Samstarfsráðherrarnir vilja leggja aukinn metnað í samstarf um aðlögun og aukna áherslu á frjálsa för

19.04.16 | Fréttir
Anne Berner
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Flóttamannavandinn, sem heimsbyggðin stendur nú frammi fyrir, hefur sett frjálsri för á Norðurlöndum skorður. Norrænu löndin eiga að leggjast á eitt til að stemma stigu við þessari þróun, sem hefur mikil efnahagsleg og félagsleg áhrif. Þetta sögðu samstarfsráðherrarnir á fundi sínum í Ósló þann 19. apríl. Ennfremur ákváðu ráðherrarnir að margfalda fjárveitingar til aðgerða sem eiga að greiða fyrir aðlögun flóttafólks og innflytjenda á Norðurlöndum.

Ástandið í málefnum flóttafólks og áhrif þess hafa verið til umræðu á fjölda norrænna funda síðan í byrjun þessa árs, þegar tímabundið landamæraeftirlit var tekið upp á nokkrum fjölförnum landamærastöðvum á Norðurlöndum með það að markmiði að standa vörð um reglu og öryggi í löndunum.

Norrænu forsætisráðherrarnir lögðu áherslu á það í febrúar að löndin legðu sig fram um að leysa í sameiningu úr þeim viðfangsefnum sem ástandið í málefnum flóttafólks hefur haft í för með sér, án þess að norrænt samstarf þyrfti að líða fyrir það.

Norrænu samstarfsráðherrarnir ítreka mikilvægi þess að hið norræna sjónarhorn sé haft til hliðsjónar í umræðum, tillögum og við ákvarðanatöku í tengslum við málefni flóttafólks. Þeir mæla með því að ráðherrar sem hafa umsjón með málefnum flóttafólks í löndunum taki mið af norrænum hreyfanleika við störf sín, í löndunum sem og á evrópskum vettvangi.

Þá gáfu ráðherrarnir út sameiginlega yfirlýsingu, „Standa á vörð um frjálsa för á Norðurlöndum“, í tengslum við fundinn.

Greinilega aukinn metnaður í samstarfi um aðlögunarmál

Á fundinum í Ósló ákváðu samstarfsráðherrarnir ennfremur að margfalda það fjármagn sem veitt verður til aðlögunarstarfs á árunum 2016 og 2017.

Við viljum að Norræna ráðherranefndin taki virkan þátt í samstarfinu um aðlögunarmál.

Það hefur sýnt sig að það fjármagn sem ætlað var til aðlögunarstarfs árið 2016 er of lítið. Í maímánuði munu ráðherrarnir því taka ákvörðun um breytingar á fjárhagsáætlunum fyrir 2016 og 2017, til að greiða fyrir metnaðarfyllra samstarfi norrænu landanna á þessu sviði. Meðal annars hefur verið lagt til að stofna sérstaka miðstöð (s. clearingscentral) fyrir miðlun reynslu og þekkingar. Ein af tillögum ráðherranna snýr að því að fjármagna norræna rannsókn á aðlögun.

„Við viljum að Norræna ráðherranefndin taki virkan þátt í samstarfinu um aðlögunarmál,“ segir formaður samstarfsráðherranna, Anne Berner frá Finnlandi. „Markmiðið er að samstarfið geri okkur kleift að safna og miðla þekkingu og reynslu á þessu sviði,“ segir hún.

Í tengslum við fund sinn birtu norrænu samstarfsráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir taka skýra afstöðu með landamæralausum Norðurlöndum til framtíðar. Þá hafa ráðherrarnir beðið framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar um að greina áhrif tímabundins landamæraeftirlits innan Norðurlanda. Markmiðið er að auka skilvirkni í starfi sem miðar að því að uppræta hindranir sem nú hamla frjálsri för, svo og starfi sem á að varna því að nýjar hindranir skjóti rótum. 

Yfirlýsingin: Standa á vörð um frjálsa för á Norðurlöndum