232. Katrín Jakobsdóttir (Main speech)

Information

Speech type
Main speech
Speech number
232
Date

Kæru vinir. Í dag erum við að tala um inntak norræns samstarfs og hvaða lærdóma við getum dregið af þeim áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir í gegnum heimsfaraldur. Þá skiptir miklu máli að muna á hvaða grunni við stöndum, rifja það upp að í gömlum fornsögum, sem við Íslendingar getum enn lesið, kemur mjög skýrt fram að norrænir menn voru alls konar. Þeir komu að austan, þeir komu að vestan. En þegar þeir fóru út í heim voru þeir fyrst og fremst norrænir. Mér leið þannig, þegar ég stóð með mínum kollegum í Glasgow að kynna norrænt átak í grænum fjárfestingum og fann að alþjóðasamfélagið horfði til okkar sem norrænna ríkja sem stöndum fyrir ákveðin gildi, virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði en líka mikilvægi þess að tryggja jöfnuð og félagslegt réttlæti í gegnum grænu byltinguna sem er fram undan. Þetta eru gildin sem við deilum og þetta er inntak hinnar norrænu samvinnu. Þetta er það sem það merkir að ver norrænn í dag.

Saga norræns samstarfs undanfarin fimmtíu ár sýnir sameiginlegan vilja og getu til þess að sameiginlegum úrlausnarefnum. Sá árangur sem við höfum náð er hins vegar ekki sjálfgefinn. Hann hefur komið til vegna þess að við höfum viljað vinna saman og við vitum að saman erum við með sterkari og hærri rödd í alþjóðasamfélaginu og saman getum við dregið lærdóma og orðið sterkari hvert og eitt.

Þegar við horfum á heimsfaraldur kórónuveiru held ég að við getum sagt að við höfum bæði séð styrkleika og veikleika norræns samstarfs. Það má segja að í upphafi, þegar við þurftum að bregðast mjög hratt við, — ekkert okkar vissi nákvæmlega hvernig við ætluðum að takast á við þennan óvænta óvin — hafi það verið frumskylda okkar allra að hugsa um öryggi okkar borgara. Þá var til að mynda gripið til þess að loka landamærum og við sjáum það núna, á þeirri mikilvægu könnun sem gerð hefur verið, að þetta olli ákveðnu vantrausti hjá fólkinu okkar sem er vant því að geta farið á milli landa og að Norðurlöndin séu í raun eitt svæði.

Ég vil líka segja: Faraldurinn sýndi styrkleika. Hann sýndi þá styrkleika að um leið og við áttuðum okkur betur á stöðunni þá var það auðveldasta í heimi að taka upp símann og hringja í sína samstarfsmenn á Norðurlöndum. Okkar samstarf byggist ekki bara á hinu formlega samstarfi. Það byggist líka á vináttu og trausti. Þess vegna má segja að eftir fyrsta áfallið hafi samstarfið orðið þéttara en nokkru sinni fyrr. Borgaraþjónustur okkar tóku höndum saman um að koma fólki heim. Heilbrigðisráðherrarnir okkar áttu reglulega fundi og ýmis mál, sem stundum geta orðið vandamál — kannski ekki vandamál en mál sem nauðsynlegt er að vera meðvitaður um. Ég er t.d. að tala um þá stöðu að sum okkar eru í Evrópusambandinu, önnur ekki. Ísland er ekki í Evrópusambandinu. Við leystum úr því með samnorrænu samstarfi og þannig vil ég sérstaklega þakka Svíþjóð fyrir að hafa verið afskaplega mikilvægur tengiliður fyrir okkur í hinu sameiginlega bólusetningarsamstarfi. Það skipti nefnilega máli, þegar við réðumst í bóluefnainnkaupin, að eiga norrænan vin, að geta tekið upp símann og átt þetta beina samtal.

Það er mjög mikilvægt að við lærum af faraldrinum. Og alveg eins og mínir kollegar hafa sagt hér þá munum við standa frammi fyrir fleiri áföllum og við sjáum það til að mynda í þeim afleiðingum sem þegar eru farnar að birtast okkur af loftslagsvánni. Á Íslandi eru það auknar öfgar í veðri, skriðuföll. Við sjáum skógarelda. Við sjáum þurrka. Þetta er eitthvað sem við munum þurfa að takast á við á næstu árum og þar mun skipta miklu máli að við getum unnið saman, að við getum tryggt gott og skilvirkt upplýsingaflæði og líka að við getum deilt þekkingu og reynslu.

Skýrsla Jan-Erik Enestam er mjög mikilvægt innlegg í þetta samtal og ég held að við getum til að mynda deilt reynslu okkar af almannavörnum og dregið af því ýmsa lærdóma. En ég vil líka nota tækifærið og minna á mikilvægi norrænna tungumála. Ég tala íslensku hér í dag en það skiptir miklu máli að við eflum tungumálanám alls staðar og tryggjum að þessi sameiginlegi grunnur, sem skapar vináttu okkar, sé traustur.

Þetta samtal er rétt að hefjast en ég ætla að leyfa mér að segja að lokum: Sá grunnur sem við stöndum á er sterkur og maður finnur það í þessum sal í dag og þá gleði sem er hér yfir því að við séum loksins að hittast í raunheimum eftir erfið misseri. Ég hef fulla trú á því að við séum algjörlega óbilandi í því einmitt að draga lærdóm af því sem hefur gengið á og efla samstarf okkar enn frekar.