.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, er sjálf kennaramenntuð og áréttar mikilvægi góðrar menntunar og umönnunar fyrir samfélagsþróunina.


„Lykilforsenda samþættra, samkeppnishæfra og sjálfbærra Norðurlanda er að við viðhöldum og eflum félagslegt réttlæti og traust til norrænna samfélaga. Við þurfum að vinna alla daga að samfélagi þar sem öll hafa jöfn tækifæri, óháð félagslegum, menningarlegum og tungumálalegum bakgrunni, kyni og andlegri eða líkamlegri fötlun. Það er undirstaða samfélagsins,“ segir Ellemann.


Norðurlönd eru að mörgu leyti leiðandi á sviði menntunar og umönnunar snemma í barnæsku en við stöndum líka frammi fyrir áskorunum.

Eftir því sem fjölbreytni eykst í samfélaginu almennt, og þar af leiðandi líka á mennta- og umönnunarstofnunum fyrir ung börn, þurfa norrænu löndin að fjárfesta í og auka gæði stofnananna með áherslu á að mennta hæft fólk til þess að stuðla að velferð, þroska, umönnun og menntun barna. 
 

Vaxandi skortur á hæfum leikskólakennurum er áskorun alls staðar á Norðurlöndum. Þeirri þróun verður að snúa við.
 

Launakjör leikskólakennara á Norðurlöndum eru líka úrlausnarefni í öllum norrænu löndunum en leikskólakennarar hafa setið eftir í samanburði við aðra háskólamenntaða opinbera starfsmenn. Þá er einnig um mjög kynjaskiptan vinnumarkað að ræða.