353. Bryndís Haraldsdóttir (Huvudinlägg)

Information

Speech type
Huvudinlägg
Speech number
353
Speech statuses
Waiting for transcription
Date

Ég þakka fyrir þann heiður og það traust sem okkur Oddnýju G. Harðardóttur hefur verið sýnt með því að fela okkur að leiða störf Norðurlandaráðs á næsta ári. Ég vil líka þakka Jorodd Asphjell forseta og Helge Orten varaforseta fyrir gott starf á þessu ári. Það er sönn ánægja að vinna með þessum tveimur heiðursmönnum og ég vona að við fáum að njóta ráðgjafar þeirra við undirbúning formennskutíðar okkar á Íslandi.

Ég hef heyrt frá Guðmundi Inga Guðbrandssyni, samstarfsráðherra Íslands, að samstarfið milli hans og norsku formennskunnar í Norðurlandaráði hafi verið með miklum ágætum. Guðmundur Ingi hefur lagt sig fram um að taka tillit til sjónarmiða Norðurlandaráðs varðandi fjárhagsáætlun norræns samstarfs og við að bæta samskiptin okkar almennt. Ég vona og ég trúi að samvinna okkar Oddnýjar með Jessiku Roswall, samstarfsráðherra Svíþjóðar, á næsta ári verði eins góð.

Í dag kynnum við formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði opinberlega. Mörg ykkar sem hér eruð hafið þó séð hana og lesið áður. Fáeinar breytingar hafa verið gerðar á henni síðan hún var kynnt á Septemberfundi Norðurlandaráðs en við höfum núna dreift blaði um salinn með QR-kóða þar sem þið getið nálgast áætlunina á ensku, finnsku, íslensku og skandinavísku.

Yfirskrift formennskuáætlunarinnar er Friður og öryggi á Norðurslóðum. Eins og fram kemur í upphafi áætlunarinnar er þar átt við þörfina á að tryggja öryggi Norðurlanda og bandalagsþjóða þeirra á norðurslóðum en jafnframt nauðsyn þess að draga úr spennu á svæðinu og leggja aukna áherslu á friðsamlegar lausnir. Staðan sem upp er komin eftir allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 hefur haft mikil áhrif á samvinnu norðurslóðaríkja. Samstarfið við Rússa er nánast í lamasessi. Norðmenn, sem nú eru í formennsku í Norðurskautsráðinu, hafa fengið það erfiða verkefni að finna leiðir út úr þessari flóknu stöðu sem upp er komin.

Við teljum að náið og gott samstarf Norðurlanda sé lykilatriði í þessu sambandi. Mikilvægi samvinnu Norðurlanda í norðurslóðamálum var einnig nefnt í Stoltenberg-skýrslunni, Enestam-skýrslunni og skýrslu Björns Bjarnasonar.

Með orðinu öryggi í yfirskrift áætlunarinnar eigum við ekki aðeins við öryggismál í hefðbundnum skilningi heldur einnig margt annað sem tengist velferð og framtíð Norðurlanda og sérstaklega íbúa á Norðurslóðum. Þar má nefna velferðarmál, stöðu jaðarhópa af ýmsu tagi, fæðuöryggi og erfiðleika fjölmiðla á jaðarsvæðum.

Þegar norðurslóðir eru til umræðu verður ekki hjá því komist að fjalla um loftslagsmál. Hlýnun á norðurslóðum er að jafnaði fjórum sinnum meiri en í öðrum heimshlutum. Bráðnun íss opnar siglingaleiðir og aðgang að auðlindum.

Þróun mála á norðurslóðum skiptir alla heimsbyggðina máli enda sýna mörg ríki þessu svæði mikinn áhuga, ekki aðeins hin eiginlegu norðurslóðaríki. Nefna má Kína sem stefnir að því að opna nýja silkileið í norðri sem á að vera hluti af beltis- og brautaráætluninni.

Nú meðan stríðið geisar í Mið-Austurlöndum og í Úkraínu horfir heimsbyggðin helst þangað en brátt mun athyglin beinast að norðurslóðum á ný.

Við á Norðurlöndum leggjum mikið upp úr því að farið sé að alþjóðalögum, að mannréttindi séu virt og að viðmið réttarríkisins séu í hávegum höfð. Ég lít svo á að sem norðurslóðaríki sé það skylda okkar að verja þessi gildi á norðurslóðum og koma í veg fyrir hernaðarkapphlaup og stjórnlaust auðlindakapphlaup.

Kæru vinir. Við lifum á tímum örra breytinga og stóratburða. Síðast þegar Ísland var í formennsku í Norðurlandarárði, árið 2020, varð að endurskoða alla starfsemina og öll markmið til að bregðast við Covid-19 faraldrinum. Í formennskutíð Finna í fyrra kom einnig upp ný staða vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Nú logar allt í Mið-Austurlöndum og enginn veit hvernig það endar.Við höfðum þessa óvissu í huga þegar við sömdum formennskuáætlunina og því er hún almennt orðuð og sveigjanleg.

En ég hef líka heyrt það nefnt að formennskuáætlunin okkar sé svolítið róttækari og djarfari en þessar formennskuáætlanir eru yfirleitt. Það er líka rétt. Hún snertir á málum sem geta verið viðkvæm, málum sem við erum ekki endilega öll að öllu leyti sammála um, og það er viljandi gert. Ég er ekki hrædd við að taka slík mál upp á þessum vettvangi. Styrkur Norðurlanda og norræns samstarfs byggir ekki á því að við séum sammála um allt. Við höfum oft gengið í gegnum erfiða tíma í samskiptum okkar og verið ákaflega ósammála. Meginstyrkur okkar er, og á að vera, að við getum tekist á við áskoranir og ágreiningsefni á góðan og friðsamlegan hátt.

Friður hefur ríkt í innbyrðis samskiptum Norðurlanda í meira en 200 ár. Það er merkilegur árangur og það eru fáir heimshlutar sem hafa búið við slíka gæfu. Vonandi getur sú reynsla stuðlað að friði og góðum samskiptum á norðurslóðum og á öðrum nágrannasvæðum okkar.

En það dugar ekki fyrir okkur að státa af afrekum fyrri tíma og predika yfir öðrum að gera eins og við. Við þurfum líka að rækta og þróa okkar samstarf og aðlaga okkur að breyttum aðstæðum. Norræn samfélög eru stöðugt að breytast og sömuleiðis umheimurinn. Ef Norðurlandaráð og norrænt samstarf stendur í stað við þessar aðstæður hættum við smám saman að skipta máli.

Helsingfors-samningurinn var undirritaður árið 1962. Það eru meira en 60 ár síðan. Þá höfðu menn ekki enn gengið á tunglinu, kalda stríðið var ekki hálfnað, Urho Kekkonen var forseti Finna og olíuævintýri Norðmanna var ekki hafið. Það er með öðrum orðum langt síðan skrifað var undir Helsingfors-samninginn. Margt hefur breyst í heiminum síðan en samningurinn hefur að meginhluta verið óbreyttur þótt einhverjar lagfæringar hafi verið gerðar. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur skipað starfshóp um endurskoðun á Helsingfors-samningnum. Hann hefur þegar haldið nokkra fundi og mér skilst að þeir hafi verið líflegir og jafnvel hafi verið tekist nokkuð á. Það sýnir að norrænt samstarf skiptir máli. Við þingmenn brennum fyrir samstarfinu og þeim gildum og þeim markmiðum sem við erum að berjast fyrir.

Starfið að endurskoða Helsingfors-samninginn verður mikilvægur þáttur í formennskuári Íslands í Norðurlandaráði. Hver sem niðurstaða Norðurlandaráðs eða ríkisstjórna Norðurlandanna og þjóðþinga landanna verður að lokum getur þetta ferli orðið tækifæri og tilefni til að ræða og fara yfir mörg mikilvæg mál sem snerta Norðurlöndin og norrænt samstarf.

Eitt af því sem við viljum skoða er staða tungumálanna í norrænu samstarfi. Fyrir marga Norðurlandabúa er skandinavíska eitt af því sem tengir saman löndin. Fyrir okkur sem höfum önnur móðurmál hefur hún þvert á móti í auknum mæli orðið aðgreinandi og jafnvel staðið í vegi fyrir þátttöku í norrænu samstarfi. Þetta þurfum við að ræða betur og finna leiðir til að jafna stöðu þátttakenda í samstarfinu til að efla það til framtíðar.

Við Oddný hlökkum til að takast á við þessi verkefni og fleiri á næsta ári og til þess að vinna með okkar góðu félögum í Norðurlandaráði.

Að lokum vil ég þakka fyrir góðar viðtökur og vel skipulagt þing hér í Ósló. Takk til allra þeirra sem hafa staðið að þinginu og undirbúningi þess. Ég hlakka til að vinna með ykkur öllum.