Almenningur er hreyfiafl Stjórnsýsluhindranaráðs

19.02.14 | Fréttir
„Ég bind miklar vonir við að árangur náist í baráttunni gegn stjórnsýsluhindrunum gegnum þetta nýja fyrirkomulag. Norrænu forsætisráðherrarnir og Norðurlandaráð hafa sett þessi mál ofarlega á forgangslistann,“ segir Siv Friðleifsdóttir, formaður nýstofnaðs Stjórnsýsluhindranaráðs.

Í tengslum við þing Norðurlandaráðs í október 2013 undirrituðu norrænu forsætisráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu um að berjast gegn stjórnsýslulegum hindrunum á Norðurlöndum. Það mun krefjast nýrra aðferða og aðgerðaáætlunar og því hefur sérstakt Stjórnsýsluhindranaráð verið stofnað, en í því er einn fulltrúi frá hverju Norðurlandanna, þar á meðal frá Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.
 
„Við höfum öflugt umboð til að fást við mál tengd stjórnsýsluhindrunum. Meðlimir ráðsins, sem eru útnefndir af samvinnuráðherra í hverju landi fyrir sig, geta gefið sér tíma til starfsins og notfært sér úrræði sem til staðar eru í löndunum.“  

Siv nefnir að hver fulltrúi í Stjórnsýsluhindranaráði muni vinna með 3–5 stjórnsýsluhindranir á ári.
„Við getum ekki tekist á við allt í einu heldur veljum við nokkur atriði og sinnum þeim af kostgæfni, ýmist uns málið er leyst eða við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé óleysanlegt. Reynist mál óleysanlegt skal upplýsa borgarana um það.
Sumar þessara hindrana hafa áhrif á marga aðila, en aðrar hafa mikil áhrif á fáa.“

Frjálst flæði er grundvöllurinn

Grundvöllur norrænnar samvinnu er frjálst flæði og hreyfanleiki milli landanna fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki, með hagvöxt og atvinnusköpun að markmiði. Stundum kann viljinn til að samræma ólík kerfi þó að stangast á við lög og reglur í einstökum löndum.

„Möguleikinn á hreyfanleika milli landanna ætti að vega þyngra en hagsmunir einstakra þjóða, en við verðum að vera raunsæ. Norðurlöndin eru ekki eitt land og Stjórnsýsluhindranaráð er ekki yfirvald sem getur ráðskast með einstök ríki eða sjálfsstjórnarsvæði, en við eigum að vinna saman. Við berum okkur ólíkt að og fyrir vikið myndast stjórnsýsluhindranir. Í mörgum tilfellum getum við þó unnið saman að lausn vandans.“

Gott samstarf við Norðurlandaráð

Að mati Sivjar ríkir gagnkvæmur vilji til samstarfs milli þingmanna Norðurlandaráðs og ráðherranna. Hún hefur fundað með öllum flokkahópum og nýjum Stjórnsýsluhindranahópi Norðurlandaráðs.

„Fundirnir voru mjög uppbyggilegir. Mikill vilji er til að þróa starfið í sameiningu. Það veitir von um að við getum náð árangri, en þar sem margar stjórnsýsluhindranir eru margslungnar er þörf á að breyta lögum og reglum einstakra ríkja.“

Réttar upplýsingar

„Stjórnsýsluhindranaráðið á að standa með borgurunum,“ segir Siv.
„Almenningur er hreyfiaflið og það er okkar að þrýsta á yfirvöld þegar þörf krefur.“

Upplýsingaþjónusta Norðurlandaráðs, Halló Norðurlönd, svo og svæðisbundnar upplýsingaskrifstofur á landamærasvæðum eru Stjórnsýsluhindranaráðinu mikilvægir samstarfsaðilar.
„Þessir aðilar geta fylgst með gangi mála vegna tengsla sinna við almenna borgara sem reka sig á raunverulegar stjórnsýsluhindranir.“

Halló Norðurlönd og svæðisbundnar skrifstofur á landamærasvæðum eru einnig mikilvæg með tilliti til þess að réttum upplýsingum sé miðlað til borgaranna.
„Gangi ekki að uppræta tiltekna hindrun er mikilvægt að fólk fái réttar upplýsingar áður en það tekur ákvörðun um að flytja eða hefja störf í öðru landi. Mikilvægt er að hafa reglur á hreinu og átta sig á því hvaða afleiðingar ákvarðanir muni hafa.“