Saga Norrænu ráðherranefndarinnar

logo, logotype, svanen, logga
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Norræna ráðherranefndin var sett á laggirnar árið 1971, eftir að mistekist hafði árið áður að stofna norrænt efnahagsbandalag, svonefnt Nordek-bandalag. Danmörk og Noregur kusu um aðild að Evrópubandalaginu (EB) árið 1972 og eitt af markmiðum Norrænu ráðherranefndarinnar átti að vera að viðhalda norræna samstarfinu ef einhver af Norðurlöndunum kysu að vera jafnframt innan vébanda Evrópubandalagsins.
Tímabilið til 1971

Áður en Norræna ráðherranefndin var sett á laggirnar fóru fram umræður á mörgum stjórnsýslustigum.

Á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í febrúar árið 1971 sagði Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar: „Leiðin að árangursríku norrænu samstarfi er vörðuð stórbrotnum áformum sem urðu að engu.“

En þrátt fyrir vonbrigðin með Nordek var mikil ánægja með stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar. Haldnir voru norrænir ráðherrafundir um ýmis málefni löngu fyrir stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar árið 1971.

Í framhaldi af samningaviðræðum um aukið efnahagssamstarf var þegar árið 1960 komið á fót fastri ráðherranefnd og tilheyrandi samstarfsnefnd sem skipuð var þremur embættismönnum frá hverju landi. Árið 1961 hófst samstarf (sem fest var í sessi með samningi árið1968) milli ráðherra þróunarmála á Norðurlöndum og jafnframt var skipuð embættismannanefnd. Ef frá eru taldar ofangreindar tvær ráðherranefndir fór norrænt samstarf á ríkisstjórnarstigi að mestu leyti fram á óformlegum fundum.

Árið 1971 var Norræna ráðherranefndin stofnuð og settar voru reglur um skipan, verksvið og vinnulag á öllum sviðum. Hafist var handa við að endurskoða Helsinki-sáttmálann frá 1962 til að binda í samninginn að Norræna ráðherranefndin ætti að vera opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Jafnframt voru mótaðar framkvæmdaáætlanir fyrir einstök svið.

1972-1989

Sameiginlegum norrænum stofnunum komið á fót

Norræna ráðherranefndin samþykkti árið 1972 að stofna skrifstofu í Ósló sem átti að taka til starfa árið 1973. Skrifstofa menningarmála hafði þá aðsetur í Kaupmannahöfn. Menningarsamstarfið var eitt af undirstöðusviðum norræns samstarfs og norræn menningarnefnd hafði verið skipuð til að sinna því.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var 25. september 1972 hafnaði meirihluta Norðmanna því að ganga í Evrópubandalagið, en mikill meirihluti Dana samþykkti inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í Danmörku 2. október 1972. Norrænu ráðherranefndinni hafði einmitt verið komið á laggirnar til að viðhalda norrænu samstarfi við þær aðstæður að tengsl norrænu ríkjanna við Evrópusamstarfið yrðu með ólíkum hætti. Danmörk brúaði þó markvisst bilið milli Norðurlanda og EB með því að miðla upplýsingum frá EB til annarra norræna ríkja.

Árið 1973 var fjöldi norrænna stofnana settur á fót, þar á meðal Norræni iðnaðarsjóðurinn og Nordtest, sem nú heitir Norræna nýsköpunarmiðstöðin og hefur aðsetur í Ósló.

Helsinki-sáttmálinn var endurskoðaður á ný árið 1974 til að láta formlegt samstarf landanna einnig ná til umhverfismála, en einmitt á þessum árum var farið að leggja mikla áherslu á þau. Mengun Eystrasalts og Norður-Atlantshafs hefur alla tíð síðan verið ofarlega á dagskrá samstarfs Norðurlandanna.

Forsætisráðherrar Norðurlanda samþykktu í upphafi árs 1975 að setja á fót Norræna fjárfestingabankann. Tillaga þessa efnis hafði verið lögð fram áður, en hafði nú öðlast nýtt gildi vegna olíukreppunnar sem olli óstöðugleika í hagkerfum Norðurlanda. Norræni fjárfestingabankinn er nú farinn að skila meiri hagnaði en sem nemur fjárveitingunum til Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Fjárhagur stofnananna var aðskilinn og á síðustu árum hefur Norræni fjárfestingarbankinn, sem Eystrasaltsríkin þrjú eiga nú einnig hlut í, orðið algerlega óháður Norrænu ráðherranefndinni.

Í yfirfærðri merkingu má þó segja að norrænt samstarf skili hagnaði. Anker Jørgensen, fyrrum forsætisráðherrra Dana, skrifaði í dagbók sína 13. maí 1980 um norrænan ráðherrafund sem þá var haldinn í Hamar í Noregi: „Kl.10 sameiginlegur fundur forsætis- og orkumálaráðherra. Hann stóð í eina klukkustund. Við urðum fljótt sammála um sameiginlega áætlun um eflingu norræns orkusamstarfs. Vandamálin koma ekki upp fyrr en við þurfum að taka áþreifanlegar ákvarðanir.“ Vandinn í þessu sambandi var hvort Noregur vildi leggja gasleiðslu gegnum Danmörku.

Ekkert varð af því, en almennt hafa norrænu ríkin lagt áherslu á að finna skynsamlegar lausnir á vandamálum, til dæmis um myndun raforkunets milli norrænu landanna. Menn hafa verið mjög ósammála um orkugjafa og einungis Svíþjóð og Finnland nota kjarnorku, en ráðherrar orkumála á Norðurlöndum hafa fundið leiðir til að koma á orkuflutningum milli landanna.

Árið 1983 hóf Norræna rannsóknaráðið störf. Stofnunin, sem nú heitir NordForsk, hefur aðsetur í Ósló og vinnur að því að styrkja norrænar rannsóknir.

Byggingu Norðurlandahússins í Þórshöfn í Færeyjum var endanlega lokið árið 1983. Árin 1985 og 1987 voru samsvarandi stofnanir formlega teknar í notkun á Álandseyjum og Grænlandi, en þar eru þær kallaðar „Norræna stofnunin“.. Í Nuuk (Godthåb) á Grænlandi var Menningarhúsið/Katuaq opnað árið 1997 og stóð Norræna ráðherranefndin fyrir byggingu hússins.

Frá árinu 1986 hafa allar skrifstofur Norrænu ráðherranefndarinnar haft aðsetur í Kaupmannahöfn, en skrifstofa menningarmála hafði verið þar frá árinu 1972.

Eftir 1989

Norðurlöndin marka sér stöðu í nýrri heimsmynd eftir hrun Berlínarmúrsins.

Hrun Berlínarmúrsins 9. nóvember 1989 olli grundvallarbreytingu á hinu pólitíska landslagi, meðal annars í Norður-Evrópu. Sovétríkin liðu undir lok árið 1991.

Þegar áður en Eystrasaltsríkin öðluðust sjálfstæði höfðu Norðurlönd komið á tengslum við þau með því að setja á stofn upplýsingaskrifstofur á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Skrifstofurnar í Tallin, Ríga og Vilníus hófu starfsemi sumarið 1991.

Árið 1992 var Eystrasaltsráðið, CBSS, stofnað, af þeim ellefu ríkjum sem eiga land að Eystrasalti. Árið 1993 var Barentsráðið stofnað og Norðurskautsráðið árið 1996. Gott samstarf hefur tekist milli ofangreindra samtaka og Norrænu ráðherranefndarinnar.

Árið 1994 var kosið um aðild að ESB í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Kjósendur í Finnlandi og Svíþjóð samþykktu aðild, en meirihluti norskra kjósenda hafnaði henni í annað sinn. Svíþjóð og Finnland ásamt Austurríki gengu í ESB 1. janúar 1995. Um skeið voru stjórnmála- og embættismenn í þessum tveimur ríkjum líklega áhugasamari um ESB en Norðurlönd, en smám saman færðist líf í norrænt samstarf á ný.

Samstarf Norðurlanda beindist í síauknum mæli út á við, sérstaklega á Eystrasaltssvæðinu. Vegna umbyltingar áranna 1989–1991 dró úr þeirri varfærni sem hafði verið ríkjandi varðandi það að beita sér utan Norðurlanda. Mikil áhersla á Eystrasaltssvæðið hefur þó stundum orðið til þess að Vestur-Norðurlönd hafa orðið útundan. Þó hefur verið stofnað til tengsla við grannríki í vestri á borð við Kanada og Bretlandseyjar.

Árið 1995 var ákveðið að opna Norræna upplýsingaskrifstofu í Pétursborg í Rússlandi. Pétursborg. Í kjölfarið voru opnuð minni útibú í Múrmansk, Arkhangelsk og Petrozavodsk. Jafnframt var komið á fót norrænni upplýsingaskrifstofu í Kalíníngrad árið 2006. Starfsemi skrifstofanna í Rússlandi var stöðvuð árið 2015 vegna þeirrar  ákvörðunar rússneska dómsmálaráðuneytisins að skrá skrifstofurnar þannig að þær séu ekki á vegum neins ríkis en starfi sem „erlendir útsendarar“. 

Árið 1996 flutti skrifstofa Norðurlandaráðs frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar. Hún fékk húsnæði á Store Strandstræde 18, skammt frá Kóngsins Nýjatorgi og Nýhöfn, á sama stað og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar.

Sumarið 2000 var Eyrarsundsbrúin milli Danmerkur og Svíþjóðar opnuð. Áhrifin urðu lítil fyrst í stað, en með tímanum hófst mikil uppbygging á Eyrarsundssvæðinu. Margir íbúar á Skáni í Svíþjóð fengu vinnu í Danmörku og nokkur fjöldi Dana flutti til Malmö í Svíþjóð. Þessi þróun leiddi til þess að aukin áhersla var lögð á afnám stjórnsýsluhindrana, ekki einungis á Eyrarsundssvæðinu heldur alls staðar á Norðurlöndum.

Á leiðtogafundi ESB sem haldinn var í Kaupmannahöfn í desember 2002 var samþykkt að veita nokkrum Mið-Evrópuríkjum aðild að ESB. Frá 1. maí 2004 urðu Eistland, Lettland, Litháen og Pólland ásamt fleiri löndum í Mið-Evrópu hluti af ESB. Allt Eystrasaltssvæðið, að undanteknu rússneska yfirráðasvæðinu í kringum Pétursborg og Kalíníngrad, á nú aðild að ESB. Norræna ráðherranefndin heldur uppi tengslum við öll lönd á Eystrasaltssvæðinu.

Árið 2005 fengu Eistland, Lettland og Litháen fulla aðild að Norræna fjárfestingabankanum til jafns við norrænu ríkin fimm.

Í júli 2010 fluttu skrifstofur Norrænu ráðherranefndarinnar, Norðurlandaráðs og Norræna menningarsjóðsins í nýtt húsnæði í Kaupmannahöfn á Ved Stranden 18, gegnt Kristjánsborgarhöll.

Ýmsar heimildir

Nánari upplýsingar um sögu Norrænu ráðherranefndarinnar:

Frantz Wendt: Nordisk Råd 1952-1978, Norðurlandaráð 1979

Knud Enggaard, (ristjórn): 50 år. Nordisk Råd 1952 – 2002. Til nordisk nytte?, Norðurlandaráð 2002.

Claes Wiklund og Bengt Sundlius (ritstjórn): Norden i sicksack. Tre spårbyten inom nordiskt samarbete, Santérus 2000

Henrik S.Nissen (ritstjórn): Nordens historie 1397-1997, Norræna ráðherranefndin 1997.

Anker Jørgensen: Bølgegang/I smult vande/Brændingen (úr dagbókum 1972-1982), Fremad 1989