Norrænir ráðherrar: Samband aukinnar skjánotkunar og vanlíðanar meðal barna og ungmenna er áhyggjuefni

17.04.24 | Fréttir
Iphone og digitalisering
Ljósmyndari
Photo by Gilles Lambert on Unsplash
Norrænum félags- og heilbrigðisráðherrum ber saman um að vinna þurfi í auknum mæli að því þvert á Norðurlönd að skoða áhrif skjánotkunar á heilsu og velferð barna og ungs fólks.

Þótt stafrænar lausnir geti haft jákvæð áhrif á félagslega samveru sýna margar rannsóknir að aukin skjánotkun og snemmbúin notkun snjallsíma hafi neikvæð áhrif á svefn, velferð og sjálfsmynd barna og ungs fólks. Það efni sem skoðað er getur jafnframt haft ýmist jákvæð eða neikvæð áhrif.

Ráðherrarnir vilja að skoðað verði hvernig norrænu löndin geti snúið bökum saman og tekist á við þetta.

„Mikill hluti af frítíma barna og ungmenna einkennist af skjánotkun í dag. Þar eiga þau í félagslegum samskiptum og geta aflað sér ýmiss konar upplýsinga og þekkingar. Á sama tíma er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af neikvæðum áhrifum á heilsu og velferð barna og ungmenna sem hljótast af aukinni notkun.

Því viljum við þrýsta á tæknifyrirtækin að axla ábyrgð og grípa til aðgerða til þess að lágmarka neikvæð áhrif af vörum sínum á heilsu barna og ungmenna.“

Svo hljóðar yfirlýsing ráðherranna eftir fund þeirra í Stokkhólmi. 

Ljósmyndari
Boris Vasic

Sérfræðingur leggur til fleiri símalaus svæði

Á fundinum heyrðu ráðherrarnir frá Sisselu Nutley, sérfræðingi hjá Karólínsku stofnuninni, sem vísaði til norrænna og alþjóðlegra rannsókna á þessu sviði. Hún greindi meðal annars frá skýrum tengslum á milli þess hve snemma börn fá snjallsíma og neikvæðum áhrifum á andlega heilsu þeirra. Einnig má sjá að hlutfall unglinga sem fá sex tíma svefn eða minna á nóttunni hefur hækkað á undanförnum tíu árum þar sem fleiri sofa með símann inni í svefnherbergi.

Hún kom því með skýrar tillögur til ráðherranna um að vinna saman að því að koma upp símalausum svæðum, ekki bara í skólanum.

„Við þurfum að hjálpa börnum og ungmennum með því að búa til fleiri símalaus svæði. Þau þurfa að læra af okkur að þegar við eigum í samskiptum leggjum við símann frá okkur því annars festist samtalið ekki í minni. Símalaus svæði geta verið þegar við erum með öðrum, í svefnherberginu eða í skólanum.“

Jakob Forssmed, félagsmálaráðherra Svíþjóðar tekur undir þetta og telur að Norðurlönd þurfi að spýta í lófana í þessum efnum:

Áætlað er að starfshópar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um félags- og heilbrigðismál skili tillögum sínum síðar í ár.