1985 Antti Tuuri, Finnland: Pohjanmaa

1985 Antti Tuuri, Finland: Pohjanmaa
Katja Lösönen

Um höfundinn

Verkfræðingurinn og rithöfundurinn Antti Tuuri fæddist í bænum Kauhava í Austurbotni. Meðal verka hans eru kvikmyndahandrit, óperutextar og leikhúsverk en hann er einkum þekktur fyrir fjölbreyttar epískar skáldsögur. Kvikmyndir hafa verið byggðar á skáldsögum hans, þar á meðal Talvisota sem gerist í finnska vetrarstríðinu og er ein vinsælasta kvikmynd allra tíma í Finnlandi. Hann hefur einnig unnið við þýðingar þar á meðal hefur hann þýtt Íslendingasögur á finnska tungu.

Um vinningsverkið

Skáldsagan Dagur í Austurbotni gerist á aðeins einum degi en engu að síður tekst höfundi að lýsa samfélagsbreytingum yfir lengri tíma og viðleitni mannfólksins til að aðlaga sig nýjum aðstæðum. Höfundurinn málar með grófum pensli sögulegt sjónarhorn samfélagsins en honum er heldur ekki framandi að koma auga á spaugilegar hliðar tilverunnar. Tuuri átti eftir að skrifa framhald sögunnar sem varð að bókaflokki um margar kynslóðir fjölskyldu frá Kauhava. Þar kynnist lesandinn meðal annars fjölskyldum finnskra vesturfara í Kanada.

Pohjanmaa (Dagur í Austurbotni)

Útgáfa: Otava 

Útgáfuár: 1982

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Í skáldsögunni Dagur í Austurbotni bregður Antti Tuuri fyrir sig knöppum og spaugilegum stíl þegar hann lýsir, með átakatíma í sögu finnsku þjóðarinnar í bakgrunni, andstæðum gamallar þjóðfélagsgerðar og nýrra andstæðna milli kynslóða og milli karls og konu.