247. Steinunn Þóra Árnadóttir (Indlæg)

Information

Type
Indlæg
Talenummer
247
Talerrolle
Nordisk grön vänsters talesperson
Dato

Forseti. Mér fannst það jákvætt hér áðan þegar utanríkisráðherrarnir voru að tala og ég hélt að það kvæði við nýjan tón þegar kæmi að öryggis- og varnarmálum Norðurlandanna. Það eru mér því vonbrigði að heyra, þegar varnarmálaráðherrarnir tala hér í dag, að áherslan er allt önnur. Hér áðan lögðum við áherslu á loftslagsmálin, á netöryggismálin og mikilvægi þess að taka þátt í alþjóðlegum stofnunum. Stærsta ógnin sem að heiminum steðjar í dag eru loftslagsbreytingar. Það er ekki hægt að takast á við þær með vopnum eða stríðstólum eða hernaðarstyrk, sama hversu mikill hann er. Það þarf aðrar aðferðir. Því fjármagni sem fer í að kaupa vopn væri betur varið  í að aðstoða þær þjóðir sem verða hvað verst úti vegna loftslagsbreytinga. Það er alvöruöryggismál fyrir heiminn á 21. öldinni.

Ég vil leggja áherslu á það að við verðum einnig að vera vakandi fyrir vaxandi kjarnorkuvopnaógn í heiminum, því miður. Mikilvægum kjarnorkuafvopnunarsamningum hefur verið sagt upp á síðastliðnum misserum og mig langar að spyrja: Hvað hafa varnarmálaráðherrar Norðurlandanna gert vegna þessa? Hafa þeir beitt sér fyrir því að kjarnorkuvopnum verði útrýmt og heimurinn þannig gerður öruggari? Það væri alvöruvarnarmál.

Það er leiðinlegt að mér finnst umræðan núna hafa farið til baka á einhverja aðra öld. Við vorum nefnilega fyrir um það bil einum og hálfum klukkutíma á réttri leið.