Nordic Innovation House opnar í Singapúr og Hong Kong

25.04.18 | Fréttir
Computerspil
Photographer
Sigurður Ólafsson/norden.org
Fjögur norræn ríki standa saman að opnun nýsköpunarmiðstöðvar, Nordic Innovation House, í Singapúr og Hong Kong. Hugmyndin er að byggja upp norrænt frumkvöðlasamfélag í Asíu á sama hátt og gert hefur verið með árangursríkum hætti í New York og Kísildalnum. Norræna ráðherranefndin tekur þátt í að fjármagna verkefnið.

Tilgangurinn með því að koma á fót Nordic Innovation House í Singapúr og Hong Kong er að liðsinna bæði nýjum og viðurkenndum norrænum frumkvöðlum og fyrirtækjum sem sem eiga góða möguleika til vaxtar og velgengni alþjóðlega. Nýsköpunarmiðstöðin á að verða viðbót við viðskiptasamtök norrænu þjóðanna sem þegar eru á staðnum og vinna náið með þeim.

Ég er afar ánægður með að við fylgjum metnaðarfullri stefnu okkar eftir og að við styrkjum samstarf norrænna fyrirrækja með þessu verkefni.

Nordic Innovation er stofnun í Ósló sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og er aðalfjárfestir verkefnisins sem stendur á bak við helming fjármagnsins, 10,8 milljónir norskra króna. Svíþjóð, Noregur, Finnland og Ísland taka líka þátt Samstarfsnet með fulltrúum frá ríkinu í löndunum fjórum er nú tilbúið til þess að halda áfram með það verkefni að tryggja það fjármagn sem uppá vantar.

„Markmiðið er að hver og ein nýsköpunarmiðstöðvanna eigi að vera fjárhagslega sjálfbær eftir að tilraunatímabilinu er lokið. Heildarfjárframlagið er til þriggja ára,“ segir Svein Berg, forstjóri Nordic Innovation.

Opnar nýjar dyr

Dagfinn Høybråten framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar er ánægður með að norrænt samstarf leiði til markvissra verkefna sem gerir norrænum fyrirtækjum kleift að starfa alþjóðlega og stuðla að sjálfbærum vexti á Norðurlöndum.

„Í Samstarfsáætlun í nýsköpunar- og atvinnumálum (2018-2021) sem samþykkt hefur verið bæði af norrænu atvinnulífsráðherrunum og Norðurlandaráði er undirstrikað að norrænt samstarf á alþjóðlegum vettvangi er meðal sex forgangssviða. Nordic Innovation House er þar sérstaklega nefnt. Ég er afar ánægður með að við fylgjum metnaðarfullri stefnu okkar eftir og að við styrkjum samstarf norrænna fyrirrækja með þessu verkefni. Þegar við byggjum nú upp tryggan grundvöll fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki opnast nýjar dyr fyrir nánara samstarf milli norrænu ríkjanna,“ segir Dagfinn Høybråten.

Fjögur lönd starfa saman

Business Sweden heldur utan um verkefnið í Singapúr í samvinnu við Innovasjon Norge og sendiráð Finnlands, Svíþjóðar og Íslands. Business Sweden leiðir einnig verkefnið í Hong Kong og starfar hér með Innovasjon Norge, ræðismannsskrifstofum Svíþjóðar, Finnlands og Íslands og norsku og sænsku viðskiptaskrifstofunum í Hong Kong.

Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær nýsköpunarmiðstöðvarnar tvær verða opnaðar.