Opið samráð um væntanlegar samstarfsáætlanir Norrænu ráðherranefndarinnar
Samstarfsáætlanirnar lýsa pólitískum áherslum og markmiðum einstakra ráðherranefnda fyrir næsta sex ára tímabil og þeim er ætlað að stýra starfi þeirra við að uppfylla „Framtíðarsýn okkar fyrir 2030“. Allar ráðherranefndirnar 14 samþykktu í febrúar 2024 lokadrög að þeirra eigin samstarfsáætlunum.
Við gerð samstarfsáætlananna var lögð áhersla á að frjáls félagasamtök, atvinnulíf og aðrir viðeigandi aðilar kæmu að ferlinu. Norðurlandaráð, þingmannasamstarfið og samstarfsnet frjálsra félagasamtaka, Nordic Civ, hafa tekið virkan þátt og skilað skriflegu innleggi um samstarfsáætlanirnar. Þetta er dýrmætt framlag sem hefur verið tekið til greina við gerð samstarfsáætlananna.
Nú geta allir sem hafa áhuga á málefnum Norðurlanda lesið og komið sjónarmiðum sínum um samstarfsáætlanirnar á framfæri með því að fylla út og senda inn eyðublað á vefsíðu norræna samstarfsins.
Um „Framtíðarsýn okkar 2030“
Framtíðarsýn Norðurlanda er að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Allt samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á að þjóna því markmiði. Norræna ráðherranefndin vinnur fram að árinu 2030 samkvæmt þremur stefnumarkandi áherslum til að uppfylla þessa framtíðarsýn:
- Græn Norðurlönd – saman ætlum við að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélögum okkar og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásarhagkerfi og lífhagkerfi.
- Samkeppnishæf Norðurlönd – saman ætlum við að efla grænan hagvöxt á Norðurlöndum, byggðan á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu.
- Félagslega sjálfbær Norðurlönd – saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.