339. Orri Páll Jóhannsson (Inlägg)

Information

Speech type
Inlägg
Speech number
339
Speech statuses
Waiting for transcription
Date

Forseti. Lífsgæði og félagslegt réttlæti er með því mesta sem gerist í heiminum hér á Norðurlöndum. Engu að síður er tíðni dauðsfalla sem tengjast neyslu fíkniefna með því hæsta sem gerist í Evrópu og fer vaxandi, sér í lagi í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi.

Og neyslu og sölu fíkniefna fylgir ofbeldi. Aðgengi að vopnum hefur aukist, vopnum sem annaðhvort hefur verið smyglað yfir landamæri eða vopnum sem sett hafa verið saman úr hlutum sem fluttir hafa verið inn. Öflug tollgæsla og samstarf hennar við lögreglu, sér í lagi í alþjóðlegu samhengi, getur spornað við þessari þróun. Það sýna tölurnar okkur, en flæði fíkniefna og vopna til Norðurlanda virðist hafa aukist þrátt fyrir fleiri haldlagningar. Tollgæslan gegnir því mikilvægu hlutverki í að koma í veg fyrir þetta flæði en betur má ef duga skal.

Markmið Norðurlandaráðs er vissulega að fækka stjórnsýsluhindrunum og landamæratálmunum og var mikið um það rætt á vettvangi hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar. En nefndin leggur engu að síður til að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til ríkisstjórnanna á Norðurlöndum að þær auki norrænt samstarf á sviði lögreglu- og tollamála og móti sameiginlega stefnu til að stemma stigu við smygli með vöruflutningum, rétt eins og tillaga okkar í flokkahópi Norrænna vinstri grænna kvað á um.

Hvað fíkniefnum og vopnum viðvíkur er norrænt notagildi einmitt fólgið í því að efla og herða á samstarfi lögreglu- og tollgæslu. Frjáls för er mikils virði, en þegar kemur að smygli á fíkniefnum og vopnum sem kosta mannslíf bera norrænu löndin ábyrgð. Að sporna við smygli á fíkniefnum og vopnum er að standa vörð um lífsgæði og félagslegt réttlæti á Norðurlöndum.