Norræna ráðherranefndin

alt=""
Photographer
BIG / norden.org
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Framtíðarsýn forsætisráðherra Norðurlandanna er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og best samþætta svæði heims á árunum fram til 2030. Samstarfið í Norrænu ráðherranefndinni á að þjóna því markmiði.

Norrænu forsætisráðherrarnir bera meginábyrgð á norrænu samstarfi. Í raun er ábyrgðinni framvísað til samstarfsráðherra Norðurlanda (MR-SAM) og til Norrænu samstarfsnefndarinnar (NSK) sem sér um samræmingu samstarfs norrænu ríkisstjórnanna frá degi til dags. 

Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971 og er þrátt fyrir heiti sitt í raun ekki ein ráðherranefnd heldur fleiri. Nú starfa 11 fagráðherranefndir auk ráðherranefndar samstarfsráðherranna. Ákvarðanir í norrænu ráðherranefndunum skulu samþykktar einróma.

Formennska í Norrænu ráðherranefndinni, sem stendur eitt ár í senn, fer á milli hinna fimm norrænu ríkja. Landið sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni hverju sinni gerir sér áætlun sem tekið er mið af í norrænu samstarfi á því ári. Þá stýra fulltrúar formennskulandsins fundum meðan á formennskuárinu stendur.

Mál ráðherranefndanna eru undirbúin og þeim fylgt eftir af embættismannanefndum sem skipaðar eru embættismönnum ríkjanna.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna halda fundi árlega og hittast auk þess á öðrum vettvangi, til dæmis í tengslum við leiðtogafundi ESB. Norrænu utanríkis- og varnamálaráðherrarnir hittast reglulega, þó ekki á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Aðildarríki og svæði

Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa verið aðilar að Norrænu ráðherranefndinni síðan 1971. Auk þess hafa Álandseyjar, Grænland og Færeyjar náð fram útvíkkaðri aðild og sterkari stöðu í Norrænu ráðherranefndinni og eiga nú í raun sams konar aðild og ofantalin ríki.

Hvert land ræður yfir einu atkvæði í Norrænu ráðherranefndinni. Ráðaherranefndin er skipuð einum eða fleiri ráðherrum frá hverju landi. Norræna ráðherranefndin getur þannig verið skipuð samstarfsráðherrum eða fagráðherrum eða hvoru tveggja. Fulltrúar landsstjórna Álandseyja, Færeyja og Grænlands taka einnig þátt í starfi ráðherranefndarinnar.

Álandseyjar, Færeyjar og Grænland geta kosið að vera aðilar að ákvörðunum sem teknar eru í Norrænu ráðherranefndinni að því marki sem hver og einn sjálfstjórnarsamningur þeirra gefur tækifæri til.

Áhrif Álandseyja, Færeyja og Grænlands hafa aukist í norrænu samstarfi í kjölfar Álandseyja-yfirlýsingarinnar sem samþykkt var af samstarfsráðherrunum í Mariehamn á Álandseyjum 5. september 2007. Álandseyja-yfirlýsingin er skýrsla um aðgerðir sem styrkt geta þátttöku Álandseyja, Færeyja og Grænlands í norrænu samstarfi.

Starfsreglur og stjórntæki Norrænu ráðherranefndarinnar

Starfsreglur og önnur stjórntæki byggja á Helsingfors-samningnum sem var undirritaður í Helsinki árið 1962. Helsingfors-samningurinn er samstarfssamningur sem liggur til grundvallar norrænu samstarfi (stundum einnig nefndur Helsingfors-samningarnir vegna seinni tíma endurskoðunar og breytinga, þær síðustu frá 1996)

Til viðbótar þessu koma önnur mikilvæg stjórntæki sem eiga við um starf Norrænu ráðherranefndarinnar.