Lykilfólk

alt=""
Photographer
BIG / norden.org
Norrænu samstarfi er stýrt af norrænu samstarfsráðherrunum og völdum þingmönnum.

Norrænu forsætisráðherrarnir og leiðtogar Álandseyja, Færeyja og Grænlands hafa yfirumsjón með samstarfi norrænu ríkisstjórnanna. Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa umsjón með pólitískri samhæfingu í norrænu samstarfi. Samstarfsráðherra þess lands sem fer með formennsku í norrænu samstarfi hverju sinni er formaður samstarfsráðherranna.

Alls eru 11 fagráðherranefndir. Í þeim sitja þeir ráðherrar frá Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum þremur, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, sem bera ábyrgð á þeim málaflokkum sem ráðherranefndirnar fjalla um.

Sér til aðstoðar hafa samstarfsráðherrarnir háttsetta embættismenn sem mynda Norrænu samstarfsnefndina (NSK). Þeir sjá um samhæfingu samstarfsins.

Framkvæmdastjóri er æðsti embættismaður á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norrænar stofnanir eins og Norræni menningarsjóðurinn, Norræna menningargáttin, Norræna nýsköpunarmiðstöðin, Norræna rannsóknaráðið (NordForsk) og Norrænar orkurannsóknir lúta stjórn framkvæmdastjóra eða forstjóra, en æðstu embættismenn Norræna fjárfestingabankans eru nefndir forseti og framkvæmdastjóri.

Fulltrúar í Norðurlandaráði eru valdir úr hópi þingmanna af þingum landanna/sjálfstjórnarsvæðanna. Forsætisnefnd fer með æðsta ákvörðunarvald í Norðurlandaráði. Nefndinni stjórna forseti og varaforseti Norðurlandaráðs, sem báðir eru kosnir á Norðurlandaráðsþingi til eins almanaksárs í senn. Forseti og varaforseti eru frá landinu sem heldur næsta þing.

Formenn og varaformenn í nefndum Norðurlandaráðs eru kosnir á þinginu og við skipan þeirra er horft til jafnvægis milli aðildarríkja, flokkahópa og kynja.

Æðsti embættismaður Norðurlandaráðs er framkvæmdastjórinn, sem stýrir starfi skrifstofunnar.

Umsjón með almennu norrænu samstarfi hefur Samband Norrænu félaganna (FNF), en því er stýrt af forsætisnefnd sem í sitja formenn Norrænu félaganna í löndunum. Æðsti embættismaður Sambands Norrænu félaganna er framkvæmdastjórinn. Æðsti embættismaður Norrænu félaganna í hverju landi fyrir sig er einnig titlaður framkvæmdastjóri.

Fjöldi þekktra stjórnmálamanna hefur tekið virkan þátt í norrænu samstarfi í gegnum tíðina. Á meðal þeirra sem gegnt hafa embætti forseta Norðurlandaráðs eru Svíarnir Olof Palme og Karin Söder, Norðmennirnir Kåre Willoch og Trygve Bratteli, Karl-August Fagerholm og Vieno Jussi Sukselainen frá Finnlandi, Anker Jørgensen og Jens Otto Krag frá Danmörku og Matthías Á. Mathiesen og Páll Pétursson frá Íslandi.

Contact information