Norræna velferðarnefndin á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna – „Mikilvægur vettvangur til þess að styrkja jafnrétti á Norðurlöndum og í heiminum“
„Við sjáum að jafnrétti á undir högg að sækja á Norðurlöndum og í heiminum öllum og þess vegna er mikilvægt að setja jafnréttismálin ofarlega á dagskrá stjórnmálanna. Mörg vilja sjá Norðurlönd taka forystu í vinnunni að jafnréttismálum,“ segir Eva Lindh.
„Í ár snerist kvennafundurinn að miklu leyti um efnhagslegt jafnrétti. Hvað þýðir það að konur hafi úr minna að moða en karlar og hvernig getum við breytt því? Einnig var fjallað um ofbeldi gagnvart konum, sem er líka stórt og mikið vandamál hjá okkur á Norðurlöndum. Við ræddum líka mikið um það hvaða beinu hindranir eru í vegi fyrir því að ná raunverulegu jafnrétti,“ segir Tone Wilhelmsen Trøen.
Margir áhugaverðir fundir
Þétt dagskrá var á fundinum og hittu þær meðal annars jafnréttismálaráðherra Póllands, Katarzynu Kotula, og fulltrúa allra norrænu sendinefndanna auk þess að funda með færeysku sendinefndinni sem skipuð var öllum konunum tíu sem sæti eiga á færeyska þinginu.
„Það var að okkar mati mjög jákvætt að Færeyingar skyldu taka þátt í kvennafundinum með jafn öflugum hætti og raunin var og við áttum góðar umræður við þær um mikilvæg málefni, svo sem umræðuna í Færeyjum um lög um þungunarrof,“ segir Tone Wilhelmsen Trøen.
Áfram mikilvægt að vinna að jafnréttismálum
Báðar eru þær sammála um að mikilvægt sé fyrir Norðurlandaráð að taka þátt í þessum árlega kvennafundi.
„Það er mikilvægt að við tökum þátt í kvennafundinum til langs tíma. Við viljum halda áfram að berjast fyrir jafnrétti á Norðurlöndum öllum,“ segir Eva Lindh.