1998 Tua Forsström, Finnland: Efter att ha tillbringat en natt bland hästar

1998 Tua Forsström, Finland: Efter att ha tillbringat en natt bland hästar

Um höfundinn

Tua Forsström fæddist í Porvoo í Finnlandi. Hún er einkum þekkt fyrir ljóð sín en hefur einnig samið revíur, útvarpsleikrit, kammerleikrit, kabaretta og texta fyrir óratóríu og kantötu. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, þar á meðal ljóðaverðlaun sænska ríkisútvarpsins og Edith Södergran-verðlaunin. Móðurmál hennar er sænska og er hún talin eitt helsta sænskumælandi skáld Finna.

Um vinningsverkið

Efter att ha tillbringat en natt bland hästar inniheldur 26 ljóð sem ort eru til rússneska kvikmyndaleikstjórans Andrei Tarkovskíj og eru í bréfaformi. Segja má að ljóðasafnið sé klippimynd þar sem oft er að finna tilvitnanir í önnur bókmenntaverk og kvikmyndir. Náttúran og dýrin, þar á meðal hestar, eru mikilvægir leikendur í verkum Tua Forsström. Dýrin tákna frelsið til að vera til og skynja en sýna einnig fram á óöryggi lífsins. Ljóðin berast umhverfis hnöttinn, þau lýsa hverfulleika alls og einsemd manneskjunnar - sem stöðugt er hluti af lífinu.

Efter att ha tillbringat en natt bland hästar

Útgáfa: Albert Bonniers Förlag 

Útgáfuár: 1997

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Finnska skáldkonan Tua Forsström hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998 fyrir ljóðabókina Efter att ha tillbringat en natt bland hästar, margræð ljóð þar sem gætir í senn kímni og sorgar. Ljóðin tengjast efnislega, eru hljómfögur og bera með sér sterka nærveru augnbliksins.