Saga Norðurlandaráðs

Session
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk beitti stjórnmálafólk þeirra tíma sér fyrir öflugra alþjóðasamstarfi. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, einnig Evrópuráðið og fyrstu skrefin voru tekin að því sem síðar varð Evrópusambandið. Á sama tíma var mikið rætt um að auka Norðurlandasamstarf. Afrakstur þeirrar umræðu er Norðurlandaráð en það var stofnað 1952.
2007–2024

2007 – Nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs: Jan-Erik Enestam frá Finnlandi. 

Álandseyja-yfirlýsingin: Álandseyja-yfirlýsingin er lýsing á verkefnum sem styrkja sjáfsstjórnarsvæðin. Áhrif Álandseyja, Færeyja og Grænlands hafa aukist í norrænu samstarfi í kjölfar Álandseyja-yfirlýsingarinnar sem samþykkt var af samstarfsráðherrunum í Mariehamn á Álandseyjum 5. september 2007.

2009 – Stoltenberg-skýrslan: Tillögur að eflingu norræns samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála eru afhentar norrænu utanríkisráðherrunum á aukafundi þeirra í Ósló þann 9. febrúar 2009. Thorvald Stoltenberg vann skýrsluna fyrir ráðherrana og innihélt hún 13 tillögur.

2014 – Nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs: Britt Bohlin frá Svíþjóð

2016 – Nýtt nefndafyrirkomulag tekið upp í Norðurlandaráði Fyrirkomulagi nefnda breytt þannig að nefndirnar séu fjórar: Norræna þekkingar- og menningarnefndin, norræna sjálfbærninefndin, norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin og norræna velferðarnefndin.

2017 – Brussel: Norðurlandaráð opnar skrifstofu í Brussel. Tilgangur skrifstofunnar er að fylgjast með ESB-málum sem varða Norðurlandaráð ásamt því að vera tengiliður við norræna aðila í Brussel.

2017 – Starfsreglur Norðurlandaráðs eru uppfærðar: Þingmannaráð Sama fær stöðu áheyrnarfulltrúa á fundum Norðurlandaráðs og Norðurlandaráð æskunnar fær stöðu gests. 

2018 – Stefna í alþjóðamálum: Fyrsta stefna Norðurlandaráðs í alþjóðamálum er samþykkt á Norðurlandaráðsþingi 2017. Stefnan felur í sér forgangsröðun nokkrum áherslusviðum í alþjóðastarfi Norðurlandaráðs yfir fimm ára tímabil, 2018–2022, auk stöðumats í utanríkismálum. 

2019 – Stefna um samfélagsöryggi: Stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi er samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi í október 2019. Í stefnunni er áhersla lögð á sameiginlegar áskoranir í tengslum við samfélagsöryggi og viðbúnaðarmál og jafnframt á mikilvægi lýðræðis, grundvallarreglna réttarríkis, mannréttinda og samstarfs.

2021 – Nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs: Kristina Háfoss frá Færeyjum verður fyrsti færeyski framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs og jafnframt sá fyrsti frá konungsríkinu Danmörku. 

2021 – Enestam-skýrslan: Jan-Erik Enestam, fyrrverandi varnarmálaráðherra Finnlands, tekur saman tólf tillögur varðandi norrænt samstarf á krísutímum.

2024 – Norrænn sjóður æskunnar um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni: Ungt fólk getur sótt um styrki til að skipuleggja eða taka þátt í í norrænu starfi sem hvetur ungt fólk á Norðurlöndum til að láta til sín taka í loftslagsmálum og málefnum líffræðilegrar fjölbreytni. 

1989–2007

Samstarf við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland eykst og styrkist

Fimm dögum eftir fall Berlínarmúrsins gerði Karin Söder, forseti Norðurlandaráðs, Evrópustefnuna að umtalsefni á aukaþingi ráðsins í Maríuhöfn í Álandseyjum 14. nóvember 1989:

„Á meðan við erum hér saman komin verða kröfur um frelsi og lýðræði á háværari í nágrannalöndum okkar í Evrópu þar sem sú vara hefur verið af skornum skammti. Þetta er ákall um stuðning okkar sem erum svo heppin að búa í norrænum lýðræðisríkjum ... Norðurlandaráð getur ekki horft á með hendur í skauti.“

Norðurlandaráð sat heldur ekki með hendur í skauti. Á árinu 1990, áður en Sovétríkin liðu undir lok og Eystrasaltsríkin endurheimtu sjálfstæði sitt, höfðu samskipti verið tekin upp við stjórnmálafólk í baltnesku löndunum.

Í september 1989 hafði Anker Jørgensen, fyrrum forsætisráðherra Danmerkur, lagt til að fámennur hópur þingmanna úr Norðurlandaráði færu á þessar slóðir til að ræða umhverfismál. Fimm þingmenn fóru til Moskvu og höfuðborga Eystrasaltsríkjanna í október 1990.

Eftir fundina í Moskvu skrifaði ritari dönsku landsdeildarinnar í Norðurlandaráði:

„Íhaldsöflin eru sterk um þessar mundir þrátt fyrir að þau byggist ekki á öðrum hugmyndum en að viðhalda gömlu kerfi.“

En önnur öfl vildu kerfisbreytingar.

Fulltrúar Eystrasaltsríkjanna sóttu þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í lok febrúar 1991 en mánuði áður hafði dregið til tíðinda í Vilníus og Riga.

Þegar löndin endurheimtu sjálfstæði sitt hófst náið samstarfs Norðurlandaráðs við ný systrasamtök, Eystrasaltsríkjaráðið.

Smám saman jókst einnig samstarf við rússneska þingmenn.

Árið 1996 flutti skrifstofa Norðurlandaráðs frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar undir sama þak og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar.

Samstarfið er enn að þróast og Norðurlandaráð hefur myndað tengsl við þingmenn í ýmsum öðrum löndum utan Norðurlanda.

Árið 2007 voru tekin upp samskipti við stjórnarandstöðu og stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi.

1972–1989

Danmörk gengur í EBE og norrænt samstarf eflist

Ekki var laust við beiskju í dagbókarfærslu sem Jens Otto Krag, forsætisráðherra Danmerkur, skrifaði 18. febrúar 1972 um þing Norðurlandaráðs í Helsinki, tveimur árum eftir að Nordek var samþykkt en dauðadæmt stuttu síðar.

„Ég hef setið öll þingin nema tvö eða þrjú. Við flugum hingað, vélin var troðin af dönskum þátttakendum. Alls vorum við um níutíu manns. Fjöldinn eykst með hverju árinu um leið og vægi ákvarðana minnkar.“

Ári síðar var Danmörk orðin aðili að EBE og margir óttuðust að endalok Norðurlandasamstarfsins væru skammt undan.

En þá hljóp nýtt líf í samstarfið þegar stjórnvöld landanna hófu skuldbindandi samstarf með stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar.

Þegar hér var komið sögu hafði Norðurlandaráð opnað skrifstofu í Stokkhólmi árið 1971. Árið 1973 voru flokkahópar myndaðir í Norðurlandaráði til viðbótar við landsdeildirnar.

Ákvörðunin um stofnun Norræna fjárfestingabankans gaf tilefni til fyrsta aukaþings Norðurlandaráðs en það var haldið í nóvember 1975. Aðalbækistöðvar Norræna fjárfestingabankans voru staðsettar í Helsinki í Finnlandi.

Finnska þingkonan Marjatta Stenius mælti á móðurmáli sínu á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 1976 en á þeim tíma var það brot á starfsreglum ráðsins. En hafði þau áhrif að árið 1977 var tekin upp snartúlkun til framtíðar.

Í lok apríl 1986 varð alvarlegt slys í kjarnorkuverinu í Tsjernobyl í Norður-Úkraínu. Kjarnorkuslysið vakti frekari athygli á umhverfisvanda og átti það einnig við um norrænt samstarf.

Norðurlandaráð hélt tvær stórar ráðstefnur um umhverfismál. Sú fyrri var haldin í Svíþjóð í september 1986 með þátttöku ýmissa Austur- og Vestur-Evrópuríkja. Umræðuefnið var mengun andrúmsloftsins.

Lífríki sjávar var í brennidepli á seinni ráðstefnunni en hún fór fram í Danmörku í október 1989. Allt frá þeim tíma hefur verið lögð mikil áhersla á umhverfismál í norrænu samstarfi.

1953–1971

Finnland slæst í hópinn og fyrstu samnorrænu réttindin taka gildi

Fyrsta þing Norðurlandaráðs var haldið 13. febrúar 1953 í Kristjánsborgarhöll í Danmörku.

Hans Hedtoft, fyrrverandi (og tilvonandi) forsætisráðherra Danmerkur, hafði flutt tillöguna og var kjörinn fyrsti forseti ráðsins.

Finnland slóst ekki í hópinn fyrr en 1955 þegar þíða hafði myndast í samskiptum við nágrannann í austri eftir að Stalín var allur.

Þrátt fyrir að Finnland tæki ekki formlega þátt fyrstu árin voru ákvæði í reglum ráðsins þess efnis að fulltrúar finnskra stjórnvalda og finnska þjóðþingsins gætu tekið þátt ef þeir óskuðu þess.

Sú ósk var borin fram þann 28. október 1955 þegar finnska þingið samþykkti einróma tillögu ríkisstjórnarinnar um aðild Finnlands að ráðinu.

Við setningu fjórða þingsins í Kaupmannahöfn 27. janúar 1956 mælti Bertil Ohlin, sænskur prófessor og forseti ráðsins, á þessa leið:

„Oss fannst sem einn stóllinn stæði auður á meðan Finnana vantaði ... ekki fyrr en nú er norræni hópurinn fullskipaður.“

Sameiginlegur vinnumarkaður Norðurlanda gekk í gildi 2. júlí 1954. Með frjálsri för launafólks varð hann undanfari innri markaðar ESB.

Áhrifa hans gætti líklega mest í Finnlandi en þar fann fólk enn fyrir afleiðingum styrkjaldarinnar og mikilla stríðsskaðabóta í kjölfarið sem finnsku þjóðinni var gert að greiða Sovétríkjunum.

Árið 1952 var tekið upp vegabréfafrelsi á ferðum innan Norðurlanda og árið 1958 var umfangsmeira norrænu vegabréfasambandi komið á, undanfara Schengen-samstarfsins sem við þekkjum í dag.

Nú varð mun auðveldara fyrir Norðurlandabúa að ferðast til nágrannalandanna.

Árið 1955 gekk Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi í gildi.

Þá höfðu farið fram viðræður um tollabandalag eða efnahagsbandaleg, samtímis milli Norðurlanda og Evrópuríkja en í júlí 1959 ákváðu stjórnvöld landanna að taka þau áform af norrænni dagskrá.

Tíu dögum síðar náðu Danmörk, Noregur og Svíþjóð saman um EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu. Finnland gerðist aukaaðili árið 1961. Ekki leið á löngu þar til Danir og Norðmenn sóttu um aðilda að EBE, Efnahagsbandalagi Evrópu.

Staðan innan EFTA breyttist og eins ýtti þessi fyrsta viðleitni norrænna landa til að gerast aðilar að EBE við óskinni um fastan sáttmála um norrænt samstarf.

Hann var endanlega samþykktur í Helsinki 23. mars 1962. „Norræna stjórnarskráin“ var því kölluð Helsingforssamningurinn.

Þar var því slegið föstu að Norðurlandaráð skuli fá tækifæri til að tjá sig um mikilsverð efni norrænnar samvinnu.

Árið 1962 var Norræni lýðheilsuháskólinn vígður í Gautaborg.

3. október 1966 var samningur um Norræna menningarsjóðinn undirritaður. Sjóðnum var einkum ætlað að styrkja menningarverkefni með þátttöku eigi færri en þriggja norrænna landa.

Í ágúst 1968 var Norræna húsið í Reykjavík vígt en það teiknaði finnski arkitektinn Alvar Aalto.

Árið 1968 lagði Hilmar Baunsgaard, forsætisráðherra Danmerkur, til að hafnar yrðu viðræður um norrænt efnahagslegt samstarf og ári síðar komst skriður á undirbúning þess.

Nordek-áætlunin um framkvæmdina var endanlega samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í febrúar 1970.

Þann 24. mars tilkynntu Finnar að þeir myndu ekki undirrita samninginni.

Náin tengsl við Sovétríkin komu í veg fyrir að Finnar leituðu eftir efnahagssamstarfi við norræn ríki sem voru á leið inn í EBE en allt leit út fyrir að Danmörk og Noregur stefndu í þá átt.

Árið 1970 samþykkti Norðurlandaráð að fulltrúar Álandseyja og Færeyja gætu tekið þátt í störfum Norðurlandaráðs gegnum landsdeildir Danmerkur og Finnlands.

Árið 1984 urðu fulltrúar Grænlands einnig aðilar að Norðurlandaráði gegnum landsdeild danska ríkjasambandsins.

Fyrir 1952

Eftir margar misheppnaðar tilraunir eftir lok seinni heimsstyrjaldar tókst að stofna Norðurlandaráð árið 1952

Allt fram til ársins 1949 hafði stjórnmálafólk reynt að skapa skandinavískt varnarbandalag en það tókst ekki þar sem Danmörk, Ísland og Noregur kusu aðild að varnarbandalagi vestrænna ríkja, Norður-Atlantshafsbandalaginu NATO.

Í lok fimmta áratugar síðustu aldar gerðu Danmörk, Noregur og Svíþjóð tilraun til að stofna samþætt tolla- og efnahagsbandalag. Þær tilraunir tókust heldur ekki.

Jens Otto Krag, þáverandi viðskiptaráðherra og síðar forsætisráðherra Danmerkur flest árin á tímabilinu 1962-1972, skrifaði af beiskju:

„Á skrifstofu minni í viðskiptaráðuneytinu í Kaupmannahöfn er skápur þar sem ég varðveiti mikilvæg skjöl. Ein skúffan er merkt „Rannsóknir og fundargerðir um norrænt efnahagssamstarf“. Hún er troðfull. Hún svignar undan pappírum. Þar er engin skúffa merkt „Árangur norræns samstarfs“. Væri hún til væri hún óneitanlega tómlegri og minna um pappír þar.“

Eftir tvær misheppnaðar tilraunin tókst þetta.

Hugmyndina átti Hans Hedtoft, forsætisráðherra Danmerkur, en á 28. fulltrúafundi Norræna þingmannasambandsins þann 13. ágúst 1951 lagði hann til að stofnaður yrði vettvangur þar sem norrænir þingmenn hittust reglulega til samráðs – einnig með norrænum stjórnvöldum.

Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð samþykktu tillöguna árið 1952.

Ýmsar heimildir

Nánari upplýsingar um sögu Norðurlandaráðs

• Frantz Wendt: Nordisk Råd 1952-1978, Nordisk Råd 1979

• Knud Enggaard, (ritstjórn): 50 år. Nordisk Råd 1952 – 2002. Til nordisk nytte?, Norðurlandaráð 2002

• Claes Wiklund og Bengt Sundlius (ritstjórn): Norden i sicksack. Tre spårbyten inom nordiskt samarbete, Santérus 2000

• Henrik S. Nissen (ritstjórn.): Nordens historie 1397-1997, Norræna ráðherranefndin, 1997

• Bo Lidegaard: Jens Otto Krag, 2001 Gyldendal

• Jens Otto Krag: Dagbog 1971-1972, Gyldendal 1973 og 1999