1975 Hannu Salama, Finnland: Siinä näkijä missä tekijä

1975 Hannu Salama, Finland: Siinä näkijä missä tekijä
Irmeli Jung

Um höfundinn

Hannu Salama fæddist í bænum Kouvola í suðaustanverðu Finnlandi. Hann er af alþýðufólki kominn og vann á yngri árum sem rafvirki. Hann fylgir finnskri rithefð í skrifum sínum og reynir ekki að bregða fyrir sig nútímalegum stíl. Viðhorf hans til lífsins bera vott um raunsæi og trúleysi. Hannu Salama var meira að segja dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir guðlast þegar skáldsagan Juhannustanssit kom út árið 1964. Þó fór svo að lokum að hann var náðaður af Kekkonen þáverandi forseta.

Um vinningsverkið

Siinä näkijä missä tekijä er ættarsaga þar sem sagt er frá miklum pólitískum átökum í finnsku samfélagi en sagan ber einnig merki þroskasögu. Þar er m.a. greint frá andspyrnu og skemmdarverkum kommúnistahópa í Framhaldsstríðinu (1941-1944). Salama lítur á sig sem alþýðuskáld en þrátt fyrir vinstrisinnaðar skoðanir sínar er hann gagnrýninn á kreddur margra kommúnista. Enda hefur hann sætt harðri gagnrýni úr þeirri átt fyrir að bregða ekki upp einvíðri glansmynd af hetjum kommúnista.

Siinä näkijä missä tekijä

Útgáfa: Otava 

Útgáfuár: 1972

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1975 voru veitt finnska rithöfundinum Hannu Salama fyrir skáldsöguna Siinä näkijä missä tekijä. Í epískum stíl sýnir hann siðferðislega áræðni þegar hann lýsir átakatímum í sögu þjóðar sinnar.