1988 Thor Vilhjálmsson, Ísland: Grámosinn glóir

1988 Thor Vilhjálmsson, Island: Grámosinn glóir

Um höfundinn

Thor Vilhjálmsson fæddist í Edinborg og nam bókmenntir í Reykjavík, Nottingham og Sorbonne-háskóla í París. Hann var mikilvirkur í íslensku menningarlífi alla tíð. Thor starfaði sem bókavörður á Landsbókasafni, og var síðar starfsmaður Þjóðleikhússins, en gegndi einnig fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir íslenska rithöfunda og listamenn. Hann sendi frá sér fjölda verka af ýmsu tagi, skáldsögur, smásagnasöfn, þýðingar og greinar um menningarmál. Hann var einn stofnandi menningartímaritsins Birtings og sat í ritstjórn þess í fjölda ára.

Um vinningsverkið

Grámosinn glóir segir frá glæp og er sagan byggð á íslensku dómsmáli frá 19. öld þar sem hálfsystkin voru ákærð fyrir sifjaspell. Skáldsagan fjallar um dómarann í málinu. Hann er nýkominn heim frá námi í Kaupmannahöfn og veltir fyrir sér nýjum aðstæðum sínum á Íslandi en einnig sektinni sem sakamálið snýst um. Íslenska landslaginu, sem dómarinn virðir fyrir sér af hestbaki, er lýst á ljóðrænan hátt í prósastíl Thors en í vel heppnaðri uppbyggingu sögunnar má einnig sjá áhrif nýskáldsögunnar sem menn fengust við á meginlandinu um miðja síðustu öld.

Grámosinn glóir

Útgáfa: Svart á hvítu 

Útgáfuár: 1986

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Íslenskri sagnahefð er fléttað saman við nýrri tjáningarform þegar höfundur segir frá viðburðaríku ferðalagi dómarans um goðsagnakennt landslag þar sem hann glímir við tilvistarspurningar um sekt og ábyrgð, skáldskap og raunveruleika.