Nýr flokkunarstuðull: Hvert Norðurlandanna hefur bestu framtíðarmöguleikana?

15.02.16 | Fréttir
Þróun og framtíðarhorfur einstakra svæða eru háðar efnahagshorfum, horfum á vinnumarkaði og íbúaþróun. Samkvæmt nýjum flokkunarstuðli Nordregio kemur fram að Stór-Oslóarsvæðið, Stór-Kaupmannahafnarsvæðið, Stokkhólmur og Stór-Helsinkisvæðið eru eftirsóttustu staðir Norðurlandanna. Svæðin búa yfir mikilli samkeppnishæfni og laða að sér bæði fjármagn og mannauð. Í nýrri skýrslu um stöðu Norðurlandanna ”The State of the Nordic Region 2016” kemur fram á hverju flokkunin byggir. Þá er komið inn á hvernig norræn samvinna á sviði orkumála og til eflingar ferðaþjónustu getur aukið ávinning allra hlutaðeigandi.

Syrkleikar og veikleikar Íslands

Fljótsdalshreppur og Breiðdalshreppur eru meðal þeirra sveitarfélaga sem verst standa varðandi fólksfækkun sem er um 1,5% að meðaltali á ári. Austfirsku hreppirnir tveir eru þar með í hópi sjö sveitarfélaga sem glíma við hvað mestan vanda varðandi neikvæða íbúaþróun, önnur sveitarfélög eru til dæmis Loppa í Finnmörku og Puumala og Hyrynsalmi í Norður-Finnlandi. Á sama tíma var fólksfjölgun hlutfallslega mikil í Kjósarhreppi eða um 3 prósent sem þykir nokkuð mikið jafnvel samanborðið við stærri byggðarlög þar sem fólksfjölgun er jafnan mest. Höfuðborgarsvæðið er með þriðju mestu hlutfallslegu fólksfjölgunina á öllum Norðurlöndunum á árunum 1995 til 2015 eða 35%, aðeins í Stavanger í Noregi og Oulu í Finnlandi hefur fjölgunin verið meiri hlutfallslega.

 

Ísland er ólíkt hinum Norðurlöndum hvað varðar fólksflutninga því það er breytilegt á milli ára hvort fleiri flytjast til eða frá landinu. Þannig hefur það verið frá árinu 1960. Árið 2014 var stærstur hluti innflytjenda á Norðurlöndunum erlendir ríkisborgarar eða að meðaltali 81% en hlutfallið er breytilegt, frá 62% á Íslandi til 88% í Noregi. Sé horft til fólksflutninga innan Norðurlandanna flytja mun færri til Íslands og Finnlands en hinna landanna, 25% þeirra sem flytja til Finnlands eru af öðru þjóðerni en aðeins 14% þeirra sem flytja til Íslands. Munurinn kanna að endurspegla ólíka atvinnu- og námsmöguleika í löndunum, þar sem til dæmis námsframboð í Svíþjóð, Noregi og Danmörku kann að laða að Íslendinga og Finna.

 

Efnahagshrunið árið 2008 hafði víðtæk áhrif á Norðurlöndunum þar sem verg landsframleiðsla dróst saman á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð um 5% og 8% í Finnlandi. Síðan hefur hagvöxtur aðeins aukist svo einhverju nemi á Íslandi og í Svíþjóð en því til viðbótar er atvinnuþátttaka á Íslandi vel yfir meðaltali Norðurlandanna. Mikil aukning í ferðaþjónustu frá 2008 til 2014 kann að skýra að hluta mikla atvinnuþátttöku. Töflur í skýrslunni sýna hvernig fjöldi gistinótta hefur vaxið á tímabilinu eða um og yfir 15%. Hvergi á Norðurlöndunum hefur fjöldi ferðamanna aukist eins mikið og á Íslandi, mesta meðaltalsaukningin var 176% á Suðurnesjum en aukning er yfir 100% í öllum landshlutum nema einum. Ísland er eitt Norðurlandanna yfir meðaltali OECD ríkjanna þegar kemur að hlutfalli ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu. Hin Norðurlöndin eru langt undir meðaltalinu með á bilinu 1% til 2,5 % á meðan hlutfallið var komið í 7,4% á Íslandi árið 2013.

 

Þrátt fyrir þær áskoranir sem ferðaþjónustan stóð frammi fyrir vegna efnahagshrunsins árið 2008 og gossins í Eyjafjallajökli árið 2010 hefur hún vaxið og dafnað. Eldgosið í Eyjafjallajökli komst í heimsfréttirnar og með þeirri athygli ásamt átakinu “Inspired by Iceland” tókst að snúa þessum neikvæðu atburðum þjóðarbúinu í hag. Annar mikilvægur þáttur í þróuninni er leiðakerfi Icelandair ‘hub and spoke’ sem hefur gert sitt í að koma Íslandi á kortið frá árinu 1998. Með Keflavíkurflugvöll sem sína heimahöfn hefur flugfélaginu tekist að draga að gesti frá helstu mörkuðum með því að bjóða upp á beint flug til sífellt fleiri áfangastaða.

 

Hlutfall alþjóðlegra ferðamanna er almennt hærra á Íslandi, samanborðið við hin Norðurlöndin. Á Íslandi var Reykjavíkurhöfn helsti viðkomustaður skemmtiferðaskipa en þangað komu 91 skip með 105 þúsund farþega, 73 þúsund farþegar komu til Akureyrar og 40 þúsund til Ísafjarðar, í öllum höfnunum mátti merkja aukningu á árunum 2011 til 2014. Viðkomustaðir skemmtiferðaskipa eru víðar um landið og hefur umferð þeirra aukist í flestum tilvikum. Hvað sem öðru líður þá er Danmörk enn vinsælasta land Norðurlandanna og fjöldi ferðamanna í Svíþjóð hefur vaxið síðustu ár.

Verg landsframleiðsla hefur aukist á öllum Norðurlöndunum á sama tíma og orkunotkun hefur staðið í stað, að Íslandi undanskyldu þar sem að orkunotkunin jókst. Orka fengin frá jarðvarma og öðrum endurnýtanlegum orkugjöfum er þess eðlis að minni áhersla hefur verið lögð á að draga úr orkunotkun. Orkufrekur iðnaður skýrir að stórum hluta mikla orkunotkun landsins sem þó vegna umhverfisvænna orkugjafa er grænast allra Norðurlandanna.

 

Það þarf ekki að koma á óvart að höfðborgarsvæði hinna Norðurlandanna, þ.e. Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar raði sér í efstu sætin þegar frammistaða landanna er metin. Tvö íslensk svæði komast inn á lista efstu tuttugu sætanna, höfðuborgarsvæðið vermir tíunda sætið og Suðurnesin eru í því átjánda. Bæði svæðin teljast hafa nokkuð góða möguleika varðandi íbúaþróun og eru yfir meðallagi þegar kemur að framtíðarmöguleikum efnahags og vinnumarkaðar. Önnur svæði á Íslandi eru í 26. til 41. sæti en samanborið við úttekt á árunum 2010 til 2015 eru Suðurnesin eina svæðið sem hefur bætt sína stöðu á meðan framtíðarsýn hinna hefur hrakað.

www.nordregio.se/nordicregion2016