Jafnréttisráðherrar: Skólarnir jarðvegur fyrir jafnrétti á Norðurlöndum

15.06.14 | Fréttir
Skólarnir eru kjörinn vettvangur til þess að uppræta staðlaðar kynjaímyndir og leggja grunn að nýjum hugsunarhætti um karlmennsku og náms- og starfsval til framtíðar. Þetta kom fram í umræðum á fundi norrænu jafnréttisráðherranna í Málmey í dag.

Norðurlandasamstarf um jafnréttismál hefur nú staðið yfir í 40 ár og því var horft fram á veginn í umræðum ráðherranna á jafnréttisráðstefnunni Nordiskt Forum. Eygló Harðardóttir, jafnréttisráðherra Íslands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar 2014, lagði áherslu á að jafnréttisstarf á Norðurlöndum taki til karlmanna og drengja:

„Á næstu árum ættum við að beina sérstakri athygli að mótun karlmennskuímynda í samfélaginu og áhrifum þeirra á samskipti kynjanna.“

Maria Arnholm (FP), jafnréttisráðherra Svíþjóðar, lagði áherslu á að það væri ekki síst námsins vegna sem þyrfti að efla jafnréttismiðaða nálgun í skólastarfi:

„Við þurfum að leggja okkur fram um að jafna mun á námsárangri kynjanna, meðal annars með því að hvetja fleiri drengi til að lesa meira.“  

Finnski sendiherrann í Svíþjóð, Harry Helenius, benti á mikilvægi þess að mennta kennara og námsráðgjafa í jafnréttismálum, en Solveig Horne, jafnréttisráðherra Noregs (Frp), minntist sérstaklega á tengsl skóla, aðlögunar og vinnumarkaðar:

„Menntun gerir fólki kleift að sjá sér farborða. Það er mikilvægt jafnréttismál að fleiri konur af erlendum uppruna fari út á vinnumarkað. Tungumálakunnátta og menntun eru þar lykilatriði.“

Ráðherrarnir voru á einu máli um að staðlaðar kynjaímyndir, sem látnar væru óáreittar, gætu stuðlað að kynbundnu ofbeldi í samfélaginu. Manu Sareen (RV), jafnréttisráðherra Danmerkur, varaði einnig við kynjamisrétti í daglegu lífi fólks:

„Líkamlegt ofbeldi er öfgakennd birtingarmynd þess að grundvallarréttindi kvenna séu lítilsvirt. En við þurfum líka að berjast gegn kynjamisrétti í daglegu lífi okkar, svo sem þegar konur verða fyrir áreitni í skóla, vinnu eða öðru opinberu rými.“

Opinbert norrænt samstarf um jafnréttismál hefur nú staðið yfir í 40 ár. Af því tilefni efnir Norræna ráðherranefndin til fjölda viðburða á árinu, meðal annars í tengslum við Nordiskt Forum í Málmey. Lesið meira hér: www.norden.org/jamstalldhetsjubileum