Nýjar norrænar loftslagslausnir – „Green Growth the Nordic Way“ á leiðtogafundi um loftslagsmál

04.12.14 | Fréttir
Sjø og is
Photographer
Nikolaj Bock/norden.org
Norðurlönd hafa áratugum saman verið í broddi fylkingar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í nýju tölublaði „Green Growth the Nordic Way“ má lesa um nýjustu niðurstöður verkefna sem Norræna ráðherranefndin hefur stutt.

Í nýjasta tölublaði „Green Growth the Nordic Way“ er yfirlit yfir ýmis loftslagsverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar má nefna brautryðjendaverkefnið Nordic Partnership Initiative (NPI) um fjármögnun aðgerða gegn loftslagsbreytingum, og Norræna loftslagssjóðinn, sem færir þróunarlöndum nýjar lausnir í loftslagsmálum.

Þá voru niðurstöður Öndvegisrannsóknaáætlunarinnar (TFI) – stærsta norræna rannsóknar- og nýsköpunarverkefnisins fram að þessu – kynntar nýverið, en þær geyma ýmsar nýjar og spennandi lausnir á þessu sviði. Lausnirnar bera vitni um heildræna nálgun sem Norðurlöndin hafa beitt í yfirgripsmiklu starfi á sviði loftslagsmála.

Niðurstöðurnar verða kynntar á leiðtogafundinum um loftslagsmál, COP20, í Perú og síðan þróaðar frekar fram að næsta leiðtogafundi, COP21, sem fram fer í París að ári. Að svo stöddu geta lesendur kynnt sér ýmsar nýjar grænar lausnir Norðurlanda í loftslagsmálum í tímariti okkar sem fjallar um grænt hagkerfi.

Lesið „Green Growth the Nordic Way“ á vefslóðinni www.nordicway.org

 

Norræna leiðin á leiðtogafundinum um loftslagsmál

Norræni vinnuhópurinn um alþjóðlegar loftslagsviðræður (NOAK) var settur á fót til að greiða fyrir samningaviðræðum á vettvangi SÞ í aðdraganda leiðtogafundarins COP15 og hefur gegnt því hlutverki síðan, en skýrslur hópsins hafa greint ríkjandi stefnu í loftslagsmálum á hverjum tíma. Norræni loftslags- og lofthópurinn (KoL) hefur einnig lagt sitt af mörkum, nú síðast með nýstárlegu verkefni um upplýsingamiðlun í tengslum við Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (IPCC).

Brautryðjendastarf hefur verið unnið undir merkjum verkefnisins Nordic Partnership Initiative við að koma á fót nýjum NAMA-verkefnum, m.a. í Perú og Víetnam, með fulltingi NOAK, Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins og Norræna þróunarsjóðsins. Hin tvö síðastnefndu eiga einnig samstarf um Norræna loftslagssjóðinn þar sem nýjar lausnir í loftslagsmálum eru kynntar í þróunarlöndunum.

Þá hefur aðkoma Norræna fjárfestingabankans að loftslagsverkefnum á Norðurlöndum og grannsvæðum þeirra farið vaxandi. Loks má nefna átaksverkefni norrænu forsætisráðherranna um grænan hagvöxt, en í því felst m.a. lausn á flóknum viðfangsefnum á við niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis.

Lesið nánar um verkefnið um grænan hagvöxt á www.norden.org/greengrowth eða fylgist með okkur á Facebook.