Saga norrænnar samvinnu

Nordiska flaggor
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Sumir hafa skilgreint samnorrænar aðgerðir á seinni tímum sem „sveiflur Norðurlanda“. Sé farið þúsund á aftur í tímann verða sveiflurnar enn stærri, milli tímabila þar sem stríð geisar og tímabila þegar samstaða ríkir. Á 20. og 21. öldinni hefur samstarfið milli landanna hins vegar aukist stöðugt.
Fyrir 1952 – Í gegnum tíðina hafa bæði stríð og bandalög sett mark sitt á Norðurlönd

Fyrir 1000 árum voru norrænu þjóðflokkarnir farnir að safnast saman og mynda konungsríki. Fyrir þann tíma voru norrænir menn þekktir sem víkingar, sem bæði versluðu við og hernámu svæði utan Norðurlandanna.

Á þessum tíma náði kristni ítökum og hinar villtu hernámsferðir hættu. Stundum voru þó háð stríð - einnig innbyrðis milli norrænu ríkjanna.

Á árunum 1297-1521 voru Norðurlöndin sameinuð í svonefndu Kalmarsambandi. Margrét 1. var þegar orðin drottning í Noregi og Danmörku þegar hún var valin drottning Svíþjóðar.

Erik af Pommern frændi Margrétar var krýndur norrænn konungur í Kalmar þann 17. júní 1397. Kalmarsambandið var við lýði fram til ársins 1521 þegar Gústav Vasa var kjörinn konungur í Svíþjóð.

Næstu 300 ár voru Norðurlöndin sundruð. Sænska konungsríkið náði einnig til Finnlands og smám saman fjölda annarra svæða á Eystrasaltssvæðinu.

Danska konungsríkið náði einnig til Noregs, Íslands, Grænlands og Færeyja. Ríkin tvö háðu mörg stríð hvort gegn öðru.

Framan af var danska konungsríkið sterkara en í 30 ára stríðinu á sautjándu öld náði sænska konungsríkið yfirhöndinni.

Hið mikla norræna stríð í byrjun 18. aldar markar endalok stórveldistíma Svía. Rússland og Prússland urðu hin nýju stórveldi við Eystrasaltið.

Með Napóleonsstríðunum urðu á ný breytingar á Norðurlöndum. Rússar réðust á og hernámu hið sænska Finnland og keisarinn varð stórfursti af Finnlandi árið 1809, og ákvæði í friðarsáttmálanum sem gerður var í Kiel kvað á um að Danir yrðu að láta Svíum Noreg í té. Noregur var í ríkjasambandi við Svíþjóð frá 1814 til 1905.

Svíþjóð, Danmörk og Noregur hófu skandinavískt myntsamstarf árið 1875. Það var við lýði til 1924. Í raun lagðist það þó af í fyrri heimsstyrjöld þar sem krónan í hverju landi fyrir sig hafði ekki lengur sama verðgildi miðað við gull.

Árið 1905 var ríkjasamband Svíþjóðar og Noregs lagt af og Norðmenn hlutu sjálfstæði. Árið 1905 var ríkjasamband Svíþjóðar og Noregs lagt af og Norðmenn hlutu sjálfstæði. Finnland hlaut sjálfstæði þann 6. desember 1917 og árið eftir hlaut Ísland sjálfsstjórn að miklum hluta, en til ársins 1944 var landið þó í konungssambandi við Danmörku og hafði sömu utanríkisstefnu.

Svíþjóð og Finnland deildu um Álandseyjar, en Þjóðabandalagið fékk því framgengt að eyjarnar tengdust Finnlandi.

Fjöldi norrænna grasrótarsamtaka höfðu með sér samstarf þegar í lok 19. aldar. Grasrótarsamstarfið er enn þann dag í dag ein af meginstoðum formlega samstarfsins.

Norræna félagið var stofnað í Danmörku, Noregi og Svíþjóð árið 1919, á Íslandi árið 1922 og í Finnlandi 1924. Félögin hafa síðan verið drifkraftur í eflingu norræns samstarfs.

Gott dæmi er vinabæjasamstarfið. Árið 1939 hófst samstarf Thisted í Danmörku við Uddevalla í Svíþjóð, og í kjölfarið samstarf fjölda annarra bæja.

Norrænir jafnaðarmenn og tengd samtök höfðu þegar fyrir seinni heimsstyrjöld hafið samstarf í samstarfsnefndinni SAMAK.

Á fyrsta fundi SAMAK eftir stríð, sem haldinn var í Stokkhólmi árið 1945, voru margir af helstu stjórnmálamönnum Norðurlanda meðal þátttakenda. Þeir komust að samkomulagi um að vinna að sameiginlegri norrænni stefnu á ýmsum sviðum.

Östen Undén utanríkisráðherra Svíþjóðar lagði til í maí 1948 að myndað yrði norrænt varnarbandalag. En á fyrstu mánuðum ársins 1949 var viðræðum um varnarbandalag endanlega slitið. Noregur og Svíþjóð voru á öndverðum meiði.

Danir, Íslendingar og Norðmenn völdu þess í stað að ganga í NATO en Svíar voru áfram hlutlausir.

Norðurlandaráð var stofnað 1952 af Danmörku, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Finnland sem á þeim tíma var undir miklum áhrifum frá nálægðinni við Sovétríkin með Stalín við stjórnvölinn varð aðili að ráðinu árið 1955 þegar hinn nýi leiðtogi, Krústjoff, boðaði þíðu í alþjóðasamskiptum.

1953 -1971 – Margar áætlanir og aðgerðir en aðeins smá skref tekin

Á sjötta áratug síðustu aldar voru áætlanir um norrænt fríverslunarsvæði og norrænt tollasamband, en niðurstaðan varð sú að Svíþjóð, Noregur og Danmörk samþykktu að ganga í þau samtök sem urðu að fríverslunarsamtökunum EFTA árið 1960.

Finnland gekk í EFTA árið 1961. Ísland gerðist aðili árið 1970, og í skamman tíma tilheyrðu norrænu ríkin öll sama fríverslunarsvæði.

Samstarfið var hins vegar nánara og meira skuldbindandi innan Evrópubandalagsins (EB). Í júlí 1961 ákvað Stóra-Bretland að sækja um aðild að EB. Danmörk og Noregur sóttu einnig um aðild á þessu tímabili.

Engar ákvarðanir voru þó teknar vegna andstöðu de Gaulle Frakklandsforseta gegn því að Bretar fengju inngöngu. Aðildarviðræður voru stöðvaðar í janúar 1963.

En hinar breyttu aðstæður undangenginna ára urðu til þess að efla enn frekar óskina um formlegan samning um norrænt samstarf. Sá samningur var gerður í Helsinki 23. mars 1962 og þessi „Norræna stjórnarskrá“ er því alltaf kölluð Helsinki-sáttmálinn.

Frá 1968 þar til í upphafi árs 1970 áttu sér stað viðræður um norrænt efnahagssamstarf innan ramma hins svokallaða Nordek. Ekkert varð úr samstarfinu því Finnar töldu sig ekki geta tekið þátt vegna tengsla við Sovétríkin.

Þessi misheppnaða tilraun hafði engu að síður annað í för með sér: Stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar árið 1971.

1972 -1989 – Norðurlönd í norrænu, evrópsku og alheimssamstarfi

Frá 1. janúar 1973 varð eitt Norðurlandanna, Danmörk, aðili að Evrópubandalaginu en hin fjögur voru utan bandalagsins. Norræna ráðherranefndin var einmitt stofnuð með það að markmiði að viðhalda norrænu samstarfi við þessar aðstæður.

Anker Jørgensen sem var forsætisráðherra Danmerkur flest árin fram til 1982 skrifaði í eftirmála við útgáfu á dagbóka sinna frá forsætisráðherratíðinni, að Danmörk gleymdi ekki norrænu samstarfi þrátt fyrir að vera komnir í evrópskt samstarf:

Þvert á móti reyndum við á einhvern hátt að byggja brú milli Norðurlanda og Evrópu og það var líka það sem hin Norðurlöndin óskuðu eftir.

Í júlí og ágúst 1975 var Finnland gestgjafi á stóru OSCE-ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu.

Fyrsta kastið var líklega fyrst og fremst litið á samþykktir ráðstefnunnar sem fögur orð en kaflinn um mannréttindi sem skilgreindur er í Helsinki-yfirlýsingunni átti eftir að verða lóð á vogarskálar frelsishreyfinga í Austur-Evrópu.

Eftir 1989 – Norræn tengsl og alþjóðleg sýn í nýrri heimsmynd

Hrun Berlínarmúrsins 9. nóvember 1989 olli grundvallarbreytingu pólitísku landslagi, meðal annars í Norður-Evrópu.

Í lok árs 1989 urðu Pólland og Austur-Þýskaland lýðræðisríki og Þýskaland sameinaðist svo í eitt ríki 3. október 1990. Sovétríkin liðu undir lok árið 1991.

Áður höfðu Eystrasaltsríkin reynt að auka sjálfstæði sitt en nú voru þau endurreist sem sjálfstæði ríki eins og þau höfðu verið milli stríða.

Þá höfðu Norðurlöndin þegar komið á tengslum við þau, meðal annars með því að koma upp upplýsingaskrifstofum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Árið 1994 var kosið um aðild að ESB í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Kjósendur í Finnlandi og Svíþjóð samþykktu aðild, en meirihluti norskra kjósenda hafnaði henni í annað sinn. Svíþjóð og Finnland ásamt Austurríki gengu í ESB 1. janúar 1995.

Í október tóku norrænu ríkin fimm í notkun sameiginlega sendiráðsbyggingu í Berlín sem aftur var orðin höfuðborg Þýskalands. Með því að flytja höfuðborgina frá Bonn sem er nálægt frönsku landamærunum færðist öxull Þýskalands til norðurs og austurs.

Árið 2007 myndaði Sambandsþingið í Berlín umgjörð hinnar árlegu þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins, PSPC, þar sem Norðurlandaráð hefur verið afar virkt allt frá fyrstu ráðstefnunni í janúar 1991 - hálfu ári fyrir fall Sovétríkjanna.

Allt Eystrasaltssvæðið, að undanteknu rússneska yfirráðasvæðinu í kringum Pétursborg og Kalíníngrad, á nú aðild að ESB. Enn er afar náið samband milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna en framtíðin mun leiða í ljóst í hvaða átt norrænt samstarf mun þróast.

Ýmsar heimildir

Nánari upplýsingar um sögu norræns samstarfs.

• Frantz Wendt: Nordisk Råd 1952-1978, Nordisk Råd 1979

• Knud Enggaard, (ristjórn): 50 år. Nordisk Råd 1952 – 2002. Til nordisk nytte?, Nordisk Råd 2002,

• Claes Wiklund og Bengt Sundlius (ritstjórn): Norden i sicksack. Tre spårbyten inom nordiskt samarbete, Santérus 2000

• Henrik S.Nissen (ritstjórn): Nordens historie 1397-1997, Norræna ráðherranefndin, 1997

• Anker Jørgensen: Bølgegang/I smult vande/Brændingen (úr dagbókum 1972-1982), Fremad 1989