Fólki fjölgar á Norðurlöndum

15.02.18 | Fréttir
Cyklende mennesker i Stockholm
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Fólki fjölgar meira á Norðurlöndum en annars staðar í Evrópu. Þá er þróun aldursdreifingar afdráttarlaust á þann veg að eldri árgangar fólks eru hér stærri en að meðaltali annars staðar í álfunni. Greinileg tilhneiging er til meiri fjölgunar á þéttbýlissvæðum á öllum Norðurlöndunum og ástæða þess er ekki síst samspil milli aðflutnings fólks frá frá svæðum utan Norðurlanda og flutnings ungs fólks til borganna. Þetta er meðal margra niðurstaðna sem greint er frá í State of the Nordic Region 2018, nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni þar sem tölfræðilegar upplýsingar eru bornar saman og sett fram samanburðarkort af öllum 74 svæðum Norðurlanda.

Undanfarin tíu ár hefur fólki fjölgað á öllum Norðurlöndunum utan Grænlands, úr 25 milljónum í 27 milljónir. Hlutfallsleg fjölgun er mest í Noregi eða 12,3% og Ísland kemur þar á eftir með 10%. Í fjölmennasta norræna ríkinu, Svíþjóð, hefur fólki fjölgað um 9,7%. Í heild fjölgaði fólki á Norðurlöndum um 8,1% á árunum 2007-2017. Búist er við því að árið 2030 hafi fólki fjölgað í 30 milljónir úr þeim 27 milljónum sem Norðurlandarbúar eru nú.

Fjölgunin byggir á aðfluttu fólki

Ástæða fólksfjölgunarinnar er fyrst og fremst flutningar fólks frá löndum utan Norðurlanda. Frá árinu 2000 hafa 4,3 milljónir manna flust til Norðurlandanna frá löndum utan svæðisins meðan 2,5 milljónir manna hafa flust frá Norðurlöndum til annarra staða í heiminum. Aðfluttir umfram brottflutta eru því 1,8 milljónir manna og aðalástæða fólksfjölgunar á Norðurlöndum.

Í þessum hópi er fólk sem er aðflutt vegna vinnu, námsfólk, flóttafólk og fleiri. Stærsti straumur flóttafólks miðað við stærð lands hefur legið til Svíþjóðar – 16,7 hælisleitendur á hverja 1000 Svía árið 2015, árið sem flest flóttafólk kom til landsins. Samsvarandi tala fyrir Noreg er 6,0 og Finnland fylgir á eftir með 5,9. Á síðustu 20 árum hefur norrænum borgurum sem fæddir eru utan svæðisins fjölgað úr 6,5% árið 1995 í 14,3% árið 2015.

Stækkandi borgir

Á öllum Norðurlöndunum er skýr tilhneiging til þess að borgir fari stækkandi. Sé litið til þróunar fram til 2030 er búist við því að fólksfjölgun á svæðunum í kringum Kaupmannahöfn/Malmö, Stokkhólm, Ósló og Helsinki verði meira en 10 prósent en staðan nú er þannig að um 20% alls fólks á Norðurlöndunum á heima á höfuðborgasvæðum landanna. Þá er fjölgunin enn örari í nokkrum millistórum borgum en á höfuðborgarsvæðunum í löndum eins og Finnlandi og Noregi.

Ástæða þess að borgirnar stækka er ekki síst að unga fólkið flyst til borganna til náms eða starfa, auk þess sem stór hluti aðflutts fólks sest að í borgum. Þetta hefur einnig í för með sér að þrátt fyrir að íbúarnir eldist almennt séð, þá eldast þeir mun minna á stærstu borgarsvæðum Norðurlandanna.

Þegar litið er til innflytjenda verður myndin þó enn margbreytilegri ef skoðuð eru öll svæði á Norðurlöndum því þrátt fyrir að stór hluti innflytjenda setjist að í stærri borgum þá er það svo að í 310 sveitarfélögum af um það bil 1200 alls, fjölgar íbúum eingöngu vegna aðflutnings fólks.

Íbúarnir eldast

Almennt eru Norðurlandabúar þó að eldast. Ástæðan er fyrst og fremst afar stórir árgangar fólks á aldrinum 65 til 79 ára þar sem hlutfallslega fleri lifa lengur en áður.
Framreikningur í skýrslunni sýnir auk þess að fólki mun halda áfram að fjölga á árunum fram til 2030 en lítillega hægar en verið hefur.

Það kemur ekki á óvart að framreikningur sýnir einnig að það sem kallað er „old age dependency“ eykst. Á stórum svæðum í Finnlandi verður um helmingur fullorðinna íbúa eldri en 65 ára árið 2030 miðað við núverandi þróun. Og það eru aðeins örfáir staðir, eins og til dæmis miðbær Stokkhólms, þar sem skipting milli vinnandi fólks og fólks á eftirlaunaaldri verður ekki enn skakkari. Hlutfallslegur fjöldi vinnandi fólks hefur í raun minnkað á Norðurlöndum síðustu tíu ár, nema á Grænlandi. Hraðinn á þessari þróun virðist aðeins eiga eftir að aukast.

Norræn þekkingardreifing

State of the Nordic Region og allmargar aðrar útgáfur eru niðurstaða aukinnar áherslu Norrænu ráðherranefndarinnar á að leggja fram nýja þekkingu sem nýst getur þeim sem taka ákvarðanir á Norðurlöndum, þvert á landamæri.

  Í skýrslunni er bent á og greindir bæði þættir sem hafa gengið vel og áskoranir á mikilvægum sviðum samfélagsins. Þetta er norrænt samstarf eins og það gerist best.

  „Í State of the Nordic Region er stillt upp þekkingu og upplýsingum sem veita heildarmynd af þeirri þróun sem á sér stað á Norðurlöndum og styðja stefnumótun þeirra sem ákvarðanirnar taka. Í skýrslunni er bent á og greindir bæði þættir sem hafa gengið vel og áskoranir á mikilvægum sviðum samfélagsins. Þetta er norrænt samstarf eins og það gerist best,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

  Skýrslan er unnin af Nordregio, fræðastofnun ráðherranefndarinnar í skipulags- og byggðamálum, sem hefur gefið út sambærilegar skýrslur í mörg ár en eykur nú framlag sitt með enn metnaðarfyllri útgáfu en áður. Auk kafla um lýðfræði, efnahagsmál og vinnumarkað eru kaflar um um stafræna tækniþróun, lífhagkerfi, heilsufar og menningu. Nánari upplýsingar á www.norden.org/nordicregion2018.

  Fróðleiksmolar:

  Norðurlöndin í heild: Fólksfjölgun um 8,1,% frá 2007 til 2017, þar af 5,8% vegna aðflutnings fólks. Íbúum borga hefur fjölgað um 7,5% á árunum 2011-2016.

  • DK: Fólksfjölgun um 5,5% frá 2007 til 2017. Fram til 2030 er búist við að 80% fjölgunarinnar verði á Kaupmannahafnarsvæðinu og á austurhluta Jótlands, ásamt svæðinu í kringum Óðinsvé. Almennt er fjölgun fólks í borgum í Danmörku þó minni en á Norðurlöndum að meðaltali en í dönskum borgum fjölgaði fólki um 4,3% á árunum 2011-2016 meðan fólksfjölgun í heild nam 2,6%. 
  • FI: Fólksfjölgun um 4,3% frá 2007 til 2017, ein sú minnsta á Norðurlöndum. Fólksfjölgunin dreifist meira en í löndum eins og Danmörku og Svíþjóð en er samt mest í fáeinum borgum. Á stórum svæðum í norðanverðu landinu verður meira en helmingur fólks yfir 15 ára aldri 65 ára og eldri árið 2030.
  • ÍS: Fólksfjölgun um 10% milli áranna 2007 og 2017, þar af eru aðeins 2% vegna aðflutnings fólks en það er lægsti hlutur innflytjenda í fólksfjölgun á Norðurlöndum á þessu tímabili. Um leið er Ísland það Norðurlandanna þar sem minnstur hluti fólks er meira en 65 ára.
  • NO: Fólksfjölgun er mest í Noregi af Norðurlöndunum en hún nemur 12,3 prósentum, þar af er aðflutningur fólks tveir þriðju hlutar og því hvergi meiri á Norðurlöndum. Fólksfjölgun í borgum er gríðarleg en fólki í borgum í Noregi fjölgaði um 9,4% frá 2011 til 2016 en á þeim tíma var heildafjölgun í landinu 6%. Á árunum fram til 2030 er búist við að fjölgun í borgum muni fyrst og fremst eiga sér stað umhverfis Ósló og meðfram ströndinni.
  • SV: Í Svíþjóð hefur fólksfjölgunin numið 9,7% milli áranna 2007 og 2017. Búist er við að stærsti hluti fjölgunarinnar á árunum fram til 2030 verði á belti frá Stokkhólmi til suðurs í áttina að Malmö. Svíþjóð á Norðurlandametið í fólksfjölgun í borgum en borgarbúum þar fjölgaði hvorki meira né minna en um 10,5% milli áranna 2011 og 2016 en heildarfólksfjölgunin í landinu var 4,6% á sama tíma.

  State of the Nordic Region 2018

  State of the Nordic Region er einstakt safn af samanburðargögnum og kortum sem sýna efnahag, fólksflutninga, atvinnu, menntun, orku, nýsköpun, tækni og menningarvenjur á hverju svæði fyrir sig á öllum Norðurlöndunum. Í skýrslunni er meðal annars að finna svæðisbundið væntingavísitölu þar sem sjá má hástökkvara og svæði sem hafa orðið undir meðal hinna 74 svæða sem Norðurlöndunum er skipt í. State of the Nordic Region er gefið út annað hvert ár af Nordregio og unnin á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

  Contact information